Tveir fasteignasalar

Sá þegar að ég horfði á fréttir á netinu að Talsmaður neytenda (eða öllu heldur sá sem hið opinbera réð í stöðu sem það kallar talsmaður neytenda) og bloggvinur minn, Gísli Tryggvason,  var að kalla eftir því að tveir fasteignasalar kæmu að sölu hverrar fasteignar.  Það er, einn fasteignasali sem þjónaði hagsmunum seljanda og annar fasteignasali sem sinnti hagsmunum kaupenda.

Sjálfur hef ég nokkra reynslu af þessu fyrirkomulagi, meira að segja í tveimur löndum, Íslandi og Kanada og ákvað því að setja niður nokkur orð um þetta.

Þegar ég keypti mér íbúð á Íslandi árið 1998, fékk ég í lið með mér fasteignasala sem sá um að hafa augun opin fyrir eignum sem hentaði mér, og stóð með mér í kaupunum.  Þetta fyrirkomulag reyndist mér vel, en ég veit ekki hvort að hann fékk einhvern hluta af sölulaunum fasteignasala seljandans, en ég veit þó að það er velþekkt fyrirkomulag.

Hér í Kanada skoðaðum við hús í gríð og erg í marga mánuði, án fasteignasala til að gera okkur grein fyrir markaðnum, en fengum svo fasteignasala í lið með okkur þegar það kom meiri alvara í málið.  Þetta virkaði ágætlega og ég hygg að flestir hér hafi fasteignasala á sínum snærum, það sparar einfaldlega svo mikla fyrirhöfn, en það ber að hafa í huga að hér ganga lögfræðingar (seljandi og kaupandi með sitthvorn lögfræðingin) endanlega frá málum og yfirfara alla samning, yfirfara öll veðbönd og þar fram eftir götunum.

Hér skipta fasteignasalarnir söluþóknuninni á milli sín, en það ber að hafa í huga að algeng söluþóknunarprósenta er 5-6%.

En ég er þó þeirrar skoðunar að það sé óþarfi að setja um þetta lög eða reglugerðir.  Það er hins vegar gott að koma þessu máli í umræðuna og benda fólki á þennan möguleika.  Ég held að hver og einn geti svo ákveðið hvort að þeir vilji hafa fasteignasala með sér eður ei.

Það þarf líka að gera kaupendum grein fyrir því að eftir sem áður er ábyrgðin á eigin málum og fasteignakaupum þeirra. 

Það þarf að hafa í huga að hagsmunir beggja fasteignasala fara í raun saman.  Báðir hafa hag af því að væntanlegir kaupendur bjóði sem hæst í eignina, því ef t.d. umbjóðendur "mínir" eiga ekki hæsta tilboðið í eign, þá fæ ég ekki greitt og þarf að halda áfram að vinna fyrir þá og finna nýjar eignir fyrir þá að skoða og gera tilboð í.

Líklega mætti einnig segja að enginn fasteignasali myndi telja sig hafa hagsmuni af því að byrja lækkunarferli á markaðnum.

Það er líka þarft að hafa í huga að meira að segja hér í stórborginni, þar sem fasteignasalar sérhæfa sig gjarna í ákveðnum hverfum, myndast hálfgerður "klúbbur" fasteignasala.  Allir þekkja alla, sömu fasteignasalarnir hittast dag eftir dag á "opnum húsum".  Allir eru með bæði kaupendur go seljendur á sínum snærum og má velta fyrir sér hvort að áhuginn sé mikill fyrir því að "rugga bátnum".

Ég held því að skref eins og að segja að það eigi tveir fasteignasalar að koma að hverri sölu sé ekki til bóta.  Lög og reglugerðir eru óþarfar.

Hitt er svo sjálfsagt að fræða almenning um þennan möguleika og að það geti verið gott að hafa þennan háttinn á.  En umfram allt á að láta almenningi eftir að velja hvernig hann vill standa að sínum málum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk, bloggfelagi, fyrir ad efna til umraedu um thessa frett; mer synist sammæli um ad sjonarmid um serstakan fasteignaradgjafa fyrir kaupanda geti att rett a ser en ekki um ad logbindingu thurfi til - eins og um svo margt i neytendavernd.

Gísli Tryggvason, 20.4.2008 kl. 18:43

2 Smámynd: Hallgrímur Egilsson

Ég mæli með því fyrir alla að hafa lögmann með sér í fasteignaviðskiptin. Ég sparaði mér hundruðir þúsunda á því þega ég keypti mér mína fyrstu eign fyrir 4 árum. Þá var fasteignasalinn alltaf að gleyma að setja hluti í kaupsamninginn, sagði að það skipti engu máli, það yrði ekkert vesen... Þegar upp var staðið strandaði einmitt á einum svona hlut sem "skipti engu máli"...

Hallgrímur Egilsson, 21.4.2008 kl. 09:34

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég er sammála því að það geti borgað sig að hafa lögfræðing (eða einhvern fróðan um fasteignaviðskipti) með sér í samningagerð.  Ég hafði þennan háttinn (hafði með mér kunningja sem var fasteignasali, sem stóð sig mjög vel) þegar ég keypti á Íslandi.

Hér í Kanada hafði ég síðan fasteignasala til að líta eftir eignum og senda mér á tölvupósti og ganga frá skoðunartímum og öðru slíku.  Síðan hafði ég lögfræðing til þess að ganga frá og yfirfara samninga, yfirfara veðbönd (og reyndar kaupa tryggingu varðandi þau) og þar fram eftir götunum.

Þannig hafa flestir háttinn á hér í Kanada skilst mér.  Það er ekkert sem skyldar neinn til þess, en þegar er verið að versla fyrir næstum allt sem maður á, og skuldbinda sig að auki til langs tíma, er einfaldlega rökrétt að ganga vel frá hnútunum.

G. Tómas Gunnarsson, 21.4.2008 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband