7.5.2008 | 15:14
Hin syngjandi bylting
Fyrir nokkru minntist ég stuttlega á heimildamyndina "The Singing Revolution", sem gerð var um baráttu Eistlendinga fyrir endurheimt sjálfstæðis síns.
Í gærkveldi höfðum við Bjóráhjónin loks tök á því að sjá myndina, en hún hefur verið sýnd í kvikmyndahúsi hér í Toronto undanfarna daga.
Myndin olli ekki vonbrigðum. Gríðarlega sterk heimildamynd, átakanleg og bjartsýn í senn. Partur af sögu þjóðar sem lenti á milli tveggja helstefna, nazismans og kommúnismans og var fótum troðin af þeim báðum.
Tug þúsundir manna, kvenna og barna flutt í gripavögnum á brott. Sumir í fangabúðir nazista, aðrir í Sovéska Gulagið. Tug þúsundir flýðu í stríðslok. Fjölskyldur splundruðust. Að stríðinu loknu hafði þjóðin misst yfir fjórðung af íbúunum.
Sumur flúðu í skógana og síðasti Eistneski "skógar bróðirinn" var handtekin árið 1978.
Skipulega reynt að útrýma menningu og tungumáli íbúanna.
Það er erfitt fyrir mig sem ekki heldur lagi að skilja hvað fær fólk til að leggja til atlögu við heimsveldi, með sönginn að vopni. En ég söngur og sönglög héldu þjóðinni saman. Líklega get ég seint eða aldrei skilið hvað söngurinn er þjóðinni mikilvægur.
Enginn lét lifið í þessari baráttu Eistlendinga, þó að stundum skylli hurð nærri hælum. Lettar og Litháar voru ekki eins heppnir.
En Eistlendingar háðu baráttu sína friðsamlega, þeirra vopn voru orð, lög (hér í lögfræðilegum skilningi) og söngur.
Þeir höfðu sigur.
Ég sá að myndin var erfið áhorfs fyrir konuna mína og marga aðra sem voru í kvikmyndahúsinu. Upprifjun á stríðinu og fyrstu árunum á eftir er mörgum erfið. Það leiðir hugann að þeim sem létu lífið, hurfu. Því sem næst allir Eistlendingar sem ég hef hitt misstu einhvern, í stríðinu eða í Gulagið. Afa, móður, ömmu, bróður, systur, faðir, frænda eða frænku. Skólafélagar og vinir hurfu.
En ég gef myndinni mín bestu meðmæli.
Ég held að hún ætti fullt erindi við Íslendinga. Líklega gengi hún varla á almennum kvikmyndasýningum, en væri fengur fyrir kvikmyndahátíð eða daga og vel þess virði fyrir Sjónvarpið að taka hana til sýningar.
Heimasíða myndarinnar: http://www.singingrevolution.com/Meginflokkur: Kvikmyndir | Aukaflokkar: Saga, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.