Ferðalangar

Þá er fjölskyldan komin aftur heim að Bjórá eftir að hafa þvælst um á Pontíaknum dulítið norður á bóginn.

Það var haldið að Lake Baptiste og gist þar á litlu hóteli, en þangað höfum við farið því sem næst hvert sumar frá því að ég kom hingað til Kanada.  Lítið og þægilegt þriggja herbergja hótel sem stendur við vatnsbakkann, veitingastaður í kjallaranum og ekta "kántri store" í sama húsi.

Síðan var ekið um nágrennið synt í vötnunum og athygliverðir staðir skoðaðir nánar.  Farið í Algonquin þjóðgarðinn sem er þarna í næsta nágrenni og almennt reynt að slappa eins mikið af og mögulegt er þegar tvö lítil börn eru með í ferðinni.

Dýralífið er nokkuð fjölbreytt á þessum slóðum, þó að vissulega sé misjafnt hversu heppnir ferðalangar eru að berja þau augum.  Það er vissulega nokkuð "heimilislegt" að hægja á bílnum til að trufla ekki bangsa þegar hann er að skokka yfir veginn, en að sama skapi nokkuð leiðinlegt að vita að leið hans liggur einmitt þarna um vegna þess að hann er á leið í kvöldmat á ruslahaugana.  En svona er lífið.

Himbrimar synda um á vötnunum og ernir sveima um í í leit að æti, úlfar, dádýr og elgir eru sömuleiðis á stjái, en ekki miklar líkur til að sjá þau, nema með aðstoð sjónauka.

Algonquin Park (pano)

En Algonquin þjóðgarðurinn er risastór  (eitthvað á 8. þúsund ferkílómetra) og sáum við ekki nema pínulítið brot af honum, líklega verður honum gert frekari skil á næstu sumrum.  En þó að um þjóðgarð sé að ræða, er svæðið sömuleiðis nýtt.  Bæði er hægt að fá leyfi til að veiða í vötnunum og svo eru stundað umfangsmikið skógarhögg í garðinum, en bæði lýtur þó ströngum reglum.

Eins og oft í ferðalögum sem þessum fórnaði húsbóndinn sér og dró stöðugt að sér athygli moskítóflugnanna og því komu allir lítt snertir af þessum ófögnuði nema hann, með nokkra tugi misásjálegra sára eftir kvikindin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ferðaþjónustan Úthlíð

Sæll Tómas,

hressandi að lesa bloggið þitt og gaman að sjá hvað þú nýtur lífsins í Kanada. Er ekki Kanada eitthvert dásamlegasta land í heimi? Sýnist það á umfjöllun þinni um landið.
Njóttu lífsins og til hamingju með börnin tvö.

Bestu kveðjur úr suðvestanriginingunni hér á Fróni

Hjördís

Ferðaþjónustan Úthlíð, 21.8.2007 kl. 18:19

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Lífið er alls staðar ljúft. Ekki síður hér en annars staðar.

Ef til vill kem ég til Íslands með ómegðina eitthvert árið.  Þá verður auðvitað að sýna þeim Gullfoss, Geysi, Úthlíð og aðra merkisstaði á landinu.

kveðjur

G. Tómas Gunnarsson, 26.8.2007 kl. 15:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband