Slæmur sonur

Það er erfitt að þurfa að játa það, en líklega verð ég að teljast slæmur sonur.  Raunar allt að því forhertur. Guðhræddir menn myndu jafnvel segja að ég væri hatrammur.  Hvers kyns sonur er það sem teflir lífi móður sinnar í hættu dag eftir dag?  Til að bæta gráu ofan á svart, er það svo í eintómu eiginhagsmunaskyni.

Í stað þess að drífa mig heim til Íslands með fjölskylduna og leyfa börnunum að hitta ömmu sína og hafa þá jafnframt tækifæri á því að gefa þeim almennilegan mat, þá lokka ég móður mína hingað í útlandið.

Þegar hún er hingað komin hefst ég svo handa við að troða ofan í hana hættulegu keti, sem ég kaupi í þokkabót hrátt út í búð, en veit þó full vel að það er stórhættulegt Íslendingum.

Þetta lætur hún yfir sig ganga, brosir framan í börnin, kyssir þau og kjassar og lætur sem ekkert sé.

Ég hef jafnvel gengið svo langt að láta hana éta útlent lambakjet. Grimmdin gerist nú varla meiri. Svo hefur hún þurft að þola stórhættulegt svínakjöt, og allir vita nú hvað hættulegir kjúklingarnir eru hérna.

Ég hef meira segja gefið henni tómata sem eru ekki einu sínni ræktaðir í gróðurhúsi.

Í kvöld gaf ég henni svo nautakjöt, sem líklega hefur verið fullt af einhverjum hroða og kórónaði athæfið með því að hafa spælegg með.

En línuna dreg ég við linsoðin egg.  Ég er nú ekkert skrýmsli.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Tilgangurinn með þessum skrifum er hvorki djúpur né merkilegur.  Ekki er ég heldur að leggja drög að því að fá einhvern sérstakan mat, næst þegar ég heimsæki landið bláa, hvenær sem það verður.

Hitt er, að mér hefur upp á síðkastið ofboðið hvernig ýmsir stjórnmálamenn og aðrir Íslendingar tala um erlend matvæli.  Það er engu líkara en einstaklingum sé búin bráð hætta með því að neyta þeirra. 

Hitt er svo að mýtan um að Íslenskar landbúnaðarafurðir beri af öðrum er lygileg lífseig.  Vissulega er margt ágætt í hinni Íslensku landbúnaðarflóru, en margt einnig sem er ekki beysið.  Þannig er það víða, enda þarf að vanda valið hvar sem maður er staddur.

Svona til að enda þetta bæti ég því við að mér þætti það auvðitað ekki verra, ef verð á matvælum væri orðið heldur skaplegra, næst þegar leið mín liggur til Íslands.

G. Tómas Gunnarsson, 18.5.2008 kl. 18:14

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þau eru fleiri en marga Íslendinga grunar, löndin þar sem etin eru hrá egg.  Ekkert vandamál er að gera slíkt hér í Kanada.  Hér hef ég gjarna á boðstólum grásleppukavíar og hráar eggjarauður og hefur engum orðið meint af.  Buff tartar nýtur sömuleiðis nokkurra vinsælda hjá sumum hér um slóðir og hef ég ekki frétt að skæðu mannfalli.

Hitt er svo að óværan leynist víða.  Síðan ég flutti hingað til Kanada hef ég ekki lesið um nema 1. skætt salmónellusmit (líklegt er þó að þau séu fleiri, án þess að ég hafi af þeim frétt).  Það var fyrir nokkrum vikum og var smitið rakið til melóna sem höfðu verið fluttar inn frá Hondúras.  Eftir því sem ég best veit er ekki bannað að flytja melónur þaðan til Íslands, enga þær ekki í samkeppni við innlenda framleiðslu, né man ég eftir sérstökum hræðsluáróðri fyrir neyslu slíkra ávaxta.

Hvað varðar tilveru landbúnaðar á Íslandi, tel ég augljóst að hann dragist verulega saman, það er eðlilegt.  Það gera framleiðslugreinar sem eru ekki samkeppnishæfar yfirleitt fyrr eða síðar.

Ef bændur geta ekki fengið neytendur til að velja frekar Íslenskar vörur en erlendar, eða geta ekki keppt í verði metið á móti gæðum þá segir það sig sjálft.

G. Tómas Gunnarsson, 18.5.2008 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband