23.10.2006 | 16:51
Sínum augum lítur hver á Silfrið
Ég náði loksins að klára að horfa á Silfur Egils á netinu. Þættir Egils eru alltaf skemmtilegir og áhugaverðir. Ég verð þó að segja að mér þykir "leiðarar" Egils ekki vera að gera sig. Slíkar hugleiðingar er ágætt að lesa á síðunni hans, en eru ekki sérlega áhugavert sjónvarpsefni að mínu mati.
En þátturinn er yfirleitt skemmtilegur og þátturinn í gær var þar engin undantekning. Það var nú reyndar hálf grátbroslegt að hlusta á Össur reyna að finna upp klofning í Sjálfstæðisflokknum, en Össur er að verða "sérfræðingur" í öllum flokkum nema sínum eigin.
Össur varð líka hálf kindarlegur þegar talið barst að Jóni Baldvini og þætti hans í öllum þessum umræðum.
Prófkjörshlutinn fannst mér nokkuð þunnur þó og áberandi lakasti parturinn í þessum þætti. Þó komu konurnar, Helga Vala Helgadóttir og Sigríður Andersen þokkalega út, en Glúmur Baldvinsson kom skringilega út, hálf partinn eins og út á þekju og klisjukendur.
Það vakti svo heilmikla athygli mína þegar talað var við Paul Nikolov, en hann er þátttakandi í prófkjöri hjá VG. Hann hefur reyndar verið sakaður um tækifærismennsku á ýmsum bloggsíðum, en hann hafði víst talað um að stofna innflytjendaflokk, en hætt við um leið og honum var boðið að taka þátt í prófkjöri hjá VG. Það kann að vera svolítill tækfærisblær á því, en jafnframt sönnun þess að hann hefur aðlagast íslensku samfélagi nóg til þess að taka þátt í pólítík.
Hann talaði vel, þó að ég væri ekki endilega 100% sammála honum, en það vekur vissulega athygli mína að frambjóðandi í prófkjöri á Íslandi skuli velja að tala ensku í viðtali. Ræður hann ekki við íslenskuna? Ég held að það hljóti að vera erfitt að vera í framboði ef vald á íslensku er ekki þokklegt.
En það er vissulega fagnaðarefni að innflytjendur taki þátt í stjórnmálum. Kona af pólskum uppruna, Grayna Okunlewska, býður sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Það er gott að innflytjendur taki þátt í þjóðfélaginu á öllum stigum, stjórnmálum sem annars staðar og jákvætt að þeir taki þátt í prófkjörum en sé ekki eingöngu stillt upp sem "skrautfjöðrum" aftarlega á lista.
Um þátttöku Jóns Baldvins í þættinum hef ég bloggað áður.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Sjónvarp | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.