Hættulegt kjöt og hættulegir stjórnmálamenn

Ég einn af þeim sem lít svo á að sjálfsagt sé að Íslendingar felli niður þá verndarmúra sem umlykja Íslenskan landbúnað og innflutningur verði heimill.

Ég hef aldrei getið skilið hvers vegna það á að vera hættulegra fyrir Íslendinga að borða erlent kjöt á Íslandi, en það er fyrir þá að borða erlent kjöt í útlöndum.  Það eru jú tugir þúsunda Íslendinga sem fara erlendis á ári hverju og sá þjóðlegi siður að pakka niður saltfiski, hangiketi og niðursoðnum saxbauta er að mér skilst að mestu aflagður.

Ég hef heldur ekki fengið útskýringu á því hvers vegna það er hættulegt búsmalanum, þó að erlent kjöt verði á boðstólum í verslunum.  Getur einhver lýst því fyrir mér hvernig óttast er að smitið eigi sér stað, og hvers vegna ekki sé hægt að verjast því.

Hitt er svo, að auðvitað er sjálfsagt að gera heilbrigðiskröfur til þess kjöts sem flutt yrði inn.

En svo eru það allir sem myndu missa atvinnuna.  Vissulega eru yfirgnæfandi líkur að verulegur samdráttur yrði í vinnuafli í landbúnaði og störfum tengdum honum.  Það er þó nokkrar líkur að stór hluti þeirra ætti möguleika á öðrum störfum, sérstaklega ef að haft er í huga að Íslendingar hafa flutt inn vinnuafl í tugþúsundatali á undanförnum árum.

Þó má reikna með að umskiptin yrðu ekki sársaukalaus.

En það hefur margt breyst á undanförnum áratugum.  Húsgagnaiðnaður, fataframleiðsla, skóframleiðsla, raftækjaframleiðsla, svo nokkur dæmi séu tekin, hefur lagst að mestu af á Íslandi.  Þessar starfstéttir gátu ekki keppt við innfluttar vörur.

Vissulega væri það að einhverju marki gjaldeyrissparanadi að allt þetta væri enn framleitt á Íslandi, en þó leikur vafi þar á.  En hitt er ljóst að ég hygg að fáir kjósi að snúa aftur til þess tíma og borga hærra verð fyrir þessar framleiðsluvörur.

Það sama gildir um landbúnaðarvörur.


mbl.is Segir landbúnaði og neytendum kunni að vera ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Já Tómas. Það er búið að leggja af mikið af framleiðslustörfum á Íslandi vegna samkeppninnar við Kínverjana, sem eru með einn eða tvo dollara í daglaun.  Kannski ekki  mikið réttlæti í þeirri samkeppni. En  kannski væri viðskiptahallinn og skuldir íslendinga ekki alveg eins geigvænlegur og hann er nú ef fólk væri duglegra að kaupa það sem innlent er. Það er nú berlega komið í ljós að ekki munu allir hér á klakanum lifa eins og greifar á því að gambla með peninga og hlutabréf, þó margir hafi veðjað á þann hest.  Og ekki efast ég um að hluti landa minna myndi kaupa og eta innflutt  lággæða matvæli ef þau yrðu hér á boðstólum. Einhverjir myndu jafnvel fyllast Þórðargleði yfir því að geta nú loksins klekkt á fjandans bændunum.  En það eru blikur á lofti varðandi matvælaframleiðsluna í heiminum og það væri alveg eftir öðru hér ef menn væru nýbúnir að eyðileggja hana hér innanlands, rétt áður en verð á þessum vörum fer upp úr öllu valdi og þeir  teljast sælir og heppnir, sem geta framleitt sem mest af sínum matvælum sjálfir. 

Þórir Kjartansson, 17.4.2008 kl. 18:11

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sjálfsþurftarbúskapur er ekki lausnin, ekki fyrir einstaklinga, ekki fyrir þjóðir.

Það er líka ótrúlegur misskilningur að erlendar landbúnaðarafurðir séu "lággæða", en Íslenskar "hágæða".  Mikið af Íslenskum landbúnaðarafurður er einfaldlega "lággæða".  Það að þær kosti óheyrilegar upphæðir gerir þær ekki að "hágæða" vöur.

Það er alveg rétt að það geta ekki allir lifað af því að "stokka" hlutabréf, og þess vegna er brýnt að efla nýtingu orkuauðlinda, iðnað og framleiðslu, en nota bene, í samkeppnishæfum vörum.  Það er nefnilega líka svo að að þjóðin getur ekki niðurgreitt með beinum eða óbeinum hætti flest eða allt  það sem hún er að framleiða. 

Svo væri fróðlegt að sjá samanburð á því hve menn reikna með að innflutningur landbúnaðarvara muni kosta og svo hve innflutningur vegna landbúnaðar (fóður, vélar o.s.frv) er. 

G. Tómas Gunnarsson, 17.4.2008 kl. 18:20

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Hverju orði sannara hjá þér, tek heilshugar undir með þér. Og óttast ekki um mig þótt ég hafi borðað útlendan mat árum saman. Heilsan er betri ef  eitthvað er, mér hefur ekki orðið misdægurt um árabil. Hið heilnæma franska sveitaloft á líklega stóran þátt í því.

Ég finn eiginlega til með fólkinu heima þegar maður gerir matarinnkaupin. Íslendingum er meinað að borða góðan og ódýran mat. Kaupmáttur almennings myndi aukast mjög ef boðum og bönnum varðandi innflutning á matvælum væri aflétt.

Auðvitað myndi það bitna á einhverjum, en ávinningurinn væri margfalt meiri en það tjón. Margt myndi halda velli að mínu mati, eins og t.d. mjólkuriðnaðurinn.

Hvað sem öllu líður þá fæ ég aldrei botn í þær pælingar mínar hvers vegna ég fæ íslenskan fisk ódýrari hér en  á Fróni.

Ágúst Ásgeirsson, 17.4.2008 kl. 19:11

4 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég hef komið á Svínabú í Kanada og Standardin er dálítið mikið annar heldur en hér á Íslandi. Mjög frjálsleg notkun lyfja en eitt búið notaði Fúkkalyfið Tylan í tonnavís á mánuði en því var sturtað í fóðrið úr 50 kg sekkjum.

Ég hugsa að þú Tómas hafir neytt kjöts frá Tyson foods en þeir nota vaxtahormónin Ractoparmin í framleiðslu sinna grísa en með því koma þeir grísunum 60 dögum fyrr í slátrun. Þeir pumpa þá upp með sterum

Ég er alveg viss um að þér líður  ágætlega í maganum en ég spyr mig hvers vegna fólk í stórum stíl er svona fjölmennt þarna vestra 

Nýlegar rannsóknir hafa verið að leiða að því líkum að krakkar verði mun fyrr Kynþroska á því að neyta sterakjöts. Ég þarf sennilega ekki að ræða fúkkalyfjaónæmi.

Sennilega er þetta allt tómt kjaftæði 

Ef Íslenskir bændur fengju meira frelsi til að gera það sem þeim sýndist væri hægt lækka veriðið mikið

Svínabændur eru að reyna að fá flutt inn betra erfðaefni í tíu á en við þurfum að flytja grísi inn lifandi með ærnum tilkostnað en þeir koma með flugvél en við viljum sæði. það er ódýrara og öruggara.

Eina landið sem við megum flytja frá er Noregur og ekki eru þeir með bestu grísina

Við fengum endanlega neitum fyrir mánuði síðan. þetta er ekki eina dæmið en ég hef á tilfinningunni að allt sé gert til að koma okkur fyrir kattarnef og núna þetta frumvarp. 

Óréttlætið er yfirgengileg gagnvart framleiðendum og þeim sem starfa við þetta

Kanadastjórn er núna að koma svínabændum til bjargar með vaxtalausu láni til tíu ára en þeir eru núna að tapa í kringum 2800 kr á hverjum grís vegna hækkandi fóðurverðs en þeir þurfa 70% hækkun til að endar nái saman 

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 17.4.2008 kl. 20:44

5 Smámynd: Skákfélagið Goðinn

Kæri Tómas. Finnst þér það léttvægt að þúsundir starfa séu í hættu bara svo að neytendur geti étið eitthvað ódýrara hormónabætt og erfabreytt kjöt ? Þú verður að gá líka að því að mörg þessara starfa eru á landsbyggðinni þar sem engin önnur störf eru í boði.  Vestfirðir, Húnavatnssýslur, norð-austurhornið, svo dæmi sé tekið. 

Skákfélagið Goðinn, 17.4.2008 kl. 21:40

6 identicon

að mínu mati finnst mér boð og bann út í hött, en að sjá stráka kommenta á þennan hátt er nú eins og lögfræðingar tækju sig til og rifust um hver fékk stærri skammt af frönskum á hamborgara búllu. opna augun í víðara samhengi.

sem dæmi! hleypum öllu þessa ódyra og góða inn í landið.... það er fullt á boðstólnum frá hinu margrómaða útlandinu, er það ódýrt???? eitthvað held ég að

stórkeðju kaupmenn séu að rindlast i bakhluta íslendinga núna.

Ásgeir Loftsson (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 21:57

7 identicon

Ég hef trú á Íslendingum. Þó að það verði leyft að flytja erlendar kjötvörur til landsins, þá munu meirihluti íslendinga kaupa og vilja bara íslenska framleiðslu. Eins og í grænmetinu.

En hvernig er það, ég hef oft séð erlent kjöt í betri búðum landsins. Af hverju er það löglegt, stundum? 

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 00:02

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég vil nú byrja á því að segja að "hvítakjötsframleiðendur" á Íslandi eiga mína samúð.  Framkoma stjórnvalda gegn þeim hefur verið til háborinnar skammar.  Til að neyslustýrar almenningi yfir til "hinna sönnu bænda" hafa þeir verið látnir blæða.  Það á sinn þátt í því hve illa er komið fyrir matarframleiðslu á Íslandi og hve þreyttur almenningur er orðinn á fyrirkomulaginu. 

Ég á ekki von á því að Kanadískt svínakjöt rati í verslanir á Íslandi, þannig að líklega er óþarfi að hafa áhyggjur af ræktinni hér.  Til Íslands verður ábyggilega flutt inn fyrirmyndar "(Evrópu)Sambandskjöt".

En mínar upplýsingar eru á þann veg að vaxta hormónanotkun sé ekki í svínarækt í Kanada.  Sjá t.d. hér.  Hvað varðar notkun lyfja, hef ég yfirleitt heyrt talað um að "antibiotics" séu notuð í svínarækt fyrstu 15 vikurnar.

Þekki ekki þetta lán frá ríkisstjórninni hér, en veit að nú er hið opinbera að borga svínabændum fyrir að slátra grísum.  Í þessu prógrammi verða bændur að skuldbinda sig til að hverfa af svínamarkaðnum í að minnsta kosti 3. ár.  Reiknað er með að þeir "kaupi" þannig svín fyrir allt að 50 milljónir dollara.  Markmiðið er að minnka stofninn um 10% eftir því sem mér skilst (sjá hér).  Þannig er það nú með yfirvofandi fæðuskort.  Ennþá er verið að borga bændum fyrir að framleiða ekki og draga saman seglin.

Hvað varðar atvinnu þúsunda, þá reikna ég með að þeir hverfi að arðbærari störfum, þó að breytingatímabilið verði ábyggilega sársaukafullt eins og ég sagði í upphafi.  En þjóð sem hefur þurft að flytja inn fólk í tugþúsundatali hlýtur að hafa not fyrir þessa starfskrafta.  Hvað varðar landsbyggðina, þá á hún vissulega erfitt uppdráttar, en það er ekki nema að littlu leyti til komin vegna skorts á störfum.  Enda var það matvælaiðnaður (bæði fiskur og kjöt) á landsbyggðinni sem hvað fyrst þurfti að leita út fyrir landsteinana eftir vinnuafli, Íslendingarnir kusu að fara annað.

Erlent kjöt er flutt inn á svokölluðum "tollkvótum", en með þeim skuldbatt Ísland sig til að hleypa inn ákveðnu magni af kjöti á lágum tollum.  Kvótinn er síðan boðin út, sem aftur hleypir upp verðinu.

En ég er sammála því að þó nokkur hluti Íslendinga muni áfram vilja kaupa Íslenskt kjöt, þó að ég efist um að það verði meirihluti.  Enda hef ég enga trú á því að Íslenskur landbúnaður leggist af, en hann mun vissulega skreppa mikið saman.

G. Tómas Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 06:44

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Gleymdi að minnast á offituna sem Gunnar gaf í skyn að væri vegna hormónanotkunar.

Líttu í kringum þig á hinu hormónalausa Íslandi.  Þar má finna býsna marga einstaklnga úr "ammmríska mótinu".  Ég leyfi mér að efast um að hlutfall "offitu" sé mikið hærra hér í Kanada en á Íslandi, enda offita velmegunar "sjúkdómur".

Kynþroskaaldur hefur verið að færast niður um allan hinn þróaða heim, líka á Íslandi eftir því sem mér hefur skilist.

G. Tómas Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 06:49

10 Smámynd: Þórir Kjartansson

Mér finnst alltaf nokkuð óljóst þegar menn eru að tala um að vinnuaflið flytjist til í einhver  ,,arðbærari" störf.  Venjulega er þá átt við einhver störf í þjónustu, sem í sjálfu sér skapa ekki verðmæti.  Menn lifa ekki endalaust á því að klippa hvern annan.

Þórir Kjartansson, 18.4.2008 kl. 07:20

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er alveg rétt að það geta ekki allir lifað af því að "stokka" hlutabréf, og þess vegna er brýnt að efla nýtingu orkuauðlinda, iðnað og framleiðslu, en nota bene, í samkeppnishæfum vörum.  Það er nefnilega líka svo að að þjóðin getur ekki niðurgreitt með beinum eða óbeinum hætti flest eða allt  það sem hún er að framleiða. 

Þetta svar mitt hér að ofan, er ennþá í fullu gildi af minni hálfu.

G. Tómas Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 07:27

12 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Tómas

Rök þín eru góð og málefnaleg og ég hef ekki heyrt um hormónakjöt í Kanada.

Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir hvað markaðurinn er lítil hér heima. hann er raunverulega of lítill til að halda úti sjálfsæðri matvælaframleiðslu, hvað þá ef hann minnkar enn.

Dæmi: Það eru 14 framleiðendur á Svínakjöti með 4500 gyltur þeir framleiða 30% af kjötinu á íslandi ef við teljum Kjúklingana með er markaðshlutdeildin um 55% (Smithfield USA er með 1.200.000 gyltur)

Þeir Sem vinna á Búunum eru í kringum 300 en um 1500 í úrvinnslunni. Það eru ekki ólíklegt að 5000 manns hafi lífsviðurværi af þessum geira 

20% Samdráttur þýðir að framleiðslukostnaður hækkar og samkeppnisstaðan versnar enn

Það er raunverulega verið bítast um völd, ekki verð til neytenda. við höfum grænmetið þar vöru afnumdir allir tollar bændur fá  niðurgreiðslur.  Núna 6 árum síðar er verðið hærra á grænmetinu mikið hærri álagning. Eingöngu framleiddir tómata og gúrkur Önnur framleiðsla nær horfin. Og ég spyr hver græddi á öllu saman?

Það vinna í kringum landbúnaðinn 12.000 manns og ef einn hlekkur hrekkur er málið dautt

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 09:50

13 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég gleymdi að minnast á það að 2002 til 2003 gáfu svínabændur kjötið hér á Íslandi en ég kalla það að gefa vöruna þegar verðið dugar ekki fyrir flutningi í sláturhúsið. Samt var verðið með því hæsta í heiminum og ekki kom aðstoð frá hinu opinbera. við bændur erum ennþá að borga brúsann og verðum næstu ár. Ef ríkið hefði tekið þann offramleiðsluskell af okkur væri verðið frá okkur 15% lægra eins og þeir eru að gera í Kanada núna og ekki bara Kanada. Við reyndum þá að flytja kjöt til Danmerkur og gátum fengið mun hærra verð þar. Kaupandinn í Danmörku þurfti að greiða 450% innflutningstoll þannig að það eina sem við gátum gert var að troða offramleiðslunni í landann.

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 10:11

14 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ég var að sjá frétt úr vesturheimi, Kíktu á það Tómas

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 10:58

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það hefur lítið upp á sig að ræða málin ef ekki er reynt að gera það á málefnalegan og þokkalega kurteisan máta.  Meinhæðni má þó gjarna fylgja með, fyrir minn smekk, en ég gef lítið fyrir þá sem telja að þeir sem noti "stærst" orð, vinni sigur.

En ég þekki ekki jafn vel til Íslenks kjötmarkaðar og þú gerir Gunnar, horfi á hann úr fjarlægð en ekki innan frá.  En fyrir mér er það ljóst að þegar bændur kvarta undan stöðu sinni, neytendur kvarta undan verðinu, og skattgreiðendur kvarta undan niðurgreiðslu, þá er eitthvað að.  Kerfi sem allir eru óánægðir getur ekki staðið til lengdar, það hlýtur að láta undan.

Hvað varðar "hvítakjötsframleiðendur", þá held ég að heildarsamtök bænda hafi ekki reynst þeim vel, en þú ert þó líklega betur fallinn til þess að dæma um það.  Eins og málið er frá mínum sjónarhóli hefur hvíta kjötinu verið fórnað til að reyna að halda uppi hefðbundinni "bændarómantík". Stjórnvöld hafa látið lobbýista bændanna ráða ferðinni. Sú stefna hefur skilað Íslenskum matvælaiðnaði í það öngstræti sem hann er staddur nú.

En það er vissulega rétt að niðurgreiðslur eru víðast hvar um heiminn og ekki síst hér í Kanada.  Ég man ekki eftir neinu "þróuðu" landi sem er niðurgreiðslulaust, nema Nýja Sjálandi.

Svínabændur hér eiga í erfiðleikum nú.  Það hjálpar þó mörgum þeirra að þeir hafa ræktað fóðrið að miklu leyti sjálfir, og geta selt það á háu verði, ef þeir slátra grísunum.  Kjötverð er enda með eindæmum lágt um þessar mundir og er frystikistan mín óðum að fyllast.  Sérstaklega kann ég vel við svínalundirnar, sem lengi hafa verið í uppáhaldi hjá mér og kosta núna á milli 4 og 500 krónur Íslenskar kílóið.

En það kann líka að vera rétt að Íslenski markaðurinn sé einfaldlega of lítill til að þrífast, nema þá "niche" framleiðsla. 

Ég þekki ekki hvernig verðþróun á grænmeti hefur verið á Íslandi, vissulega heyri ég þó að raunveruleg samkeppni í smásölu á matvöru sé engin.  Það kann aldrei góðri lukku að stýra.  Aukin innflutningur gæti hugsanlega gert erlendum aðilum auðveldara um vik að opna matvöruverslanir.  Þeir gætu þá haft nákvæmlega sama vöruframboð og í verslunum sínum erlendis og þyrftu lítið sem ekkert á Íslenskum birgjum að halda.

G. Tómas Gunnarsson, 18.4.2008 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband