27.7.2006 | 03:57
Bloggað að Bjórá
Þá er bloggið farið að berast frá Bjórá. Tæknimaður kom hér í gær og lagði lagnir um allt hús, boraði og hamaðist í eina 5 tíma. Lagði nýjan streng úr staurnum og gerði allt sem ég bað um. Lagði eina 3 nýja símatengla, færði sjónvarpstengilinn, lagði nýjan internettengil og tékkaði á því að þetta virkaði allt saman.
Ég var frekar "impóneraður" með upphafið á þjónustunni og vona að þetta haldi áfram með þessum hætti. Gaukaði að manninum einni "rauðri" og annari "hvítri" bara til að þakka fyrir mig.
Fínn hraði á netinu, og ekki yfir neinu að kvarta, alla vegna ekki enn. Nú þarf ég bara að fara að kaupa mér nýja vél og þá verður allt eins og blómstrið eina í þeim efnum.
Annars er allt bærilegt af okkur að frétta, stór hluti af dótinu er þó enn í kössum, en það lagast vonandi á næstu dögum. Búinn að setja upp hillur og skrúfa þær við vegginn, þannig að engin hætta sé að foringinn velti þeim um koll. Næsta skref verður líklega að setja ljós þar sem vantar, á stofuna og ganginn, þá fer þetta að líta þokkalega út.
Fengum nýja dýnu senda heim fyrir nokkrum dögum, hún er engu lík sem ég hef sofið á áður, hreint einstök, gæðavara frá Stearns & Foster, get svo sannarlega mælt með þessari, dýr en vel þess virði.
Svo þurfti auðvitað að kaupa sláttuvél, sænsk gæðaframleiðsla frá Flymo varð fyrir valinu. Handknúin sláttuvél er rétta græjan fyrir mig, gott að reyna örlítið á sig stöku sinnum. Merkilegt nokk fann ég ekkert um græjuna á heimasíðu Flymo, þar er eingöngu fjallað um vélknúnar græjur.
Keyptum líka nýtt pottasett, með "einstakri húð" sem ekkert brennur við á, blanda af keramiki og titanium segja framleiðendurnir, en það virkar, er virkileg "non stick".
Svona hlaða svona flutningar utan á sig, sérstaklega þegar flutt er í stærra húsnæði.
Svo þurfi ég að fara til tannlæknisins í dag. Eftir strangan yfirlestur um notkun tannþráðs var krónunni sem ég var búinn að bíða nokkuð eftir smellt í kjaftinn á mér og lítur bara ljómandi út.
Vegna anna bloggaði ég ekkert um frábæran sigur "Skósmiðsins" á Magny Cours, þetta er allt á réttri leið. Svo bíð ég auðvitað spenntur eftir að fylgjast með kappakstrinum á Hochenheim. Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif það hefur að fjöðrunarbúnaður sá sem Renault og Ferrari hafa þróað (Renault var á undan) hefur verið bannaður. Flestir virðast þeirrar skoðunar að það hafi meiri áhrif á Michelin dekkin.
Það er nokkuð ljóst að ef Schumacher nær að sigra á heimavelli, opnast mótið enn frekar.
Vissuð þið annars að Michael Schumacher var fyrsti þjóðverjinn til að vinna þýska kappaksturinn, það gerði hann árið 1995, þá fyrir Benetton, með Renault vél ef ég man rétt. Númer 2, var svo bróðir hans, Ralf árið 2001, akandi Williams.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkar: Tölvur og tækni, Íþróttir, Bloggar, Viðskipti | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.