12.11.2006 | 12:07
Ég verð líklega að athuga minn gang
Nú er ég að fara að hrósa framsóknarmanni, í annað skipti á fáum dögum. En það verður að gera fleira en gott þykir, og hrós á hann skilið.
Það að leggja niður mannanafnanefnd og taka upp "líberalisma" (á ekkert skylt við íslenska "líberal" flokka) hvað varðar mannanöfn yrði tvímælalaust til bóta á Íslandi. Sú ábyrgð að meta hvort að nafn sé við hæfi er mun betur komin hjá foreldrum en opinberri nefnd.
Vitanlega munu koma upp nöfn sem mörgum eiga eftir að finnast skrýtin jafnvel undarleg, en þannig er lífið einfaldlega, smekkur manna er misjafn og á að vera það, en ekki einn sameiginlegur ríkisamsettur.
Þetta er líka stórt hagsmunamál fyrir innflytjendur sem geta gefið börnum sínum nöfn sem minna á upprunann. Því þótt að rétt sé að hvetja innflytjendur til að aðlagast, er full ástæða fyrir þá að leggja rækt við uppruna sinn.
Þeir sem lesa þessa síðu reglulega, vita líklega að ég er innflytjandi, í Kanada nánar tiltekið. Tvisvar á síðustu 3. árum hef ég valið börnum nafn með eiginkonu minni. Við höfum haft í huga að við viljum að börnin hafi nöfn sem geti gengið jöfnum höndum á Íslandi, Eistlandi og hér í Kanada. Einnig hafði ég mikinn áhuga á því að börnin yrðu kennd við mig, en tækju ekki upp eftirnafnið Gunnarsson.
Og viti menn, kerfið hér í Kanada er til fyrirmyndar. Hér er fyllt út form, enginn skiptir sér af því hvað börnin eiga að heita, og þegar kemur að eftirnafni, er einfaldlega boðið upp á það að ef þú villt ekki fara eftir kanadískum hefðum hvað það varðar, þá merkir þú við í annan af tveimur reitum, sem segir að óskin sé annað hvort af "ethnic" eða "religious" ástæðum.
Því eru börnin mín Tómasson og Tómasdóttir, rétt eins og við höfum kosið og engin vandamál því fylgjandi.
Verði nafnafrelsi leitt í lög á Íslandi er það tvímælalaust til bóta og fagna ég þessu frumvarpi ákaflega.
Vilja leggja mannanafnanefnd og mannahafnaskrá niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Menning og listir, Trúmál og siðferði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.