Af öfgamönnum (og konum)

Mér þykir það alltaf miður þegar reynt er að breyta merkingu orða og jafnvel afneita merkingu þeirra.  Það er nefnilega mikilvægt í allri umræðu að orð hafi sömu merkingu hjá þeim sem taka þátt í umræðunum.  Þó eru nokkur dæmi um þess, ekki síst í stjórnmálum að þetta sé reynt. (Merkingarbreyting er þó vissulega nokkuð algeng í slangri og hjá unglingum, s.s. þegar eitthvað er alveg geðveikt, fríkað, eða þar fram eftir götunum, en getur sömuleiðis valdið misskilningi).

Eitt dæmi sem ég heyrði nýlega var hjá "femínistum" í Silfri Egils.  Þær voru ekki "öfga" femínistar.  Þær gætu einfaldlega ekki talist "öfga", þar sem þær fremdu ekki hryðjverk, þær sendu ekki bréfasprengjur, þær kveiktu ekki í bílum o.s.frv.

En "öfgar" hafa (alla vegna í mínum málskilningi) langt frá því sömu merkingu og hryðjuverk og eiga í flestum tilfellum ekkert sameiginlegt, þó að vissulega hafi ýmsir öfgamenn (og konur) framið hryðjuverk og talið það málstað sínum til framdráttar.  En öfgamenn (og konur) þurfa ekki að vera hryðjuverkamenn og jafnvel er hægt að hugsa sér að hryðjuverkamenn (og konur) séu ekki öfgamenn, þó að það sé líklega sjaldgæfara.

Því öfgamenn (og konur) eru gjarna kallaðir svo vegna skoðanna sinna.  Það er að segja að skoðanir þeirra teljast það langt frá þvi sem "venjulegt" getur talist að talað er um öfgar.

Það verður hinsvegar að segja femínistum það til varnar að það sem "venjulegt" getur talist er að sjálfsögðu erfitt að skilgreina og því er það sem einum finnst öfgar, langt frá því í huga annars.  Það getur líka farið eftir því í hvaða samfélag eða hóp er miðað við.  Það sem teljast öfgar í einu samfélagi getur verið "normið" í öðru.

Þannig er varla hægt að segja að nokkur hafi rétt eða rangt fyrir sér þegar talað er um öfgar, menn (og konur) sem stimpla femínista hafa því rétt fyrir sér þegar þau lýsa þeirri skoðun sinni að femínistar séu öfgamenn.  Frá þeirra sjónarhorni er það rétt.

Hitt ber svo á að líta að í hópi femínista víkja femínistar líklega lítt frá "norminu" og teljast þar því ekki öfgamenn (eða konur).

Þegar litið er á Íslendinga í heild á ég erfiðarar með að dæma (enda hef ég ekki komið til Íslands um nokkurt skeið) ef til vill er þar nú orðið venjulegt að kæra greiðslukortafyrirtæki fyrir að "aðstoða" klámfyrirtæki, ef til vill er fullt af "öfgalausu" fólki sem dreymir um og er í startholunum með að kæra bókaverslanir fyrir að selja "klámblöð", Eimskip, Samskip og Icelandair verða líklega sömuleiðis kærð fyrir að flytja "klám" til landsins, bílaumboð verð kærð fyrir að selja bíla sem oft eru notaðir í afbrotum (til dæmis er þeim ekið allt of hratt), kúbein verður auðvitað bannað að flytja til landsins (athugað verði hvort þeir sem slíkt hafi notað í innbrotum hafi greitt þau með greiðslukortum).

Og ef að Heidelberg og prentsvertuframleiðendurnir haldi að þeir komist upp með þetta, er "Öryggisráðið" líklega á annarri skokðun.

En hér af þeim sjónarhóli sem ég stend, þá eru þetta öfgar og menn (og konur) sem boða og stendur fyrir þessar skoðanir öfgafólk.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eru konur ekki menn ???

lilja (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 19:13

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að konur væru menn, en þar sem þær una því t.d. illa að vera ráðherrar og framkvæmdstjórar og annað því um líkt, þótti mér betra að hafa vaðið fyrir neðan mig og setti því "og konur" innan () því mér þótti æskilegra að allir skyldu að ég væri ekki bara að tala um karlmenn.

G. Tómas Gunnarsson, 12.12.2007 kl. 20:04

3 identicon

Ég held að öfgamenn séu ekki endilega þeir sem eru lengst frá norminu í skoðunum, frekar að það séu þeir sem hafna einhverju sem aðrir telja til grunngilda.

Þannig hafa femínistar t.d talað um að snúa réttarríkinu á haus í kynferðisbrotamálum og raunar daðrað við allskyns hugmyndir um heftingu tjáningarfrelsis (t.d bókabrennufærslan hennar Katrínar Önnu). Ég held að það sé frekar það sem hefur komið öfgamannastimplinum á þær heldur en hitt.

Hannes Hólmsteinn hefur miklu sjaldnar verið kallaður öfgamaður þótt að hann sé líklega næstum jafn mörgum staðalfrávikum frá skoðunum meðal Íslendingsins. Það eru miklu frekar frjálshyggjumenn sem vilja afnema velferðarkerfið sem eru kallaðir öfgamenn. 

Síðan er til fólk sem hefur mjög skrýtnar skoðanir, t.d Magnús Skarphéðinsson sem vill engin dýr drepa til matar. Hann er ekki almennt kallaður öfgamaður (stundum rugludallur, en ekki öfgamaður). Ég myndi rekja það til þess að hann beitir ekki aðferðum sem stangast á við grunngildi samfélagsins til þess að bjarga dýrum, t.d skemmdaverkum eða ofbeldi. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 20:23

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þakka innleggin.  Jú, í raun er Magnús Skarp með öfgafullar skoðanir á dýravernd og að mörgu leiti má segja að grænmetisætur séu öfgafullar í matarvali.  Það sem sker slíkt þó frá öfgafemínisma er að bæði Magnús og grænmetisætur (alla vegna þær sem ég þekki) hafa kynnt sín mál með hógværum hætti og í ég þekki enga grænmetisætu sem berst fyrir því að ríkið banni að éta kjet.

Ef þú ferð og kynnir þér umræðurnar um og eftir 1980, þegar frjálshyggjan var að feta sín fyrstu spor myndirðu sjá að Hannes hefur mjög oft verið kallaður öfgafrjálshyggjumaður.  En bæði er að líklega hafa skoðanir Hannesar ef eitthvað er mildast og hitt ekki síður að "normið" er allt annað en það var, hvað varðar frelsi og fyrirhyggju ríkisvaldsins.

En það verður líka að koma fram, að rétt eins og Magnús og Hannes, beita femínistar ekki ofbeldi við að kynna sinn málstað.  Það breytir því ekki að frá mínum "sjónarhól", finnst mér þær standa fyrir öfgafullar skoðanir.

G. Tómas Gunnarsson, 13.12.2007 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband