9.7.2007 | 04:32
VSOP meðferð
Eins og ég minntist á í síðustu færslu hefur heilsan verið með hraklegra móti síðustu daga. Reyndar ekki bara hjá mér, heldur hefur Foringinn átt frekar erfitt líka. Heimasætan fékk líka nefrennsli en ekkert alvarlegt þar á ferð.
Þetta þýddi hins vegar að ég var útlægur gerður úr hjónasænginni, sendur niður í kjallara að sofa, enda þótti tvennt unnið með því. Í fyrsta lagi var ég leystur frá þeirri ógæfu að lenda hugsanlega í því að smita frúnna eða heimasætuna sem oft er að finna þar stutt undan og ekki þótti verra að þó fylgdi Foringinn mér í neðra, enda vildi hann gjarna lúlla hjá pabba á þessum erfiðu dögum, þegar hitinn og hálsbólgan kvöldu snáðann.
Undanfarin kvöld hef ég hins vegar brúkað rándýra VSOP meðferð við hálseymslunum og er ekki frá því að hún sé farin að virka, alla vegna er mér léttara um andardrátt og geðið talsvert kátara en verið hefur.
Það er því óhætt að mæla með meðferðinni.
Þó kastar það nokkrum efa á meðferðina að Foringinn er líka allur að braggast, þó að hann hafi ekki notið hennar, en þó treysti ég mér ekki til að hallmæla meðferðinni, enda andlega upplyftingin heldur ekki neitt sem gera má lítið úr.
En það er vonandi að þessum leiðindum fari að ljúka, enda ómögulegt að vera með hálsbólgu og hita í steikjandi sól þegar kvikasilfrið leggur af stað á fjórða tuginn, en lengi skal mannin reyna.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.