28.3.2008 | 02:29
Gengið upp og gengið niður
Mál málanna er gengið. Það eru allir að velta fyrir sér genginu. Nú er krónan með allra lægsta móti og undanfarna mánuði og 'ar hefur sínkt og heilagt verið talað um að krónan hafi verið of verðmæt, gengið of hátt.
Reyndar er það svo að síðan að ég man eftir mér hefur gengið farið niður hægt en örugglega, ef frá eru talin undanfarin ár, u.þ.b. síðan 2001. Það sem meira er það er eins og að margir stjórnendur útflutningsfyrirtækja telji það nauðsynlegt fyrir vöxt og viðgang sinna fyrirtækja að gengið sígi, helst nokkuð stöðugt.
Ekki veit ég hvað veldur því að Íslensk fyrirtæki virðast mörg hver eiga erfitt með að reka sig á gengi sem er t.d. jafnt og það var árið 2000.
Það má benda á það að þó að kvartað hafi verið um að gengið hafi verið alltof hátt undanfarin ár, að síðan árið 2000, hefur euro aldrei verið ódýrara en það ár. En þróun gengis euro frá upphafi 2000 til upphafs þessa árs má sjá á línuriti 3 hér að neðan. Samt var kvartað og kveinað allan þennan tíma um að gengið krónunnar væri of hátt.
En vissulega hafa verið sveiflur á gengi krónunnar, og er gjarna talað eins og krónan sé eina myntin sem slíkt gildir um. En gengi gjaldmiðla gengur upp og niður. Það skapar vissulega vandræði hér og þar, sérstaklega í hagkerfum sem byggja mikið á útflutningi.
Á línuriti 1. má sjá hvernig gengi Breska pundsins hefur þróast gagnvart euro, síðastliðin þrjú ár. Það hefur valdið Írum, sem nota euro, miklum erfiðleikum, þar sem Bretland er þeirra mikilvægasta viðskiptaland. Eftir því sem mér hefur skilist er Bretland einnig mikilvægasta viðskiptaland Íslands, sem hefði þá líklega brennt sig eins og Írar á styrkingu euro, hefði það verið sú mynt sem notuð hefði verið á Íslandi.
Írar eiga reyndar einnig mjög mikil viðskipti við Bandaríkin, og flestir vita nú hvernig samspil dollar og euro hefur þróast.
Þannig er það víða sem sterkur gjaldmiðill getur verið til vandræða, en verst er auðvitað þegar efnhagsaðgerðir eru teknar fyrir stóra heild. Því hafa Írar kynnst. Fyrst voru vextirnir alltof lágir og núna er ekki hægt að lækka þá, því það hentar ekki "Sambandinu" í heild.
Önnur mynt sem hefur styrkst mjög mikið undanfarin ár er blessaður Kanadadollarinn sem ég nota dags daglega. Hvernig verðmæti hans hefur þróast gagnvart þeim Bandaríska síðastliðin 3. ár, má sjá á línuriti 2.
Að sjálfsögðu hefur þetta valdið ýmsum erfiðleikum hér í Kanada, þó mismikið eftir landsvæðum, líklegast eru áhrifin hvað sterkust hér í Ontario, þar sem bílaiðnaðurinn hefur verið mikill. Styrkingin getur þó ekki talist óeðlileg, enda styrkur Kanada mikill í "hrávörunni", gulli, öðrum málmum, olíu, kornmeti og öðru slíku, gengi Kanadadollars hefur enda gjarna farið upp og niður, með þessum "hrávörum".
Auðvitað er slæmt þegar miklar sveiflur eru á gengi gjaldmiðla, en það er erfitt að eiga við. Íslendingar eiga fá svör gegn veikingu dollars, og ef reynsla Íra kennir okkur eitthvað, þá er það langt í frá eintóm sæla að búa við euro, Kanadabúar óttast styrkingu síns dollara gegn þeim Bandaríska, en fagna samt lækkun á innfluttum vörum.
Líklega er engin "patent" lausn til
P.S. Línuritin eru öll fengin með aðstoð vefs Kaupþings, en þar sem hjá öðrum Íslenskum bönkum er afbragðs þjónusta til að skoða gengisþróun, skoða "krossa" og þar fram eftir götunum.
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.