13.3.2008 | 15:22
Gott gengi hjá Sparisjóðnum
Það er nú ýmislegt sem ég er ekki mjög hrifinn af í bankakerfinu hér hér Kanada. Miðað við Íslensku bankana er kerfið hér frekar gamaldags og þungt í vöfum.
"Heimabankarnir" hér eru langt á eftir þeim Íslensku, og ávísanakerfið sem enn er hér við lýði, er nóg eitt og sér til þess að gera mig gráhærðan. Sú staðreynd til dæmis að það taki u.þ.b. viku að "cleara" ávísanir og upphæðin því "frosin" í þann tíma, er eitthvað sem ég venst seint, en þó er ég næstum hættur að ergja mig á því.
Þjónustan almennt séð er auðvitað upp og ofan, en þar hefur Eistneski sparisjóðurinn þó vinninginn. Reyndar man ég ekki eftir því að hafa komið inn í fjármálastofnun þar sem húsnæðið er minna aðlaðandi, en starfsfólkið bætir það upp.
En það sem gerir Sparisjóðinn okkar þó betri en öll önnur fjármálafyrirtæki sem ég hef skipt við, er sú staðreynd að hann deilir hagnaði sínum með viðskiptavinunum.
Þegar vel gengur, eins og gert hefur undanfarin ár, þá fá þeir sem skulda og þeir sem eiga háar innistæður hlutdeild í hagnaðinum.
Það er ekki lætið nægja að borga Sparisjóðsstjóranum og einhverjum lykilstarfsmönnum bónus, heldur njóta allir viðskiptavinir góðs árangurs.
Þannig kom þessi skemmtilegi gluggapóstur að Bjórá í morgun, þar sem Sparisjóðurinn tilkynnti að þeir hefðu lagt okkar hlutdeild í rekstrarafgangi síðasta árs inn á reikninginn okkar.
Eins og staðan er í dag er lítill sem enginn sparnaður hjá okkur í Sparisjóðnum (hann er bundin annarsstaðar), en húsnæðislánið okkar er þar. Endurgreiðslan sem kom inn á reikninginn er því sem næst 8% af því sem við greiddum í vexti í fyrra.
Það munar um minna.
Hér eru tvinnaðir saman hagsmunir fyrirtækisins, starfsfólks, og inn og útlánaeigenda (sem eru allir eigendur að sparisjóðnum). Það getur enginn án hinna verið.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.