28.9.2006 | 16:21
Stefnumál flokks og frambjóðenda
Athygli mín var vakin á því í dag að Benedikt Sigurðarson, frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norð-Austurkjördæmi hefði opnað heimasíðu nú nýverið, www.bensi.is .
Ég skondraði að sjálfsögðu og skoðaði síðuna. Síðan er ágætlega uppsett og nokkuð mikið efni á henni. Það var eitt og annað sem vakti sérstaka athygli mína.
Á síðu sem ber yfirkriftina "Jöfnuður - ójöfnuður?" má finna eftirfarandi klausu:
"Að undanförnu hefur mikið verið rætt um matarverð og framfærslu heimilanna ekki síst á grundvelli prívat-skýrslu hagstofustjórans Hallgríms Snorrasonar. Því miður skapaði Hallgrímur ekki forsendur fyrir góðri sátt og hófsemi í umræðunni með sínum einleik en engu að síður hefur málið fengið mikla athygli. Ekki er unnt að fallast á að hugmynd Hallgríms um einhliða niðurfellingu tolla og vörugjalda af öllum landbúnaðarvörum sé raunhæf aðgerð vegna hliðarverkana og fyrirsjánlegs hruns í atvinnugreininni, en unnt er að lækka matarverð í skrefum og nokkuð hratt fyrir því."
Ekki virðist því Benedikt fallast á stefnu Samfylkingarinnar óbreytta, um að fella einhliða niður tolla og vörugjöld á tæpum 2. árum. Neðar á síðunni talar Benedikt um að fella niður virðisaukaskatt á matvæli og virðist þar standa nær ríkistjórninnini (þeim hugmyndum sem þaðan hafa heyrst) heldur en Samfylkingunni.
Benedikt virðist svo vilja stórhækka fjármagnstekjuskatt og skattleggja hann til jafns við launatekjur. Gengur hann þar lengra en t.d. Jóhanna Sigurðardóttir sem hefur viðrað hugmyndir um að hækka skattinn upp í 15%. Þetta tel ég ákaflega varhugaverðar hugmyndir og hreina árás á sparnað á Íslandi, en ég bloggaði um þetta fyrir nokkru og má lesa um það hér.
Á síðu sem ber yfirskriftina "Nýting og náttúruvernd" verður ekki annað skilið en að Benedikt fari sömu leið og margir aðrir Samfylkingar, hann vill ekki fara eftir tillögum flokksins, telur að pláss sé fyrir eitt álver enn, og að sjálfsögðu í því kjördæmi sem hann sækist eftir að leiða listann í . En þar segir meðal annars:
"Það er ljóst að álver við Húsavík er komið á dagskrá. Því miður er nú hætta á að það hafi lent aftur fyrir í röðinni og Grundartangi, Straumsvík og Helguvík séu nær því að komast á framkvæmdastig ef marka má stöðu orkuöflunar. Þessi framkvæmdaröð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er auðvitað ekki í neinu samræmi við það þensluástand sem varanlega virðist til staðar á SV-landi en enginn hefur orðið var við staðbundna þenslu í Þingeyjarsýslum. Eftir sem áður er nokkuð í land í rannsóknum og endanlegum undirbúningi varðandi orkuöflun áður en líklegt er að framkvæmdaaðilar vilji skuldbinda sig til að hefja byggingu álvers. Einnig þarf að liggja ljóst fyrir að viðunandi orkuverð verði í boði. Nú er ekki líklegt að á næstu 5-8 árum verði pláss fyrir fleiri en 1 álver á Íslandi og auðvitað er mikilvægt að það álver rísi á okkar landshluta og þá er Húsavík komin á kortið og ástæða til að fylkja landsbyggðarfólki um þá staðsetningu."
Það má því skilja af þessu að Benedikt vill ekki "setja tappann í" hvað varðar frekari uppbyggingu stóriðju næstu 5 ár, eins og skilja mátti stefnuyfirlýsingu Samfylkingarinnar nú nýverið. Hann virðist vilja halda áfram að undirbúa álver á Húsavík og harmar það hve aftarlega það virðist í röðinni og vill að sjálfsögðu kenna þar um ríkisstjórnarflokkunum.
Síðan á eftir millifyrirsögninni "Samfylkingingin talar skýrt" má lesa eftirfarandi klausu:
"Skýrar áherslur Samfylkingarinnar í umhverfismálum þar sem frekari stóriðjuuppbygging er sett í bið og jafnvægi gagnvart nátturuverndarsjónarmiðum er sett í forgang kann að koma einstökum forystumönnum flokksins í opna skjöldu. Það er slæmt fyrir flokkinn þegar talsmenn hans verða tvísaga og ganga ekki í takt en það er umfram allt slæmt fyrir kjósendur ef einstakir forystumenn og frambjóðendur reynast ótrúverðugir. Undirbúningur og rannsóknir halda áfram fyrir álver á Húsavík og þegar að því kemur að tekin verði endanleg ákvörðun þá er mikilvægt að forystumenn og íbúar annars staðar í kjördæminu einkum á Akureyri og við Eyjafjörð vinni með Húsvíkingum til að tryggja hagfellda niðurstöðu og í sátt við heildstæða stefnumótun."
Hvernig það fer saman að "Samfylkingin talar skýrt" og "Það er slæmt fyrir flokkinn þegar talsmenn hans verða tvísaga og ganga ekki í takt ...", er eitthvað sem ég skil ekki. En allar útskýringar hvernig þetta tengist eru vel þegnar í athugasemdum hér að neðan.
En það verður fróðlegt að fylgjast með því á næstu vikum og mánuðum hvernig frambjóðendum Samfylkingarinnar tekst að stilla saman eigin stefnumál við stefnumörkum þá sem flokkurinn hefur lagt fram og virðist njóta lítillar hylli utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig virðist það ljóst að öll kjördæmin utan Reykjavíkurkjördæmanna tveggja hafa áhuga á frekari stóriðjuuppbyggingu og landsbyggðarkjördæmin heldur ekki mjög ginkeypt fyrir því að klippa af verndartolla og vörugjöld af íslenskum landbúnaði á tæpum 2. árum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Bloggar, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 17:31 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.