5.11.2007 | 05:04
Af "ofurfrjálslyndi" og bókabrennum
Kunningi minn einn sem gjarna hefur þótt ég vera frekar of langt frá miðjunni í stjórnmálum vakti athygli mína á því sem hann sagði feikna góða "Bakþanka" Guðmundar Steingrímssonar í Fréttablaðinu á föstudaginn. Sagði að ég yrði að lesa þá.
Ég dreif í því að "dánlóda" Fréttblaðinu og lesa "Bakþankana". Ég verð að segja að mér þótti ekki mikið koma til skrifanna. Guðmundur virðist hafa undarlegar skoðanir á því hvað frjálslyndi er, alla vegna frá þeim sjónarhóli sem ég stend á.
Í "Bakþönkunum" mátti lesa meðal annars:
"En flestir eru hins vegar mjög ákveðið á móti bókabrennum, skiljanlega. Hinir ofurfrjálslyndu líka. En spurningin er: Af hverju er það? Jú, þær tengjast ákveðinni viðurstyggð í sögunni. En hér blasir við klemma: Þeir sem hvað harðast mæla með því að það sé fullkomlega í lagi að gefa út bækur eins og Tíu litla negrastráka hljóta að telja það jafnframt hið sjálfsagðasta mál að fólk brenni slíkar bækur ef það svo kýs. Þetta eru í stuttu máli ógöngur hinna ofurfrjálslyndu."
Nú tel ég mig frjálslyndan mann en skammast mín ekkert fyrir að segja að ég er á móti bókabrennum, þykir þær ekki til fyrirmyndar. En ég er sömuleiðis á móti því að banna þær. Það liggur nefnilega himinn og haf á milli þess að vera ósammála einhverju og vilja að sami hluturinn sé bannaður, eða þaggaður niður. Auðvitað eiga allir rétt á því að brenna þær bækur, hljómplötur, geisladiska, myndir eða hvað annað sem þeir vilja brenna. Það er sjálfsagður réttur hvers og eins, svo lengi sem þeir brjóta ekki lög t.d. hvað varðar eignarétt eða hegðun á almannafæri með athæfi sínu. Ég reikna t.d. ekki með að lögreglan væri ginkeypt fyrir því að leyfa bókabálköst á Austurvelli, né heldur að slökkviliðið gæfi því meðmæli.
En frá þeim sjónarhóli sem ég hef tekið mér stöðu á, þykir mér það einmitt vera frjálslyndi þegar menn telja það sjálfsagt að gefnar séu út bækur eins og "10 litlir negrastrákar" eða sú sama bók brennd, það þótt önnur athöfnin eða báðar séu mönnum á móti skapi.
Frjálslyndi felst ekki síst í því að geta unnt öðrum skoðanir, eða athafnir sem eru við sjálf höfum ekki áhuga fyrir, eða erum á móti.
Það er því ekkert athugavert við að vera á móti bókabrennum, svo lengi sem ekki er verið að kalla eftir því að þær séu bannaðar. Það er sjálfsagt að segja sínar skoðanir á athöfnum annarra eða því sem þeir eru að hvetja til.
Þegar ég las þetta rann hins vegar upp fyrir mér hvers vegna mér þykir oft að frjálslyndi þeirra sem gjarna kalla sig "frjálslynda jafnaðarmenn" vera lítið þegar á reynir. Þeir virðast einfaldlega leggja annan skilning í orðið frjálslyndi heldur en ég. Þegar á reynir virðast þeir líta svo á að það sem menn séu ekki samþykkir, það vilji þeir banna. Oft virðast þeir reyndar líka vilja banna allt það sem þeir sjálfir eru ekki samþykkir.
P.S. Það má svo ef til vill bæta hér við að allir þeir sem eru "réttsýnir" og hafa "samfélagslega vitund" hljóta að vera á móti bókabrennum, þeir vita jú að pappír er ekki brenndur heldur er farið með hann í endurvinnsluna.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir | Breytt s.d. kl. 05:05 | Facebook
Athugasemdir
Ég held að ástæðan fyrir því að flest hugsandi fólk er á móti bókabrennum sé sú, að þær eru tákn um skoðanakúgun. Í því ljósi mætti segja, að þau rök Guðmundar Steingrímssonar, að í því felist frjálslyndi að vera ekki andvígur bókabrennum, séu af sama toga og ef sagt væri, að frjálslyndið krefðist umburðarlyndis gagnvart ofsóknum manna á hendur þeim sem hafa andstæðar skoðanir.
Þorsteinn Siglaugsson, 5.11.2007 kl. 09:26
Vangaveltur um hvað sé hin rétta frjálslynda afstaða gagnvart bókabrennum eru jafn hjákátlegar og t.d. rökræður um efnahagslega kosti og ókosti þeirra. Á Bebel-torgi í Berlín þar sem nasistar hófu bókabrennur sínar er lítið minnismerki og hjá því er tilvitnun í Heine (1797-1856): "Dort, wo man Bücher verbrennt, verbrennt man am Ende auch Menschen" (Þar sem bókabrennur hefjast, verður fólk að lokum brennt). Það er því miður kjarni málsins.
Freyr Þórarinsson (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 11:56
Ég sé nú ekki betur en að höfundur þessa bloggs sé efnislega sammála höfundi bakþankans. Sjálfum finnst mér skrýtið að rasískar barnabækur séu gefnar út árið 2007 og því feginn að sá þann gjörning gagnrýndan harkalega í opinberri umræðu undanfarnar vikur. Málfrelsið títtnefnda felur í sér leyfi til að gagnrýna og skiptast á skoðunum og til að benda á að það eru oft útúrsnúningar sem felast í því að hrópa Bann! og Bókabrenna! í staðinn fyrir að ræða efnisatriði málsins: a) Útkomu rasískrar barnabókar árið 2007 og b) að rasísk barnabók toppi metsölulista. Satt að segja er ég hissa á að þessir tveir punktar hafi ekki vakið athygli heimspressunnar.
Og varðandi nasista þá hefðu þeir örugglega ekki brennt Negrastrákana á Bebel torgi heldur stillt henni upp með viðhöfn í bókaverslunum og þar og þá hefði hún örugglega selst og jafnvel toppað metsölulistana eins og hér. Hver veit? Er það hugguleg tilhugsun?
Örn Úlfar Sævarsson (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.