29.10.2006 | 18:00
Að fagna sigri - að eflast í mótlætinu
Þá er niðurstaðan í "Prófkjörinu" ljós.
Það er alveg ljóst að Guðlaugur Þór er sigurvegari prófkjörsins. Aðrir þeir sem "hampa bikurum" eru Guðfinna Bjarnadóttir og Illugi Gunnarsson.
En til þess að einhverjir sigri, í slag sem þessum, er það yfirleitt svo að einhver þarf að tapa. Það er engin leið að líta fram hjá því að Björn Bjarnason tapaði slagnum um annað sætið. En það tap (sem annar hvor þeirra hlaut að lenda í) var ekki eins og spáð var. Björn féll ekki niður listann, hann fékk mjög góða kosningu í 3ja sætið og yfir sjö þúsund atkvæði í heild. Vissulega hlýtur þetta að vera áfall fyrir Björn en enginn endir.
Ósigur er mismunandi eftir hvernig hann er höndlaður, í honum geta einnig falist tækifæri. Í því sambandi er ef til vill næst að benda á Össur Skarphéðinsson, sem var felldur með afgerandi hætti, sitjandi formaður, en hefur eflst við ósigurinn og er öflugasti þingmaður Samfylkingar, eftir sem áður. Það skipti engu þótt að rýmt væri til fyrir formanninum, Össur ber eftir sem áður höfuð og herðar yfir þingmenn Samfylkingar og hefur að engu leyti látið ósigurinn setja mark sitt á sig, nema að síður sé.
Þingmennirnir Birgir Ármannsson og Sigurður Kári fá báðir ágætis kosningu, annar niður um eitt, hinn upp um eitt. Það var löngu ljóst að þeir áttu á brattann að sækja, enda fast sótt á listann ekki síst af konum.
Sigríður Andersen, Dögg Pálsdóttir og Grazyna Okuniewska koma svo nokkuð sterkar inn og gætu endað á þingi á góðum degi. En þær fá vel viðunandi kosningu fyrir nýliða.
Eftir stendur að listinn er gríðarlega sterkur, hefur víða skírskotun og ætti að duga vel í kosningum í vor.
Við eigum þó eftir að heyra andstæðinga flokksins reyna að gera eins mikið og kostur er úr ósigri Björns Bjarnasonar. Við eigum líka eftir að heyrar þá tala um að konum hafi verið hafnað, að þetta sé "karlalisti" og þar fram eftir götunum.
Hvað varðar ósigur Björns, þá var það ljóst að aðeins einn getur unnið sætið. Það er ekki eins og þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokks sé eitthvert skammarsæti, eða hætta sé á að viðkomandi falli af þingi. Menn berjast og þurfa að vera jafn reiðubúnir til að tapa og fagna sigri.
Svo er það staða kvenna. Hvernig sem á því stendur eru margir ekki lengra komnir en að líta á málin sem konur á móti körlum. Ekkert er meira fjarri mér. Hér sem áður hljóta menn að vera að leita að hæfustu einstaklingunum, það er ef til vill ekki svo í öllum flokkum, en ég held að Sjálfstæðisfólk hafi þann háttinn á.
Kona sem er nýliði var kjörin í fjórða sæti listans, lýsir það því að konum sé ekki treyst til áhrifa? Hins vegar segi ég það fullum fetum að engin sú kona sem var í framboði að þessu sinni stendur þeim sem fengu 3. fyrstu sætin á sporði. Ekki eins og staðan er í dag. Í raun er það ekki flóknara en það.
En þetta lýtur vel út, og með prófkjörinu er kominn sá grunnur sem ætti að nýtast Sjálfstæðisflokknum til góðs sigurs í vor. Listinn er feykisterkur.
Bendi hér svo á frétt ruv.is, en þar er ákaflega greinargóð sundurliðun á því hvernig atkvæði féllu.
Niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins bindandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.