21.10.2006 | 05:40
Af hlerunum
Ég hef aldrei verið hleraður. Það gæti þó verið of sterkt til orða tekið. Réttara væri líklega að segja að mér er ekki kunnugt um að ég hafi verið hleraður. Það er óþarfi að gefa þetta alveg frá sér, því ýmislegt getur auðvitað komið í ljós seinna, jafnvel löngu seinna.
Það hefur verið með nokkrum ólíkindum að fylgjast með þessu máli og það hefur sífellt verið að koma á óvart. Sífellt hefur eitthvað nýtt verið að koma fram og ákærendur gærdagsins eru sakborningar dagsins í dag.
Ég vil nú segja að mér finnst að Kjartan Ólafsson og aðrir þeir sem kunna að hafa verið hleraðir af stjórnvöldum eigi að hafa fullan og óskilyrtan aðgang að gögnum. Jafnframt hlýtur að teljast eðlilegt að allir sagnfræðingar og jafnframt landsmenn allir hafi fullan aðgang að þessum gögnum. Það á í raun ekki að líðast að aðgangur sé takmarkaður við einstaka sagnfræðinga. Gögn eiga annað hvort að vera opin, og þá öllum, eða þá lokuð ef slíkar aðstæður eru uppi.
En hitt er auðvitað ekki óeðlilegt að fylgst hafi verið eitthvað með ákveðnum hópum "vinstri manna", þegar "kalda stríðið" stóð sem hæst. Hvort sem menn kalla það "leyniþjónustu" eða eitthvað annað skiptir ekki máli. Allir vita að ýmsir höfðu tengsl "austur". Allir vita að sendiráð Sovétríkjanna var óeðlilega fjölskipað á Íslandi og starfsmenn þess höfðu tengsl við ýmsa Íslendinga.
En hvað varðar þá sem telja að þeir hafi verið hleraðir fyrir 11 árum, þá finnst mér það skrýtið að menn skuli ekki hafa þótt ástæða til að gera neitt í þeim málum, fyrr en þeir standa í prófkjöri mörgum árum seinna.
Persónulega finnst mér einsýnt að Samfylkingarmenn í "Kraganum" hafni slíkum manni, enda ekki gott að velja sér mann til forystu sem ekkert gerir í því að honum er tilkynnt að sími hans sem starfsmanns Utanríkisráðuneytisins, sé hleraður.
Fyrrverandi utanríkisráðherra situr síðan eftir með "egg á andlitinu", hann sömuleiðis virðist ekki hafa tekið það alvarlega að hann væri hleraður, fyrr en löngu síðar, og sömuleiðis verður hann uppvís að því að hafa pukrast með eftirgrenslanir um samráðherra sinn.
Að vísu finnst mér ekkert óeðlilegt að grennslast hafi verið um tengsl Íslendinga við STASI, og hvort eitthvað væri um þá að finna í skjalasafni stofnunarinnar. En auðvitað hefði það verið heiðarlegra að greina frá þeim niðurstöðum opinberlega.
En þetta er farsi sem líklegast er ekki nema á fyrsta þætti. Því er líklega rétt að lækka launin hjá handritshöfundum Áramótaskaupsins, það er auðveld vinna þessa dagana.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Fjölmiðlar, Saga | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.