2.1.2008 | 21:22
Stærstu mistökin?
Ég hef verið að horfa á Íslenska spjallþætti á netinu, alltaf gaman að fylgjast með því þegar litið er um öxl og árið gert upp.
Mér virtist að flestir væru þeirrar skoðunar að stærstu mistökin á nýliðna árinu, hefðu verið gerð af borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna, eða alla vegna 6/7 hluta hans.
Ég er vissulega sammála þvi að það getur ekki talist til eftirbreytni að missa stjórnartaumana, en er þó ekki alveg sammála um að borgarfulltrúarnir hafi gert mistök. Alla vegna ekki eins og málið blasti við mér hér í útlandinu.
Eða eru allir þeirrar skoðunar að það hefði verið betra að hið svokallaða REI mál hefði haldið áfram í þeim farvegi sem það var komið í, þegar 6 menningarnir fóru á "mótþróaskeiðið"?
Eru flestir sammála um það að betra hefði verið að sameining REI og GGE hefði gengið eftir, með tilheyrandi "einkaréttarsamningum", kaupréttarsamningum og öðru því sem tilheyrði?
Eru flestir á þeirri skoðun að best hefði verið að REI og GGE hefðu keypt orkufyrirtæki á Filipseyjum, ásamt þarlendum aðilum, og borgað fyrir það fleiri milljörðum meira en nokkur annar sá ástæðu til að bjóða?
Er það helber tilviljun að móðurfyrirtæki GGE þurfti að fara í algera uppstokkun og fá stóra innspýtingu af hlutafé, fáum vikum eftir að ljóst varð að af sameiningu við REI yrði ekki?
Ekki hef ég svar við þessum spurningum, en hefði gaman af því að heyra álit þeirra sem lesa hér í athugasemdum. Ég er þó eindregið þeirrar skoðunar að rétt sé að nota þekkingu OR ef svo ber undir, en ekki fjármagn til útrásar. Það ætti líka að vera sett upp þannig að þeir sem áhuga hafa hefðu til að starfa með OR ættu þess kost, en ekki að binda sig við eitt fyrirtæki.
En hvaða leið ættu borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna færa, ef þeir vildu stöðva þetta ferli sem komið var í gang, og virðist hafa verið sett saman af embættismönnum í kringum OR, Vilhjálmi þáverandi borgarstjóra og Birni Inga?
Það virtist vera nokkuð ljóst að þá um stundir setti Björn Ingi það sem skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi að samruninn yrði keyrður í gegn. Hann virðist þó hafa sætt sig við að svo yrði ekki í núverandi meirihluta, en hvað olli þeim sinnaskiptum getur líklega enginn útskýrt nema hann sjálfur.
Er borgarstjórnarmeirihluti ef til vill vel ásættanlegur kostnaður til þess að koma í veg fyrir fyrirhugaða samninga?
En eftir standa margar spurningar. Ekki síst um þátt Vilhjálms og Bijörns Inga og ekki síður þátt þeirra starfsmanna OR sem stóðu að samningagerðinni fyrir fyrirtækið.
Sú spurning hlýtur líka að vakna hvort að þeir embættismenn njóti fyllsta trausts hjá núverandi borgarstjórnarmeirihluta? Er meirihlutinn fyllilega ánægður með hvernig þeir unnu fyrir OR? Eða var það ef til vill partur af "dílnum" við Alfreð og Björn Inga að ekki yrði hróflað við þeim?
Auðvitað hefði líka verið gott fyrir borgarbúa að vita hvort að ólöglega hefði verið staðið að fundarhöldum, það hefði verið fengur að fá úrskurð dómstóla í þeim efnum. En slík "leiðindi" eru auðvitað ekki til þess fallin að fá atkvæði sem "maður ársins".
En hver voru mestu mistökin? Að koma í veg fyrir það að sameining REI og GGE gengi í gegn? Var sameining REI og GGE ásættanlegt verð fyrir að sitja áfram í meirihluta og að Villi héldi borgarstjóradjobbinu?
Ef svo er ekki, hver voru þá mistökin?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Stærstu mistökin á árinu, miðað vð það sem á undan var gengið, var að fá EKKI úrskurð dómstóla á lögmæti umræddra fundarhalda.
Júlíus Valsson, 2.1.2008 kl. 21:35
Gleðilegt ár!
Stóru mistökin var samningurinn um 20 ára nánast takmarkalaust vinnuframlag OR við REI. Með honum sýndist manni sem REI hefði getið látið OR vinna fyrir sig án greiðslu út í hið óendanlega. Þessi samningur var alveg grímulaus þjófnaður með vitund aðalstjórnenda OR og átti að lauma þessu í gegnum slaka enskukunnáttu Villa með því að hafa samninginn á ensku.
Í ljósi þessa samnings þykir mér með ólíkindum að ekki skuli fleiri stjórnendur OR hafa verið reknir með skömm. Þar á ég við Guðmund Þóroddsson og Hjörleif Kvaran. Stjórnarformaður Haukur Leósson var einn látinn fjúka ásamt því að íhaldið missti stjórnina.
Svo voru það náttúrulega mistök að senda SMS-ið "Til í allt án Villa" sem er verulega barnalegt dómgreindarleysi.
Haukur Nikulásson, 2.1.2008 kl. 22:49
Gleðilegt árið og þakkir fyrir innleggin.
Auðvitað má alltaf finna mistök, rétt eins og með SMS, sem hefur þó aldrei fengist almennilega uppgefið hvenær var sent og reyndar man ég ekki eftir því að hafa heyrt tilvist þess staðfesta af neinum nema Birni Inga, sem í mínum huga er ekki traustasta heimilidin. Hitt er þó líklegt að ýmis skilaboð hafi farið um meðan á "stóladansinum" stóð.
En stærsta spurningin stendur ennþá eftir ósvarað? Hvað áttu sexmenningarnir að gera? Láta sameininguna ganga yfir, til að halda stólunum? Hvaða möguleika áttu þau á því að halda stólunum og jafnframt stöðva dæmið?
Enga sem ég sé.
Í raun, hvort sem að það var upphaflegi tilgangurinn eður ei, þá er það að mínu mati 6 menningunum að þakka að ferlið var stoppað, ekki Svandísi Svavarsdóttur. Hún á svo líklega stærstan þátt í því að hinn nýji meirihluta stöðvaði málið.
Og eins og Haukur segir, þá er það allrar athygli vert að starfsmenn OR sem bera ábyrgð á samningagerðinni virðast vera nokkuð "stikkfrí". Njóta þeir velvildar og trausts núverandi meirihluta?
G. Tómas Gunnarsson, 4.1.2008 kl. 04:15
Ég sé í raun ekki frekar en þú hvernig íhaldið átti að halda stólunum. Þú gerir það ekki ef Bingi vill hætta samstarfinu. Hér skal ekki vanmeta þann gjörning Guðlaugs Þórs að reka Alfreð úr feita sjúkrahúsnefndardjobbinu og fleygja þeim stóra spillingarbita í forsætisráðherrafrúna. Guðlaugur var búinn að strjúka Alfreð mikið öfugt í gegnum tíðina og það kemur að því að kettirnir hvæsa og bíta frá sér eins og Alfreð. Og hann hafði nægilega mikil áhrif á Binga til að hefna sín svo um munar.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá getur Guðlaugur Þór þakkað sér að íhaldið tapar borginni.
Haukur Nikulásson, 4.1.2008 kl. 09:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.