2.9.2006 | 05:51
Viljinn til að sitja í festum
Það hefur oft verið sagt í mín eyru að núverandi ríkisstjórn hafi það gott, hún hafi það auðvelt. Hún sé ekki fullkomin en hún njóti þess að bera af sé borið saman við stjórnarandstöðuna.
Nú finnst mér eins og stjórnarandstaðan stefni að því að gera ríkisstjórninni endurkjör auðveldara. Nú virðist vera að upphefjast sami leikurinn og var leikinn hér fyrir borgarstjórnarkosningarnar, til að vera "alvöru vinstrimaður" verður að heita því að starfa ekki með Sjálfstæðisflokknum, og nú virðist eiga að bæta Framsókn við.
Steingrímur talar um samstöðu og vill "stilla upp" stjórnarandstöðunni gegn ríkisstjórninni, hann og Ingibjörg voru eins og feimið par, í þætti hjá Helga Seljan fyrir nokkru, töluðu í og úr. Þar viðurkenndu Steingrímur og Ingibjörg að óformlegar viðræður hefðu farið fram.
Heldur talaði þó Ingibjörg ólíklegra í fréttatímanum í gærkveldi, þar snupraði hún Steingrím fyrir að hafa ekki tekið þátt í stofnun Samfylkingarinnar á sínum tíma, en bauð þó honum og Guðjóni heim í kaffi. Þar létu þau bæði eins og ekkert hefði gerst á milli flokkanna.
Spurning hvort að skoðanakönnun Fréttablaðsins um hvaða stjórnarmynstur fólki hugnaðist, og birtist í millitíðinni, hafi breytt einhverju í þessu máli?
En ef til vill verður úr að Samfylking og Vinstri grænir sitji "í festum" fram að kosningum, lengra verður það líklega ekki, og enga trú hef ég á að "parið" hljóti blessun kjósenda og geti myndað ríkisstjórn.
Þó verður þetta líklega að teljast ekki óklókur leikur hjá Steingrími, ef Samfylking neitar tilboðinu, þá er það þeirra sök að stjórnarandstaðan er ekki "sameinuð", og það jafnvel þó að hann hafi í raun átt hvað stærstan þátt í því að vinstrimenn eru ekki allir í einum flokki.
En það er mun líklegra að Samfylkingin fari illa út úr slíkum "festum", þeir Samfylkingarmenn sem eru hægra megin í flokknum mun ábyggilega ekki hugnast slíkar yfirlýsingar, og hafa þeir þó ekki verið of kátir fyrir.
En ef til vill verður kaffið gott hjá Ingibjörgu, ef til vill stillir stjórnarandstaðan sér upp sem heild. Ef til vill verður valið aðeins um að að fá halda hér ríkisstjórninni sem er, eða fá ríkisstjórn Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslynda flokksins.
Fyrir mig yrði það auðvelt val.
Eini möguleikinn til að fá verri ríkisstjórn en stjórn stjórnarandstöðunnar, væri að bæta Framsóknarflokknum við í pakkann.
En hér má sjá viðtal sem Helgi Seljan tók við þau Steingrím og Ingibjörgu í Íslandi í dag, 21. síðasta mánaðar, og hér er frétt sem Visir birti á sama tíma. Hér má svo horfa á fréttir ruv, þann 1. september.
Steingrímur: Stjórnarandstaðan stilli sér upp sem valkosti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Sjónvarp, Dægurmál, Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.