4.1.2008 | 04:03
Menning og listir
Ég hef komist nokkuð í Íslenska menningu nú upp á síðkastið, bæði bækur og kvikmyndir. Þetta er enda uppskerutíminn ef svo má að orði komast.
Í Florida náði ég að lesa Harðskafa eftir Arnald Indriðason og sömuleiðis Dauða Trúðsins eftir Árna Þórarinsson. Það er skemmst frá því að segja að báðar bækurnar þóttu mér ágætar, þó að mér finnist Arnaldur oft hafa átt betri spretti. Árni er hins vegar á uppleið.
Ég náði því svo á milli hátíðanna að horfa á Mýrina með konunni, en það varð okkur nokkur harmur að hafa ekki tók á því að sjá hana í bíó síðastliðið haust þegar hún var sýnd á kvikmyndahátíðinni hér í Toronto.
En myndin er ákaflega góð og við Bjórárhjónin vorum sammála um að hún væri ljómandi skemmtun, tvímælalaust í hópi bestu Íslensku kvikmyndanna, þó að vissulega sé hún langt frá því að tylla sér á toppinn. En það er vissulega góður áfangi að komin sé til sögunnar góð og trúverðug Íslensk "krimmamynd".
En Köld slóð bíður þess að tími gefist, og svo sömuleiðis Næturvaktin, en hana horfi ég þó nánast örugglega einn, þar sem þættirnir eru ekki textaðir, en ég hlakka til að sjá hvoru tveggja.
En ég er líka nýbúinn að lesa Rimla hugans, eftir Einar Má. Þar er á ferðinni gríðarlega vel skrifuð og grípandi bók. Reyndar hefur Einar aldrei valdið mér vonbrigðum, alla vegna ekki svo orð sé á gerandi. Hann hefur alla tíð síðan ég heyrði hann lesa upp úr Riddurum hringstigans í Háskólabíói forðum daga, verið í uppáhaldi hjá mér.
Í dag lauk ég svo við bók Tryggva Harðarsonar, Engin miskun - El Grillo karlinn, sem fjallar um lífshlaup Eyþórs Þórissonar. Aldrei hafði ég heyrt af Eyþóri áður en ég fékk bókina í hendur, en henni er líklega best lýst með því að segja að hún sé "svakamannasaga". En bókin er skemmtileg aflestrar og augljóst að ferill Eyþórs er með eindæmum líflegur eða skrautlegur eins og margir myndu líklega komast að orði. En ávalt lendir hann á fótunum þó að þeir séu valtir á köflum.
Persónulega mæli ég með öllum þessum bókum, enda mæli ég yfirleitt með bókum, þær eru ekki margar sem eru betri ólesnar. En svona jólasendingar eru mér ákaflega mikils virði, gefa tengingu "heim" í jólabókaflóðið og gefa ósvikna stemmningu.
Það gerir reyndar líka hangikjötsilmurinn sem liggur yfir Bjórá þessa stundina, því hangikjöt var soðið hér í dag. Búið er að bjóða fólki heim á morgun, í hangikjöt, uppstúf, rauðkál, rauðrófur og grænar baunir. Aldrei að vita nema blandað verði malt og appelsín sömuleiðis.
Og það eru engar eftirlíkingar, heldur ekta Hólsfjalla hangikjöt. Nú er bara að sjá hvernig óvönum smakkast það?
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: Kvikmyndir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.