24.10.2006 | 19:39
Áhugavert að fylgjast með þessu
Það verður áhugavert að fylgjast með þróun þessara mála í Hafnarfirði. Það kemur ekki á óvart að það myndist andstaða við stækkun í Straumsvík, sérstaklega eins og andrúmsloftið hefur verið á Íslandi undanfarnar vikur.
Straumsvík er enda á höfuðborgarsvæðinu og því sem næst inn í Hafnarfirði jog því ekki óeðlilegt að viðbrögðin séu sterkari en víða annars staðar. En Hafnfirðingar hafa góða reynslu af álverinu og ég gat ekki betur séð en að Lúðvík Geirsson bæjarstjóri þeirra væri áfram um að tryggja stækkun álversins og þann fjölda starfa sem það skapar. Hann svaraði því til dæmis einhvers staðar sem ég sá, að þegar bent var á að næg atvinna væri í Hafnarfirði, að það væri svo nú, en erfiðara að spá um framtíðina. Það er vel skiljanlegt að sveitarstjórnarmenn í Hafnarfirði vilji stækka álverið, enda hefur það skilað sveitarfélaginu góðum tekjum í gegnum árin. Hafnarfjörður væri líklega ekki jafn öflugt sveitarfélag og raun ber vitni ef álverið hefði ekki komið til.
En það verður líka gaman að sjá hvernig þetta verður allt á endanum, vegna þess að það er Samfylkingin sem stjórnar í Hafnarfirði, og þó að sveitarstjórnarmennirnir (Lúðvík alla vegna) virðast áfram um stækkunina, þá hefur jú Samfylkingin nýverið sent frá sér stefnu, þar sem kallað er eftir að frekari stóriðjuframkvæmdum verði slegið á frest. Það verður því fróðlegt að sjá hver verður lendingin í þessu máli. Það er ekki síður forvitnilegt að vita hver er afstaða frambjóðenda í prófkjöri Samfylkingarinnar í "Kraganum" er í þessu máli. Einhvern veginn tel ég að þetta sé of stórt mál til að "skauta" fram hjá því í prófkjöri eða kosningum.
Oft hefur verið rætt um að leyfa bæjarbúum að kjósa um stækkunina. Það væri auðvitað nokkuð vel til fundið, sérstaklega ef að kjörnir fulltrúar þeirra telja sig ekki hafa umboð frá þeim til að taka þessa ákvörðun.
Væri ekki tilvalið að kjósa um þetta mál samhliða þingkosningum í vor?
Fjöldafundur haldinn gegn stækkun álversins í Straumsvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Viðskipti | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.