29.1.2008 | 04:25
Húskofamenningin
Nokkuð mikið hefur verið fjallað um kaup Reykjavíkurborgar á þremur gömlum húsum við Laugaveg og er líklega vægt til orða tekið að kaupin séu umdeild.
Upphæðin sem er greidd fyrir húsin er gríðarhá og mitt persónulega álit er tvímælalaust að skaðinn af því að rífa húsin væri enginn. Ég sé ekki þessa stórmerkilegu 19. aldar götumynd, og heldur ekki tilganginn með því að reka "safn" þar sem einu sinni var aðal verslunargata Íslands.
Hitt er svo annað mál að hugmyndin (sem ég held að sé ætluð frá Hrafni Gunnlaugssyni) að flytja gömul hús í Hljómskálagarðinn og gera þar lítið heildstætt "þorp" er allra athygli verð. Þar mætti örugglega byggja upp skemmtilegt "þorp" með veitinga og kaffihúsum, handverks og hönnunar verkstæðum og verslunum. Ég set hins vegar stórt spurningamerki við það að "geyma" nokkur gömul hús á milli stórra steinsteypubygginga, hef aldrei séð sérstakan sjarma við það.
Árum saman hafa menn talað um að það þurfi að gera eitthvað fyrir miðbæ Reykjavíkur, en á sama tíma er öll uppbygging bannorð (endurbygging er það sem koma skal) og menn sjá það helst til bjargar að koma þangað með söfn og skóla.
En þó að ég sé eindreginn andstæðingur þess að borgin hafi keypt húsin þá finnst mér ég verða var við nokkuð skrýtinn málflutning hjá þeim sem eru á móti því að borgin hafi keypt húsin, eða finnst þetta of dýru verði keypt.
Óskar Bergsson, sem ég veit ekki hvort talar eingöngu fyrir Framsóknarflokkinn eða hvort hann er talsmaður hins samhenta minnihluta í heild, talar í sífellu um að að borgin hefði átt að bíða eftir því að menntamálaráðherra friðaði húsin, þannig að hluti ábyrgðarinnar félli á ríkið.
Hafa borgarfulltrúar ekki meiri metnað en það fyrir hönd borgarstjórnar, en að þeir vilji að ríkisstjórnin ákvarði og hlutist til með hvernig skipulagsmálum er háttað í borginni? Vilja þeir helst sitja með hendur í skauti og sjá til hvort að ráðherrum þóknis hitt eða þetta?
Þó að ég sé eins og áður sagði fylgjandi því að "kofarnir" verði rifnir, þá finnst mér þó lofsvert af borgarfulltrúum að taka af skarið og kaupa "spýtnahrúgurnar". Þannig sýna þeir þó að minnsta kosti frumkvæði, taka af skarið og bera þá ábyrgð á verknaðinum, frekar en að fela sig á bak við ráðherra og ríkisvaldið.
Hitt er svo þegar sífellt er talað um hve eigendur húsanna hafi hagnast mikið og hve stóran "snúning" þeir hafi tekið á borginni, þá er auðvitað um gríðarlega einföldun að ræða, og hlutur "stóru ljótu kapítalistanna" auðvitað gerður sem stærstur og verstur.
Ef mismunurinn á því sem fyrrverandi eigendur og því sem borgin borgaði fyrir húseignirnar er u.þ.b. 300 milljónir, þá er auðvitað ekki nema hluti þess hagnaður.
Nú veit ég ekki hvenær fyrrverandi eigendur eignuðust húsin, en ljóst er að ef t.d. kaupverðið hefur verið tekið að láni, hefur safnast á það þó nokkur fjármagnskostnaður. Síðan hafa þeir lagt út í þó nokkurn kostnað við að skipuleggja og hanna þann húsakostnað sem rísa átti á lóðunum. Sömuleiðis hafa eigendur og starfsmenn fyrirtækisins án efa eitt drjúgum tima í að undirbúa verkefnið og meðal í að hafa samráð við borgarkerfið um fyrirhugaða uppbyggingu.
Fyrirtækið hlýtur sömuleiðis að hafa verið búið að tryggja sér tæki og tól (krana og aðrar nauðsynjar) starfsfólk og jafnvel búið að semja við undirverktaka um ákveðna verkþætti. Allt þetta verður auðvitað að engu.
Án þess að ég þekki til verksins þykir mér ekki óeðlilegt að ætla að vinna og undirbúningur að framkvæmdinni hafi tekið nokkur ár og ófáum vinnustundum til kostað.
Síðan er að sjálfsögðu ekki óeðlilegt að borgin bæti þeim hluta af væntanlegum hagnaði af framkvæmdinni, þegar ráðist er í að stöðva hana með þessum hætti.
Allt þetta vegna þess hve illa var staðið að málum, framkvæmdir flautaðar á og síðan af. Hverjir voru það annars sem stóðu að skipulaginu sem gerði ráð fyrir því að þessi hús yrðu rifin?
P.S. Svo er það smá getraun í lokin, hvaða stjórnmálamaður lét þau orð falla að það væri enginn stjórnmálamaður merkilegri en húsin að Laugavegi 4. og 6.?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.