21.10.2006 | 03:26
Út með ruslið
Ég hef um nokkurn tíma ætlað að blogga um þann dugnað sem ég sýni með því að sjá um alla meðhöndlun sorps hér að Bjórá. En sorpmál eru með nokkrum öðrum hætti hér í Kanada en tíðkast upp á Íslandi.
Fyrst ber að nefna að sorp hér er skipt í 5 flokka. "Grænt sorp", sorp, pappa, plast, gler og álumbúðir, pappír og pappa, og svo að lokum garðúrgang. Þessu verður öllu að halda aðskildu, og setja út að lóðamörkum á tilskyldum dögum. Ekki eru allar tegundir sorps teknar í hverri viku og sendir borgin sérstakt almanak í hvert hús til að hægt sé að standa vaktina rétt.
Þannig er "grænt sorp" tekið vikulega en sorp er tekið á hálfsmánaðarfresti, hina vikuna einbeitum við okkur að endurvinnanlega partinum, umbúðunum og pappír/pappanum. Allt hávísindalegt. Garðaúrgang má svo setja fram á nokkurra vikna fresti, nema á vorin og haustin þegar hann er sóttur vikulega.
Eins og sést á þessu, er þetta þó nokkuð prógram að halda utan um. Það er líka vissara að gleyma ekki að skutla þessu að lóðamörkunum, því ella verður einfaldlega að bíða í viku eða hálfan mánuð eftir atvikum.
Persónulega finnst mér þetta skrýtið kerfi, þó að ég dáist að því hve kerfið að afkastamikið, enda sparar það sorphirðumönnum ómældan tíma að hver og einn komi með sitt að lóðamörkum. Þannig er það aðeins einn maður sem kemur hér og losar og keyrir jafnframt bílinn. Eins manns teymi.
En það er endurvinnsluparturinn sem er það sem mér finnst skrýtið. Það að setja allt í graut, gler, plast og áldósir finnst mér skrýtin aðferð og ekki skánar það þegar ég sé að það er losað í sama stað og pappírinn og pappinn (sorpbílarnir hér eru tvískiptir þannig að "græna sorpið" fer alltaf í sér rennu). Einhvern veginn á ég erfitt með að ímynda mér vinnuna við að flokka þetta allt aftur í einhverri sorpstöð. En þeir segja hér að þeir ráði yfir það öflugum flokkunargræjum að þetta sé ekkert mál.
Svo eru haldnir svokallaðir "Umhverfisdagar" hér og þar um borgina á sumrin, þar fara menn og losa sig við hluti eins og gamlar tölvur, rafhlöður og annað þar fram eftir götunum. Þar býður borgin sömuleiðis upp á ókeypis gróðurmold sem hefur verið unnin úr "græna sorpinu" og garðúrgangnum. Hreint til fyrirmyndar.
Ef þörf er fyrir að losa sig við stærri hluti s.s. húsgögn, þvottavélar eða annað í þeim dúr, er þeim sömuleiðis skutlað að lóðarmörkum, hringt í borgina og beðið um að þetta sé sótt. Hvert hús á rétt á slíkri þjónustu 6 sinnum á ári, en það getur þurft að bíða viku til 10 daga eftir henni. Við settum reyndar þvottavél út fyrir nokkru síðan, hringdum í borgina, en einhver kom og hirti hana áður en borgin mátti vera að því að sækja hana.
Svona eru sem sé sorpmálin hér Toronto, og passa ég mig að fara út með ruslið á hverjum fimmtudegi. Geymsla og flokkun fer hins vegar fram í bílskúrnum.
Sjálfbærir sorpbílar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Lífstíll | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.