Þorrablót um vor, graflax og fleira.

Ég er að fara á þorrablót um næstu helgi.  Þetta hljómar vissulega undarlega en svona er nú hefðin hér í Toronto.  Þorrablót er alltaf haldið seint í mars eða snemma í april.  Reyndar á þessi samkoma lítið sameiginlegt með íslensku þorrablóti, en það er eins og annað, hefðir og venjur breytast og verða mismunandi í mismunandi samfélögum, þó að nafnið haldi sér.

 Mest afgerandi munurinn sem ég hef tekið eftir hér, er það að það sést ekki vín á nokkrum manni og allir fara að drífa sig heim um 10 leytið.  Þætti þunnur þrettándi á Íslandi.

Maturinn er líka allt öðruvísi, ekki verri, ekki betri, en einfaldlega öðruvísi.  Hangikjötið sem kemur frá Winnipeg, á t.d. lítið sameiginlegt með íslenska hangikjötinu, nema að það er reykt.  En lambið er annað, viðurinn sem er brendur er annar og því verður bragðið allt annað.  Einn hlutur er þó sem bragðast mun betur að mínu mati, hér í Vesturheimi, en það er rúllupylsan.  Hér búa menn til rúllupylsu úr frampartinum en ekki slögum, og verður því rúllupylsan með hærra hlutfalli af kjöti og minna af fitu.  Tvímælalaust til hins betra.

En svo er fullt af öðrum mat á "Þorrahlaðborðinu" hér sem ekki sést heima s.s. graflax, sem ég tók að mér að grafa, og gerði það í gærkveldi.  Reyndar þegar ég var að sýsla við þetta í gærkveldi, greip ævintýraþráin mig, þegar ég átti svolítið eftir af kryddblöndunni og ég henti einu ýsuflaki í grafningu um leið.  Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það kemur út.

Svo eru allskyns Kanadískir réttir, eða íslensk-kanadískir, sem gera matseðillinn skemmtilega blandaðan.  Svið eru þó víðsfjarri, sömuleiðis súrmatur og yfirleitt bæði hákarl og brennivín.  En harðfiskur er á boðstólum, flatbrauð er ennþá bakað, reynt er að búa til skyr úr jógúrt eða buttermilk, rófustappa er ómissandi, og pönnukökur og vínarterta hafa fylgt kynslóðunum hér og eru ómissandi sem eftirréttir.  Reyndar hefur vínartertan þróast nokkuð í áranna rás, og er yfirleitt gerð með kremi á toppnum, ekki ósvipað því sem gjarna er haft á gulrótartertur.  Það þykir nauðsynlegt hér, en kemur hreinstefnumönnum í vínartertuáti, eins og mér, spánskt fyrir sjónir.

Þannig er þetta í matargerð sem öðru, framþróun og breytingar vekja alltaf misjafna hrifningu og sýnist sitt hverjum.  Menn taka sumu fagnandi en vilja spyrna við fótum á öðrum stöðum og sanna enn og aftur að misjafn smekkur og skoðanir eru eðlilegasti hlutur og verður alltaf til staðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband