1.11.2007 | 07:38
Óþarfa áhyggjur?
Ég las það nýlega á vef mbl.is, að einhverjir væru farnir að hafa af því áhyggjur að kenninafnasiður Íslendinga ætti undir högg að sækja og ef fram héldi sem horfði þá liði hann undir lok.
Ég er einn af þeim sem þætti það miður ef svo færi, því mér þykir geta góð og gild hefð. En ég vil hins vegar vara við því að Íslendingar fari að grípa til þess ráðs sem þeim virðist einna tamast þessi misserin, það er að segja að setja ný lög eða herða á þeim eldri, til að varðveita þennan góða síð.
Lagasetning í kringumstæðum sem þessum er ekki rétta leiðin.
Það verður að horfast í augu við það, að ef Íslendingum sjálfum er þessi siður ekki kærari en svo að þeir haldi honum ekki við, þá sé eðlilegast að hann verði hægt og rólega úr sögunni. Ef Íslendingar vilja ekki viðhalda siðnum gera engir aðrir það og heldur ekki lagabókstafurinn.
Það hafa enda verið að ég best veit í gildi lög í langan tíma sem takmarka eftirnöfn, en þó fjölgar þeim Íslendingum sífellt sem þau bera og er ekki nema hluti þeirrar skýringar aukning Íslendinga sem eru af erlendu bergi brotnir. Íslensk ættarnöfn eru nefnilega þeirrar náttúru að erfast í flestum tilfellum bæði í kven og karllegg, öfugt sem gerist víðast hvar annarsstaðar.
Það þarf heldur ekki að fara víða um þjóðfélagið til að sjá hve áberandi hin Íslensku ættarnöfn eru.
Það er því lang eðlilegast að fella niður öll takmörk, gefa Íslendingum frjálst val um hvaða sið þeir vija nota, ættarnöfn verði skráð gegn vægu gjaldi hjá Hagstofunni. Síðan kennir hver sig við móður, föður, eða notar sitt ættarnafn, eða skráir nýtt ef hann kann ekki við "fjölskylduættarnafnið".
Jafnvel gætu menn tekið upp Rússneska siðinn og notað hvorutveggja. Jón Guðmundsson Mýrdal svo dæmi væri tekið.
Í leiðinni væri mannanafnanefnd lögð niður og eiginnöfn sömuleiðis gefin frjáls.
Það er reyndar rétt að geta þess að ég er það hrifinn af kenninafnasiðnum, að börnin mín eru Tómasson og Tómasdóttir, þó að þau séu fædd hér í Kanada og ættu eftir þeim síð sem hér er algengastur að vera "Gunnarsson" jafn illa og það myndi hljóma fyrir dóttur mína.
En Kanadamenn eru frjálslyndir í þessum efnum sem ýmsum öðrum. Á eyðublaðinu sem fylla þarf út þegar börnin eru tilkynnt til skráningar, þá er gefin sá möguleiki að barnið beri annað kenninafn en foreldrarnir og er þá merkt með í viðeigandi reit, hvort það er sé af "ethnic" eða "relligous" ástæðum. Flóknara er það ekki.
Það hefur heldur ekki skapað okkur vandræði að við berum fjögur mismunandi kenninöfn hér að Bjórá, pósturinn kemst til skila, enginn fettir fingur út i þetta. Einstaka sinnum veldur þetta þó smá misskilningi, eins og þegar hringt er frá lækni sonarins og spurt hvort að ég sé ekki Mr. Tómasson eða konan Mrs. Tómasson, þar sem drengurinn er auðvitað skráður undir því nafni hjá þeim.
En það er ekkert til þess að láta fara í taugarnar á sér.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:05 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.