5.1.2008 | 05:04
Í leit að lýðræði sem hentar?
Nú eru farnar að berast fregnir af því að hugsanlega verði kosið um frambjóðendur til forseta á Íslandi næsta sumar.
Ef marka má fréttir bendir ýmislegt til þess að frambjóðendur verði "the usual suspects".
En það er þegar byrjað að tala um að koma verði í veg fyrir að Ástþór Magnússon geti verið í framboði. Einhverjir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að það sé "nauðgun á lýðræðinu" ef hann bjóði sig fram.
Undarlegur málflutningur.
Ég get fúslega viðurkennt að ég hef aldrei kosið Ástþór, kem ekki til með að kjósa Ástþór og teldi það landi og þjóð til heilla ef hann byði sig ekki fram.
En ég get sagt það nákvæmlega sama um Vinstri græna og raunar Frjálslynda flokkinn sömuleiðis.
Samt dettur mér ekki í hug að tala um að þeir eigi ekki að bjóða sig fram, eða það eigi að herða á öllum skilyrðum svo að þeim væri gert erfiðara fyrir.
Sama segi ég um Ástþór.
Lýðræðið verður að hafa sinn gang, það er ekki gallalaust, en það langbesta stjórnarform sem enn hefur komið til. Við eigum ekki að fara að leita að lýðræði sem "hentar".
Það er líka hvimleiður málflutningur að emja og væla yfir nokkrum tugum milljóna sem fara í kosningar. Ef nokkrar óþarfa kosningar væru mesta sóunin á vegum hins opinbera á Íslandi væru Íslendingar í góðum málum.
Kosningar gæfu líka Íslendingum tækifæri til að sýna hug sig til forsetans, þeir skunda þá væntanlega á kjörstað og færa honum glæsilega kosningu.
Eða hvað?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst nú í lagi að fólk tjái sig um þetta framboð,það er ekkert verið að koma í veg fyrir að Ástþór eða aðrir fari í framboð með því.Hér er lýðræði eins og þú komst inná og ef Ástþór(og aðrir)fylla upp öll skyilyrði þá er ekkert hægt að koma í veg fyrir framboðið hjá honum.Lögin í landinu gilda um hann sem og okkur hin.En hitt er annað mál að honum ætti að vera orðið ljóst að hann verður ekki kosinn forsetinn Íslands og ætti því að hætta við framboðið og sætta sig við þetta.Framboðið kostar okkur tæplega 172 milljónir og það er nú all nokkuð uppí t.d. 300 milljónir sem vantar til að reka heilsugæsluna í landinu á fullum dampi....bara svona svo eitthvað sé tínt til.Þetta er spurning um bruðl á almannafé þar sem hann veit að hann fær ekki brautargengi og væri því nær að vera ekki að eyða þessu fé í svona vitleysu.Við getum notðað þessar milljónir í svo margt annað þar sem þeirrra er virkilega þörf.
Júlíus Már Baldursson (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 00:36
172 milljónir eru 573 krónur á mann í landinu. Ég heyrði einhversstaðar að þróunin á miðakerfinu í strætó og sundstaði, sem virðist ekki eiga að nota eftir allt saman, hafi kostað 500 milljónir.
Ég held að kosningar séu vel peninganna virði ef þær verða til þess að halda þeim sem eru við stjórnvölinn við efnið svo þeir eyði peningunum okkar síður í vitleysu.
Kári Harðarson, 6.1.2008 kl. 00:59
Þakkir fyrir innleggin. Auðvitað er sjálfsagt að tjá sig um framboð eða hugsanleg framboð, jafnt Ástþórs sem annarra. Þó að ég sé ekki hrifinn af Ástþóri vil ég gjalda varhug við því að lög séu sett eða skilyrði hert til að gera einstaklingum eða flokkum erfiðara við að bjóða fram. Framboðsrétturinn er mikilvægur.
Það er því mikill munur á því að tjá sig um hugsanlegt framboð eða viilja reyna að koma með einhverjum ráðum í veg fyrir það, eða tala um að framboð sé "nauðgun á lýðræði", getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig framboð getur verið "nauðgun"?
Einhver lélegustu rök sem ég sé er þegar einhver fer að bera einhverja upphæð saman við eitthvað sem vantar til heilbrigðiskerfisins. Það er ekki eins og að kostnaður við forsetakosningar séu það eina sem mætti spara.
Hvað með t.d. framlög til stjórnmálaflokka? Hvað með Héðinsfjarðargöng? Hvað með niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum? Sumir vilja jafnvel meina að álíka upphæð eða hærri ætti að vera hægt að spara í heilbrigðiskerfinu sjálfu.
Við gætum líka sett í lög að forseti sé ævikjörin, það myndi líklega spara eitthvað af peningum.
En lýðræði kostar. Það er kostnaður sem ég sé ekki eftir. Það er margt sem má "höggva" í opinberum útgjöldum áður en við þurfum að hafa áhyggjur af kostnaði við kosnigar, hvort sem það eru forsetakosningar eða aðrar.
G. Tómas Gunnarsson, 6.1.2008 kl. 04:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.