25.9.2006 | 21:35
Að klúðra stefnumálunum
Samfylkingin kom nú nýverið með ágætis tillögur um breytingar á vörugjöldum og tollum sem lagðar eru á innfluttar landbúnaðarvörur á Íslandi. Þó að ég hafi sagt að heldur bratt sé til lagt að gera þetta á tæpum tveimur árum, en samt er þetta ágætis tillögur.
Eins og við er að búast þá líst bændum og málsvörum þeirra ekki á málið, enda verið að taka spón úr aski þeirra ef svo má að orði komast.
Og hvað gerist þá? Ingibjörg Sólrún bregst hin versta við og er reið yfir því að talsmenn samtaka séu að tala gegn "kjörnum fulltrúum almennings". Hvað er að konunni? Hafa "talsmenn" ekki málfrelsi?
Hér má sjá viðtal við Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna úr fréttum NFS í gær, en Ingibjörg Sólrún sakaði hann um að fara með bölbænir á hendur Samfylkingu. (Ætli hann gangi ekki undir nafninu Sigurgeir "seiðskratti" innan Samfylkingar nú orðið?)
Hér er svo klippa úr Íslandi í bítið, í morgun, þann 25 sept, þar situr Ingibjörg ásamt formanni Bændasamtakanna, Haraldi Benediktssyni. Ég verð að segja að þó að ég sé fylgjandi tillögum Samfylkingarinnar í stærstum dráttum, klúðraði Ingibjörg því gjörsamlega að útskýrar sína hlið og sat eins og skólastelpa þegar formaður bænda útskýrði landbúnaðarkerfið.
Hér er svo frétt Vísis, um þetta sama viðtal.
Hverju átti Ingibjörg og Samfylkingin von á? Að samtök bænda stykku upp, "klöppuðu saman lófunu, myndu reka fé sitt úr móunum" og senda inntökubeiðni í Samfylkinguna. Auðvitað koma þessar tillögur illa við bændur. Það þarf tillögur sem koma illa við bændur. Hinn almenni íslendingur er orðinn þreyttur á því að greiða fyrir íslenskan landbúnað, og það sem meira er þeir hafa ekki áhuga á því að greiða lægra verð á "kassanum" ef það þýðir að hann þurfi að borga bændum meira í formi skatta. Neytendur (kjósendur) vilja lægra matvælaverð. PUNKTUR.
Það þarf að afnema vörugjöld, kvóta og tolla af landbúnaðarvörum. Ég held þó að ekki sé raunhæft að gera þetta á tæplega tveimur árum. Réttara væri að stefna á því að afnema tolla og vörugjöld á 5 til 6 árum og aðrar greiðslur til bænda á u.þ.b. 10 árum.
Auðvitað leggst íslenskur landbúnaður ekki niður, hann fer ekki í rúst, þó að þessi vernd verði af honum tekin, en hann mun og þarf að dragast verulega saman. Mjólk verður varla flutt inn, ekki flytja íslendingar inn skyr, gæðakjöt verður alltaf eftirspurn eftir, þó að framleiðsla þurfi án efa að dragast saman. Sömu sögu er að segja af kjúklinga og svínarækt, ég hef ekki trú á að hún leggist af, en skreppur án efa mikið saman.
En Ingibjörg ætlar að halda öllum góðum, lofar neytendum miklum lækkunum, en ætlar jafnframt að lofa bændum öllu fögru. En bændur skilja að það þarf að brjóta egg til að búa til eggjaköku. Ingibjörgu og Samfylkingunni virðist sú staðreynd ekki alveg jafn ljós.
Ef Samfylkingin virkilega meinar það sem hún segir um lækkun matvælaverðs, ekki bara að neytendur eigi að borga "brúsann" á annan hátt, þarf hún að viðurkenna staðreyndir: Hagsmunir neytenda og bænda fara ekki saman í þessu máli, og það er rökrétt að fórna hagsmunum bænda.
En líklega fara margir stuðningsmenn Samfylkingar að óska þess að flokkurinn kynni ekki fleiri stefnumál, fyrst var það umhverfisstefnan og svo þetta. Þeir telja líklega að flokkurinn megi ekki við fleiri "stefnumálum".
Hér er líka tengill á Kastljós dagsins, en þar mætti Ingibjörg Árna Mathiesen og er heldur rólegri orðin en um morgunin.
Ég hef bloggað áður um landbúnað, það má lesa t.d. hér og hér.
Formaður LK gagnrýnir hugmyndir um afnám tolla af innflutt matvæli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Vefurinn, Dægurmál, Bloggar, Fjölmiðlar, Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.