4.3.2008 | 19:16
Heimsendaspámenn á bændaþingi
Það er merkilegt að lesa um og heyra frá umræðum á bændaþingi um svokallað "fæðuöryggi" og nú megi Íslendingar fljótlega þakka fyrir ef Íslenskir bændur selji þeim afurðir sínar á "okurverði", því nógir kaupendur séu.
Nú sé því áríðandi að hyggja að "fæðuöryggi" Íslendinga, þvi það sé það ljóst að ekki sé hægt að brauðfæða alla jarðarbúa.
Fyrst þarf að spyrja "heimsendaspámennina" hvað þeir eiga við þegar þeir tala um fæðuöryggi? Vilja þeir stórauka niðurgreidda kornrækt á Íslandi? Auka grænmetisræktun í Íslenskum gróðurúsum? Eða er fyrst og fremst verið að tala um að "landinn" hafi aðgang að mjólk og kjeti?
Það er flestum ljóst að verð á kornvöru hefur verið að hækka ört að undanförnu og hefur það jafnvel leitt af sér "fæðuóeirðir" eins og ég bloggaði til dæmis um fyrir nokkru. Ég held þó að Íslendingar geti verið nokkuð rólegir yfir þeim fréttum, þar sem verði og kaupmætti er ekki alveg saman að jafna.
Reyndar er það svo að hækkun á kornvöru hefur ekki skilað sér í hækkun á kjöti, í það minnsta ekki ennþá, sem hefur hríðlækkað í verði hér í Kanada. Þannig hefur svínakjöt lækkað um allt að 45% á fáeinum vikum (lundir sem kostuðu gjarna CAD 9.99 eru núna á CAD 5.39) og kalkúnninn sem ég keypti í gær kostaði aðeins CAD 2.20, sem er um helmings lækkun frá því sem gjarna er, en þar var þó um að ræða tilboð.
Lambalærið sem fjölskyldan hér að Bjórá snæddi á sunnudaginn, var Nýsjálenskt og kostaði CAD 6.59 kg. Það er u.þ.b. 35% lægra en algengast var fyrir nokkrum vikum.
Verðlagið á hveiti er reyndar ekki svo slæmt enn, í gær keypti ég 10 kíló sekk fyrir CAD 8, en það er þó vissulega hækkun frá því sem verið hefur.
En hvað veldur þessum hækkunum á kornmetinu?
Fyrst er jú aukin eftirspurn, sérstaklega til eldsneytisframleiðslu (sem "heimsendapsámennirnir hafa hvatt til, vegna annarrar hættu, sem sé "loftslagsvánni". Líklega munum við öll deyja úr hita eða hungri, nema hvoru tvegga sé.). Eftirspurn er einnig að aukast vegna mannfjölgunar og aukinnar velgmegunar, sérstaklega í þeim mannmörgu ríkjum, Kína og Indlandi.
Þessi aukning eftirpurnarinnar (með tilheyrandi niðurgreiðlsum hins opinbera) kemur í kjölfar afar slakrar uppskeru síðast liðið sumar.
Síðan má ekki líta fram hjá þeirri staðreynd að stór partur landbúnaðarframleiðslu heimsins hefur verið í "bakkgír", ef svo má að orði komast undanfarna áratugi. Það er að segja að keppikeflið hefur verið að framleiða ekki, heldur reyna að borga bændum fyrir að draga úr framleiðslu og/eða koma umframframleiðslu í lóg með undarlegum aðferðum.
Heimurinn á því mikið inni í matvælaframleiðslu, þó að ef til vill muni taka einhvern tíma að ná jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar, sérstaklega ef þrjóskast verður við síaukna eldsneytisframleiðslu. Þá er ekki byrjað að taka í reikninginn framfarir s.s. erfðabreytt matvæli og enduruppbyggingu landbúnaðar t.d. í A-Evrópu sem er rétt að byrja, en kornræktarsvæði t.d. í Ukrainu eiga mikið inni.
Nei, líkurnar á því að Íslendingar vinnií Eurovision, eru miklu mun meiri heldur en að Íslenskir bændur geti keppt á heimsmarkaði. Þó hef ég ekki mikla trú á Eurvision sigri.
Hitt er svo að ef menn vilja gera eitthvað í "fæðuöryggi" er líklega best til lengri tíma litið að vinna hörðum höndum að því að eignast fiskiskipaflota sem brennir vetni og gerir Íslendinga óháða erlendu eldsneyti, geyma hvalveiðiskipin á öruggum stað og hald þeim vel við og síðan væri líklega til þess að gleyma ekki bændunum rétt að tryggja kartöflurækt og mjólkurframleiðslu í landinu.
Hitt er svo nokkuð ljóst að ef svo færi Íslenskir bændur koma framleiðslu sinni á "alþjóðlegan" markað, þá kæmist "alþjóðlegi" markaðurinn til Íslands og fæðuskortur þá varla í myndinni.
Fyrst bændur eru svo að verða það mannalegir að þeir þykjast geta tekið selt framleiðslu sína á alþjóðlegum markaði, þá er auðvitað rétt að leyfa þeim það. Fyrsta skrefið til þess er auðvitað að klippa af þeim alla styrki og fríðindi.
Mitt heilræði til bænda væri þó að byrja á því að venja sig við markaðskerfið á smærri skömmtum, t.d. með því að leyfa framboði og eftirspurn að ráða verðlagi innanlands.
Persónlulega gef ég ekki mikið fyrir þennan málflutning og finnst hann bændum ekki samboðinn.
P.S. Sá að Friðjón er þegar búinn að skrifa færslu um þetta sem vel er þess virði að lesa.
P.S.S. Hvernig væri nú að einhver fjölmiðillinn birti tölur um það hvað Íslenskar afturðir myndu kosta á nokkurra styrkja og niðurgreiðslna. Hvað myndi mjólkurlítri kosta í Bónus, ef engar niðurgreiðslur væru? Hvað er kílóverð á óniðurgreiddu lambakjöti o.s.frv.
Það mætti svo fylgja með hvað heimsmarkaðsverð á sömu vörum værri.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Matur og drykkur, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Góð grein hjá þér.
Hagbarður, 4.3.2008 kl. 20:43
Við Íslendingar erum með mestu fæðuútflytjendum í heiminum, erum 13. mesta fiskveiðiþjóð í heiminum, en presidentinn ætlar greinilega að graðga öllu þessu fiskmeti í sig sjálfur og skilja okkur eftir á köldum Klaka.
Kallinn er búinn að gleyma sladdanum sem hann ólst upp við fyrir vestan og kominn með fjallalambið á heilann, sem enginn hefur efni á að kaupa, nema þá ráðsmaðurinn á Bessastöðum á kostnað skattgreiðenda.
Steini Briem (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 22:04
Takk fyrir góða grein. Það væri vissulega gaman að sjá hvað íslenskar landbúnaðarvörur myndu kosta án niðurgreiðslna.
Mig grunar að þá yrði soja eða hrísmjólk ódýrari en beljudjúsið.
Ég á eftir að deyja í hárri elli án þess að skilja hugtakið "Frjáls verslun". Hún virðist vera eitthvað sem allir tala um en enginn stundar.
Kári Harðarson, 5.3.2008 kl. 10:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.