27.9.2006 | 16:21
Skýrir valkostir - Hverjir vilja hvað?
Ég hef heyrt í Ómari Ragnarssyni frá því að ég man eftir mér. Hann hljómaði mikið og oft á mínu bernskuheimili. Þá voru það kvæði á við "Rafvirkjavísur", "Jói útherji", "Ertu að baka", "Þrjú hjól undir bílnum" og aðrar gamanvísur sem ég sönglaði með og hafði gaman af.
Ennþá legg ég við hlustir þegar Ómar talar, þó að ég hafi ekki jafn gaman af því sem hann er að segja eða syngja þessa dagana, en hann fær mig alltaf til að hlusta. Það er vissulega nokkuð afrek að fá u.þ.b. 10.000 (hér fer ég nú bara millibilið á tölunum sem heyrst hafa) manns til að ganga með sér niður Laugaveginn og það ber að fagna því að mótmæli sem þessi fari fram án alls ofbeldis og gífuryrða.
Þó að ég sé ekki "samferða" þeim sem þar gengu, eiga þau öll heiður skilið fyrir að sýna afstöðu sína með eftirminnilegum hætti og á með hófstilltum hætti. Það mættu ýmsir andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar taka sér til fyrirmyndar.
En en þó að mér þyki hugmyndir Ómars um að láta stífluna standa sem minnismerki, og hætta við fyrirhugaða notkun hennar, órar einir og ekki raunhæfar hugmyndir, þá verður því ekki á móti mælt að þó nokkur hópur Íslendinga virðist ekki líta svo á. Það sannar sá fjöldi sem tók þátt í göngunni í Reykjavík í gærkveldi. Þessar hugmyndir virðast síður njóta hylli á landsbygðinni, enda þáttaka ekki mikil á Ísafirði, Akureyri eða Egilsstöðum.
En nú eru þessar hugmyndir komnar fram, og eins og ég áður sagði stígur nokkuð stór hópur fram og lýsir yfir stuðningi við þær. Því hlýtur eðlilegt að nokkur umræða verði um þessar hugmyndir á næstu dögum, vikum og mánuðum. Þær verða án efa ræddar víða þar sem fólk kemur saman, í kaffistofum, börum, fjölskylduboðum, í skólum og í skúmaskotum.
En þessi umræða verður líka að fara fram á pólítíska sviðinu.
Það er áríðandi að frambjóðendur í prófkjörum flokkanna verði krafnir um svör varðandi afstöðu þeirra til virkjunarinnar, og sömuleiðis hugmynda Ómars. Síðan verða frambjóðendur flokkanna að svara því hvort að þeir eða þeirra flokkur geti hugsað sér að framkvæma hugmyndir Ómars eða hvort þeir vilji nýta Kárahnjúkavirkjun.
Mikið hefur verið rætt um rétt almennings um skýra valkosti á undanförnum vikum. Hér er mál sem ég tel að stjórnmálamenn verði að bjóða almenningi upp á skýra valkosti um. Hvaða leið vilja þeir fara, hvaða leið telja þeir vænlegasta.
Vonandi fara íslenskir fjölmiðlamenn af stað og krefja stjórnmálamenn svara.
Hverjir eru með hverjir eru á móti. Ég er ekki frá því að þau svör séu mikilvægari en með hverjum hver vill mynda ríkisstjórn.
P.S. Ég verð að minnast á eitt skilti sem ég sá á mynd, sem mér þótti mjög gott slagorð, þó að ég sé ekki sammála því. DAM NATION. Skemmtilega tvöföld merking í þessu.
Allt að 15.000 mótmæltu framkvæmdum við Kárahnjúka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Vísur og ljóð, Fjölmiðlar, Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.