Salómon eða hvað?

Ég er ábyggilega ekki einn um að þykja þessi niðurstaða skrýtin.  Það er margt sem vekur athygli þarna.

FIA virðist sannfært um sekt McLaren, sem mér þykir ekki skrýtið, þó með þeim fyrirvara að ég hef vissulega ekki séð gögnin sem dæmt er eftir.

Það er hins vegar nokkuð ljóst í mínum huga að það er ekki hægt að hafa undir tæknigögn eins og hér um ræðir, án þess að þau sé notuð, meðvitað eða ómeðvitað. 

Ef eitthvað frá Ferrari hefur siðan verið að finna í tölvupóstum sem gengið hafa á milli ökumanna McLaren þá segir þetta sig nokkuð sjálft.  Ég hef enga trú á því að FIA hafi krafist þess að fá þó gögn, án þess að hafa nokkuð rökstuddan grun að eitthvað óhreint væri í pokahorninu hjá Mclaren.

Eftir stendur spurningin hver lak þeirri vitneskju til FIA.

Það verður fróðlegt að sjá hvað verður lagt fram á morgun, en ef það er hafið yfir vafa að McLaren hafi notað upplýsingar frá Ferrari, á FIA ekki marga kosti nema að taka hart á málinu.  Persónulega finnst mér afar eðlilegt að taka stigin af liðinu, en set spurningamerki við sektarupphæðina.  Hún er gríðarlega há, en vissulega þarf að sýna að mál sem þetta sé meðhöndlað af fullri hörku.

Það má að sumu leyti teljast merkilegt að ökummen liðsins skuli fá að keppa áfram, rétt eins og ekkert hafi í skorist, á bíl sem samkvæmt þessari niðurstöðu er "illa fenginn".  Þar njóta ökumennirnir þess þó líklega að ef þeir hafa sýnt ýtrustu samvinnu við að afhenda gögnin, þá eigi þeir skilið að fá nokkurs konar sakaruppgjöf, og svo hitt að það hefði verið því sem gríðarlegt högg á íþróttina, ef tveir stigahæstu ökumennirnir hefðu verið dæmdir úr leik.  Þess utan eru þeir líklega 2. af vinsælustu ökumönnunum nú um stundir, ef ekki þeir vinsælustu.

Það má því segja að það sé nauðsynlegt fyrir íþróttina að þeir haldi áfram keppni.  Þetta kann því að vera nokkurs konar "Salómonsdómur", þ.e.a.s. að harkalega er refsað, en reynt að halda tjóninu fyrir íþróttina og aðdáendurna í lágmarki.  Titill ökumanna hefur enda í hugum flestra mun meiri vigt, og er það sem stendur upp úr eftir hvert tímabil.

Enn og aftur ber þó að hafa í huga að ég sem aðrir bíða spenntur eftir rökstuðningnum á morgun.

P.S.  Mér þykir orðalag mbl.is nokkuð sérstakt, þar sem segir í fréttinni:  "Með ákvörðun þessari kemur titill bílsmiða sjálfkrafa Ferrari í hlut."

Ekki hef ég séð þetta nokkurs staðar annars staðar, enda þótt að telja verði Ferrari sigurinn í keppni bílsmiða nokkuð vísan, hefði ég haldið að BMW ætti ennþá "fræðilegan" möguleika í þeirri keppni og því ótímabært að fullyrða um hvernig sú keppni fer.  Auðvitað er það afar ólíklegt, en fræðilega á BMW möguleika á 72 stigum, en munurinn á Ferrari og BMW er 57 stig.

Og auðvitað vinnst enginn titill sjálfkrafa.

 

 


mbl.is McLaren úr leik í ár og sektað um 100 milljónir dollara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sé að fréttinni hefur verið breytt, nú stendur:  "Með ákvörðun þessari er nær öruggt að titill bílsmiða komi í hlut Ferrari."

Það er auðvitað hið besta mál, enda þótt mikið þurfi að ganga á til að titillinn gangi Ferrari úr greipum, borgar sig aldrei að fagna of snemma, né sýta.

G. Tómas Gunnarsson, 14.9.2007 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband