Offita og jafnrétti

Smá vangaveltur á síðkvöldi:

Ef of grannar fyrirsætur, stælt íþróttafólk, kvikmyndastjörnur og annað slíkt "þotufólk" hafa svona gríðarleg áhrif og eru svona sterkar fyrirmyndir, hvernig stendur þá á því að offita stefnir í að verða helsta böl mannkyns?

Fyrst við lesum í fréttum að "kynbundin launamunur" sé nákvæmlega sá sami og var fyrir 12 árum, hvaða einkunn eigum við þá að gefa baráttunni?  Eigum við að trúa því að munurinn hefði stóraukist ef opinberir aðilar, verkalýðsfélög og annað "baráttufólk" hefði ekki haldið ráðstefnur, auglýst fyrir milljónir, og "staðið vaktina"?  Eða getur verið að baráttan og baráttuaðferðirnar fái falleinkunn?  Eða eru einhverjar eðlilegar skýringar á þessum mun?  Nú eða fæðingarorlof fyrir bæði kyn sem átti að kippa þessu öllu í liðinn, verður það endurskoðað?

Hvers kyns lýðræði er það ef sagt er að það megi kjósa hvern sem er svo lengi sem það er jafnt af báðum kynjum?

Þetta svona flaug um hugann.


mbl.is Einn milljarður manna of þungur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sylvía

maður á að kjósa þá sem eru jafnréttissinna en ekki bara kyn, það segir ekkert um hversu jafnréttisþenkjandi manneskjan er.

Sylvía , 21.10.2006 kl. 09:53

2 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Upphaf offitunnar skýrist af sitjandi og hektískum lífsstíl, og lélegu aðgengi að hollum mat (vegna tímaleysis).

Áhrif þotufólksins birtast svo í því að allir eru alltaf í megrun (til að reyna að líkjast stjörnunum), en hafa ekki árangur sem erfiði vegna tíma- og peningaleysis (hafa ekki efni á einkaþjálfara sem ber það áfram).

Í kjölfarið fer fólk í þunglyndi yfir að ná ekki markmiði megrunar, og fer að borða enn meira.

Launamunur kynjanna felst kannski í því að það er tiltölulega nýtt hlutverk hjá konum að vera fyrirvinnur. Finna sig ekki ennþá í þessu hlutverki enda líklega verið aldar upp í þeim hugsunarhætti að vera duglegar og samviskusamar en ekki að heimta sinn skerf af kökunni. Þær eru enn soldið fastar í húsmóðurshugsunarhættinum og ´geta ekki hugsað sér´ að fá sér húshjálp, eins og ein sagði, sem gæti þó hjálpað þeim til að einbeita sér betur að vinnuframanum. Barneignirnar gera þeim svo sálrænt erfiðara fyrir, eða eins og ein sem ég man eftir sem sagði frá því að hún hafði hert sig upp í að biðja um launahækkun þrátt fyrir að vera ólétt og byrjaði samtalið við yfirmanninn á þá leið að ´hún vissi að hún væri í mjög lélegri samningsaðstöðu ...´ en, hún vildi fá launahækkun. Henni fannst þetta mikil hetjudáð. Semsagt; barneignirnar gera konunum eitthvað erfiðara fyrir. Þeim finnst þær greinilega ekki mega vera mjög frekar vegna þeirra; eins og fyrirtækin eigi eitthvað inni hjá þeim vegna þessara óþæginda. Það að vera sætur og fínn og hafa sig ekki allt of mikið í frammi held ég að loði enn við konur og sé uppeldislegt atriði sem gæti batnað. Samt ekki strax. Maður vill ekki fá á sig breddustimpil. Svo er þarna þessi samfélagslega ábyrgðartilfinning sem konur virðast almennt hafa og birtist kannski ágætlega í því að það eru þær sem sjá um að muna eftir afmælum og öðru sem skiptir aðra meira máli en þær sjálfar. Þær fá mikið og gott feedback frá því sem festir þær enn betur í hugsunarhættinum að betra sé að gefa en þiggja. Hin umhyggjusama kona. Það passar ekki vel inn í þann þankagang að heimta sem mestan pening. Og ef rennur af sama meiði að þær hugsa ´hvað ef allir gerðu nú eins og ég og heimtuðu topp-laun? Þá færi nú bara allt þjóðfélagið á hausinn??´ Hugsa um heildina. Hvort það er uppeldislegt eður ei veit ég ekki. Allt hitt veit ég svosem ekki heldur. Það að konur fást ekki í ábyrgðarstöður er skiljanlegt; þær hafa bara of mikið að gera á mörgum vígstöðvum. Það mætti vel kanna lífsmunstrið hjá meirihluta þeirra manna sem eru í toppstöðum og sjá hvernig dagurinn er hjá þeim. Mig grunar einhvernveginn að þeir séu ekki mikið í því að vera heima hjá veikum börnum eða að snattast að finna persónulegar afmælis- og jólagjafir eða að skipuleggja fermingarveislur. Versla þessir menn á sig fötin sjálfir? Allavega er gerð minni krafa til þess að þeir mæti í nýju átfitti í hvern mannfagnað en til kvenna (eða þá að þær þurfa að eyða tíma í að reyna að púsla gömlu druslunum saman á nýjan hátt). Útlit kvenna er gert flóknara en karla og það kostar meiri tíma.

Þetta er alltsaman einn dágóður pakki og ég get örugglega tínt alveg helling til til viðbótar, en þar sem þetta eru nú meira alhæfingar út í loftið en niðurstöður vísindalegra rannsókna, í tillegg við það að mér finnst hálfgerð fordómalykt af þessu hjá mér, þá held ég að ég láti staðar numið hér.

Mér finnst í rauninni ástæða þessa launamunar oft vera hálfgerður roluskapur í konum, þrátt fyrir að ég reyni að finna því eitthvað til afsökunar (skýringar).

Baráttan fyrir launajafnrétti kynjanna á alltaf rétt á sér. Ef hún hefur ekki borið árangur hingaðtil þarf bara að komast að því hvernig á því stendur, í staðinn fyrir að hamra sífellt á því sama aftur og aftur. Þó 12 ár séu langur tími, þá þarf líklega þessa kynslóð til að ala þetta viðhorf upp í þeirri næstu til þess að virkilegur árangur fari að nást. Og jafnvel eina til viðbótar. En það má ekkert slaka á klónni á meðan; beita þarf öllum ráðum til að bæði kynin séu sátt við hlutverk sitt í samfélaginu. Það kemur þeim báðum til góða.

Og þá er það lýðræðið.

Ég er nú ekki flínk í pólitík, en mig minnir einhvernveginn að lýðræði snúist ekki bara um það að meirihlutinn ráði, heldur líka að láta ekki meirihlutann kúga minnihlutann. Þ.e.a.s. minnihlutahópar eiga líka að hafa áhrif, hvort sem þeir eru í stuði til þess eða ekki. Þessvegna er t.d. reynt að pína alla til að kjósa, hvort sem þeir hafa áhuga eða ekki; vegna þess að rödd þeirra Á að heyrast, ekki bara MÁ. Er það ekki? Og þó konur séu e.t.v. meirihluti landsmanna, þá eru þær minnihluti í áhrifastöðum þjóðfélagsins, og það er víst það sem verið er að reyna að breyta. Hvernig er það með lýðræðið annars? Hvernig hefur það yfirleitt komist á í þjóðfélögum? Þurfti ekki fyrst að kollvarpa fyrra stjórnskipulagi með einhverslags þvingunum eða ofbeldi til að koma á því skipulagi sem mönnum fannst réttlátara, þ.e. lýðræði? Er meiningin kannski sú að við höfum, með núverandi lýðræðispraktiseringu, náð hinu eina réttasta stjórnskipulagi sem má alls ekki hrófla við því það getur bara ekki orðið betra? Það væri þá líklegt!

Er nokkuð bannað að skrifa svona langar athugasemdir?? :O

gerður rósa gunnarsdóttir, 24.10.2006 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband