25.2.2022 | 22:23
Selja ekki Rússneskar vörur
Það er ekki margt sem almennir borgarar geta gert andspænis yfirgangi, innrás og morðum Rússa í Ukraínu.
Líklega er eitt af því fáa sem þeir geta gert er að kaupa ekki Rússneskar vörur og verslanir geta hætt að selja þær.
Þegar er komin af stað all nokkur hreyfing í þessa veru hér og þar um lönd.
Þannig hafa margar af stærstu verslunarkeðjum Eystrasaltslandanna tekið allar rússneskar vörur úr sölu.
Áfengisala Ontarioríkis, LCBO (sem er stærsti einstaki áfengiskaupandi heims) var skipað af fylkisstjórninni í Ontario að fjarlægja alla drykki af Rússneskum uppruna úr hillum verslana sinna.
Það sama hafa áfengisölur Nýfundnalands og Labrador, Manitoba og Nova Scotia gert.
Víðast um heiminn eru líklega ekki margar rússneskar vörur á boðstólum, enda Rússar ekki þekktir fyrir vandaðar neytendavörur, ja, nema vodka og kavíar.
Skriðdreki valtaði yfir bíl á ferð í Kænugarði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Svona "vodkastríð" hefur auðvitað ekkert að segja. Úkraínu verður ekki bjargað úr þessu. Bara tímaspursmál hvenær hún gefst upp og lofar að ganga ekki í Nató.
Það sem þarf að gera gæti gagnast væri að beina spjótunum að ólígörkunum sem fjármagna Pútín, flestallar eigur þeirra (sem eru á við eigur rússneska ríkisins) eru í bönkum og fasteignum á Vesturlöndum og því hægt að gera þetta upptækt.
En þetta verður ekki gert. Hvers vegna ekki?
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 07:47
PS: ég geri ráð fyrir að þú svarir því til að þetta sé Evrópusambandinu að kenna!
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 08:18
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Vodkastríð hefur ekki mikið að segja, en sniðganga er líklega eitt af því fáa sem almenningur getur gert og í sjálfu sér skiptir allt máli. Að neita að keppa við Rússnesk lið, eða að taka þátt í mótum í Rússlandi vinnur engin stríð, en lætur í ljós vanþóknun og er skilaboð til Rússnesks almennings.
Án þess að vera sérfræðingur í alþjóðalögum, þá held ég að það sé ekki hægt að gera upptækar eigur einstaklinga sem ekkert hafa gert af sér. Eða viljum við "yfirgefa réttaríkið"?
Einhverjum frystingum hefur þó verið beitt, en almennt hefur það ekki mikil áhrif, enda flestir þessara einstaklinga klókari en svo að fé þeirra liggi á "glámbekk".
Persónulega lít ég svo á að sýn manna þurfi að vera all nokkuð brengluð ef sökinni af þessu stríði er varpað á nokkurn annan en Rússland. Þeir ákváðu að fara í stríð, sökin er þeirra.
Hitt er svo hvort að ástæður þess að þeir telji sig geta það og komast upp með það liggi hér og þar er önnur saga.
Á meðan þessar línur eru skrifaðar og Putin er að murka lífið úr Ukraínskum almenningi halda margar "Sambandsþjóðirnar" með Þýskaland í fararbroddi áfram að senda fúlgur fjár til Rússlands.
Það er meðvituð ákvörðun, og stundum er eins og ríkin hafi markvisst unnið að því að gera sig háð Rússum.
Sum lönd gætu lent í því hræðilega hlutskipti að geta ekki selt lúxusvarning til Rússlands, það er margt mannana bölið.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2022/02/25/vilja_leyfa_utflutning_luxusvara_til_russlands/
En megin málið er auðvitað að Ukraínu á að vera frjálst að sækja um aðild að "Sambandinu", gera við það samninga o.s.frv.
Það er engin, né hefur verið, ástæða fyrir "Sambandið" að neita að ræða slíkt.
Sama gildir um NATO.
Hvort að vilji sé til þess að samþykkja Ukraínu inn í slíkt samstarf er annar handleggur.
G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2022 kl. 13:37
Ef ég skil þig rétt er það vegna ráðstafana tiltekinna Evrópuríkja sem Rússar hafa talið sig komast upp með að ráðst á Úkraínu.
Jahérna.
Ég held að það sé enginn vafi að þú ert kaþólskari en páfinn í andúð þinni (að ég ekki segi hatri) á ESB. Sennilega alveg tilgangslaust að ræða það frekar.
En ég held að það sé ekki misráðið að beina þvingunum að einstaklingum sem eru sterkefnaðir því að það eru þeir sem fjármagna ríkisstjórn Pútíns. Enda eru þetta menn sem fór með rússneska þjóðarauðinn í skattaskjól í eigin nafni.
Nú mega þeir ekki koma í innkaupaferðir í Harrods, geta ekki sent börnin sín í breska einkaskóla og kannski ekki svissneska hótelskóla? Þetta mun svíða, svo undarlega sem það kann að hljóma. Þetta fólk er gjörsamlega veruleikafirrt.
Svo ber á að líta að það voru ekki "Rússar" sem réðust á Úkraínu - það var ríkisstjórn Pútíns. Á sama hátt eru það ekki "Þjóðverjar" og "Ítalir" sem vilja halda áfram að geta selt Rússum lúxusvarning heldur er um að ræða einkafyrirtæki á borð við Prada og Hermes og hvað þetta nú heitir alltsaman.
Við skulum sjá hvort tekst að fá Rússa útilokaða úr Swift - meiraðsegja fasistastjórnin í Kanada er fylgjandi því!
En hver ætti annars að banna löggjafanum í USA, Brelandi, Frakklandi og víðar að gera "eigur" rússneskar ólígarka upptækar? Er eignarrétturinn virkilega svo heilagur að ekki megi brjóta hann til að koma Úkraínu til varna? Fyrir utan að í flestum tilvikum er ekki um að ræða eiginlega eign heldur þýfi.
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 15:07
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég veit ekki hvort að þú sérst að misskilja mig eða ekki.
En ég tel afar líklegt að það hvað mörg ríki Evrópu hafa gert sig háðan orku frá Rússlandi. Það hefur meira að segja heldur bætt í síðan Putin tók Krímskaga árið 2014.
Þær frystingar og takmarkanir sem hafa verið í gildi síðan 2014, hafa ekki haft mikil áhrif. Það þýðir ekki að það er sjálfsagt að beita þeim.
Hvorki Prada né Hermes eru aðilar að "Sambandinu", það eru hins vegar Ítölsk yfirvöld sem er að tala um undanþágur fyrir lúxusvörur, jafn skringilega og það hljómar.
En það hafa einmitt ekki hvað síst verið Italía og Þýskaland sem hafa staðið gegn harðari aðgerðum gegn Rússum.
Þýskaland neitaði Bretum um að fara um Þýska lofthelgi með hergögn til Ukraínu.
Það er að sjálfsögðu hægt að setja lög um því sem næst hvað sem er. En í sjálfu sér er engin þjóð í stríði við Rússland nema Ukraína. Allar aðrar þjóðir hafa sneitt hjá átökum.
En spurningin er líklega ekki síst sú hvort að rétt sé að gera það einfaldlega ólöglegt að vera "ríkur Rússi", eða þarf að færa einhverjar sönnur á að viðkomandi hafi gert eitthvað af sér?
Hitt er svo að líklega hafa flestir þessara einstaklinga hafa líklega lítið fé innan lögsögu Vesturveldanna.
Hvaða ríki eru helst á móti því að "Swifta" Rússland?
G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2022 kl. 16:03
Einhver þýskur ráðherra sagði að þeir þyrftu að reikna út hvað það myndi kosta þá að samþykkja þetta svift. En það eru ríki þar sem fyrirtæki myndu þurfa að afskrifa gífurlegar skuldir.
Vissulega eru ekki Prada og Hermes aðilar að ESB, en það er vegna þrýstings frá þessum fyrirætkjum - stjórnendum þeirra - sem stjórnvöld biðja um svona hlægilegar undanþágur. Stjórnvöld viðkomandi ríkja eiga ekki frumkvæðið að þessum beiðnum.
En þetta segir kannski líka smá part af sögunni um hvað þetta alltsaman snýst.
Mér finnst satt að segja dálítið furðulegt þegar blak er borið af rússneskum ólígörkum - hefur einhvern grun um að þessir menn séu heiðarlegir bisnissmenn? Eða er bara svona mikilvægt að þeir eins og aðrir séu ekki dæmdir sekir fyrr en sektin er sönnuð? Eða er svona mikilvægt að skuldinni sé ekki skellt á einstaklinga heldur bara ríkisstjórnir (sem eru náttúrulega alvondar af því að þær eru ríkisstjórnir)?
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 16:15
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég held að andúð mín á "Sambandinu" finnist ekki víða nema í huga þínum, ég skora á þig að benda á það hér í þessari færslu, andúð mína (svo ég segi ekki hatur) á "Sambandinu".
Vissulega er beiðni stjórnvalda á Italíu komin fram vegna þrýstings frá "lúxusfyrirtækjum", en stjórnvöld (og einstaklingar í þeim) ráða hvaða beiðnir þeir setja fram og hvort þeir hlusti á viðkomandi fyrirtæki.
Ég er ekkert að bera blak af "ólígörkum", ég er hins vegar alltaf þeirra skoðunar að skýrar lagaheimildir þurfi að vera til staðar þegar valdbeiting á sér stað.
Ég trúi á réttarríkið.
Ég vil að einstaklingum sé ekki refsað án dóms og laga.
Eiga ekki allir rétt á því að teljast saklausir þangað til sekt þeirra er sönnuð?
Hvað telur þú "ólígarkana" seka um hvað varðar stríðið í Ukraínu og hvaða lagaheimildum viltu beita gegn þeim?
G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2022 kl. 16:39
En telurðu þá að það sé misráðið að beina þvingunaraðgerðum gegn einstaklingum eins og núna er gert, þ.e. gegn rússneskum auðmönnum? Bretar hafa t.d. bannað rússneskar einkaþotur í sinni lofthelgi. Finnst þér þetta vera ósanngirni, eða jafnvel lögbrot?
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 16:54
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Nei, ég held að það bann Breta byggi á skýrum lagaheimildum.
Engin Rússnesk einkaþota getur farið um Breska lofthelgi, en það þýðir ekki að Rússneskur "olígarki" geti ekki farið um Breska lofthelgi t.d. í Þýskri eða Belgískri einkaþotu (eða frá hvaða öðru landi sem er).
Yfirráð ríkja yfir lofthelgi sinni eru skýr. Íslensk loftför mega ekki fara um Rússneska lofthelgi án sérstaks leyfis og hátt gjald sem Rússar krefjast fyrir yfirflug hefur gert slíkt flug næsta ómögulegt.
Að beita bönnum gegn einstaklingum getur alveg átt rétt á sér ef þeir eru taldir vera "lykilmenn" í stjórnkerfi, eða lykilfyrirtækjum tengdum viðkomandi stjórnvöldum.
En þetta er bitlítið vopn, þú segir ef til vill frá hverju þú telur slík bönn hafa skilað frá 2014?
G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2022 kl. 17:16
Mér finnst eins og þú sért að segja að rússneskir ólígarkar verði að fá að njóta vafans.
Þú fyrirgefur, en mér finnst skipta meira máli að úkraínskur almenningur fái að njóta vafans. Mér er eiginlega sléttsama um "réttindi" rússneskra ólígarka.
Eins og ég nefndi áðan, en þér virðist hafa yfirsést, þá talaði ég um að það væri vel hægt fyrir löggjafa á Vesturlöndum að setja lög sem henta. Lagasetningar eru ekki náttúrulögmál, meira að segja réttarríkið, sem er þér svo heilagt, er mannanna verk og ekki komið frá Guði.
Ætlum við semsagt að sitja hér og skýla okkur á bak við helgi réttarríkisins til þess að Pútín blessaður geti murkað lífið úr Úkraínumönnum?
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 17:26
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Vissulega er hægt að setja lög og lög á lög ofan. Ekkert að því.
En það hafa verið bönn í gangi gegn Rússneskum einstakingum síðan 2014, það er í góðu lagi að halda þeim áfram og jafnvel setja ný lög til að herða á.
En hverju hafa þessi bönn skilað? Þú skautar alveg fram hjá því að svara því?
Sjálfsagt eiga þessir einstaklingar eitthvað fé sem næðist í, en ég reikna með því að megnið af því sé "utan lögsögu".
En þegar refsiaðgerðir eru með þeim hætti að Ítalía (og jafnvel Frakkland) vilja halda áfram að selja lúxusvöru, Belgía vill halda áfram demantaviðskiptum, Bretar vilja að Rússar haldi áfram að fjárfesta í lúxusíbúðum, Þýskalandi finnst fráleitt að banna að selja Benz og BMW til Rússlands og Kýpur hefur engan áhuga á því að banna fjármagnsflutning frá Rússlandi eða ferðalög millistéttarinnar. Önnur ríki bæta svo sjáfsagt við listann.
Flest ríki vilja svo halda áfram að kaupa gas og olíu frá Rússlandi.
Mörg ríki "Sambandsins" þar með talið Þýskaland eru líklega háðari gasi frá Rússlandi, nú en þau voru 2014.
Mörg ríkjanna innan "Sambandsins" hafa einnig svo gott sem með skipulegum hætti veikt heri sína þannig að þeir eru varla til staðar.
Þýski herinn þurfti að sætta sig við að æfa með kústsköftum og Belgíski herinn er oft talinn best vopnaði eftirlaunasjóður í heimi.
Sjálfsagt telur þú þessa upptalningu gott dæmi um andúð mína (ef ekki hatur) á "Sambandinu", en svo er ekki, hér eru einfaldlega staðreyndir.
Almennt séð hefur "frysting" verið það sem hefur verið notað gegn fjármunum einstaklinga og ríkja sem önnur ríki hafa viljað beita sér gegn, upptaka er annað mál og ég þekki ekki til hvort heimildir séu til staðar fyrir slíkt án þess að brot séu sönnuð.
En fyrir hvaða brot á að gera eignir "olígarka" upptækar?
Hitt er svo eins og ég hef áður sagt, reikna ég ekki með að mikið sé innan lögsögu af fé. En vissulega má líklega finna eignir, s.s. Chelsea.
G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2022 kl. 18:24
Þú átt við að þetta sé hvort sem er allt tilgangslaust og einfaldast að leyfa bara Pútín að halda áfram?
Þú fyrirgefur að ég skyldi ekki svara "spurningunni" um 2014, ég taldi hana bara retoríska af því að það hefur margoft verið sagt að þær aðgerðir hafi litlu skilað og megi helst vera til marks um hvað dugi ekki að gera. Áttu við að það sé augljóslega ekki hægt að gera núna neitt annað en það sama og þá?
Svo sé ég ekki alveg hvað tal þitt um evrópska heri kemur þessu öllu saman við. Það hefur líka margoft komið fram að ekki standi til að nota þá. Áttu við að það eina sem dugi sé að Vesturlönd geri árás á Rússland?
Upptalning þín á öllu því sem Evrópuríki vilji halda áfram að selja Rússum, hefurðu tryggar heimildir fyrir því að þetta sé svona og alltsaman óbreytanlegt?
Það hvernig þú leggur þig fram um að útlista meint ólögmæti og tilgangsleysi allra þvingunaraðgerða finnst mér benda til að þú hafir frekar litla samúð með Úkraínumönnum.
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 18:36
PS: Eða ertu kannski bara að taka Brynjar Níelsson á þetta: henda inn vafa og tékka á viðbrögðunum?
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 18:43
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þú ert að lesa eitthvað vitlaust í það sem ég skrifa, eða ég kem því ekki almennilega frá mér.
Ef að refsiaðgerðirnar síðan 2014 hafa littlu eða engu skilað, er þá vænlegt til árangurs að halda áfram að gera það nákvæmlega sama? Þarf ekki að bæta í?
Evrópskir herir skipta máli, þ.e.a.s. þeir sem eru raunverulega til. Það skiptir máli að bæði Frakkar og Bretar hafa til dæmis sent hermenn til landa s.s. Eistlands.
Þýskaland leyfði loks í dag að Eistlendingar mættu senda vopn (sem þeir hafa keypt frá Þýskalandi) til Ukraínu. Áður höfðu þeir lagt bann við því.
Ég held að ekkert ríki hafi áhuga á því að ráðast á Rússland, en því miður verður að vera til sannfærandi "ógn" í þá veru að hægt sé að verja ríki ef Rússland heldur áfram innrásum í nágrannaríki sín.
Her sem æfir með kústsköftum "segir" Putin að hann þurfi lítið að óttast.
Ef að ríki lýsa því yfir að ekki standi til að berjast með Ukraínu og ríki eins og Þýskaland bannar vopnasendingar þangað, er þá ekki verið að "segja" Putin að honum sé óhætt að "fara inn"?
Upptalning mín á vörum, byggir á því sem verið hefur. Vonandi verður breyting þar á, en ég er ekki bjartsýnn á að svo verði.
Hefur eitthvert ríki lýst yfir vilja til að hætta að kaupa gas frá Rússlandi?
En auðvitað er ekkert óbreytanlegt, og vonandi verður svo, en ert þú fullur bjartsýni þess efnis?
Litháen hefur verið að byggja aðstöðu fyrir LNG flutninga en flest ríki Evrópu hafa látið sér í léttu rúmi liggja að verða æ háðari Rússum, einnig eftir innlimun Krím.
https://www.dw.com/en/germanys-former-chancellor-gerhard-schr%C3%B6der-to-join-gazprom-board/a-60664273
Fyrrverandi leiðtogi Þýskra krata lætur ekki að sér hæða.
Sjálfsagt er viðkvæmt fyrir Þjóðverja að senda vopn sem yrðu notuð gegn Rússlandi, slík er sagan. En þeir ættu ekki að gleyma framferði sínu í Ukraínu heldur.
G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2022 kl. 19:04
Eina hernaðarógnin sem Pútín kynni að óttast er til, þ.e. Bandaríkjaher. Þannig að evrópskir herir skipta engu máli, hvort heldur þeir nota kústsköft eða riffla.
Það þarf að bæta í þvingunaraðgerðir, það er einmitt það sem ég hef verið að segja í þessum langa þræði hérna. En þú virðist sjá alla meinbugi á slíkum möguleikum. Bæði séu þeir tilgangslausir og ólöglegir, og svo eru Evrópusambandsríki viljandi að draga lappirnar og þar með taum Rússa.
Fyrst ég er óhóflega bjartsýnn - en þú þá væntanlega raunsær, hvað (ef eitthvað) telurðu að rétt væri að gera til að veita Úkraínumönnum stuðning? Kannski bara ráðleggja þeim að gefast upp til að lágmarka manntjón?
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 19:50
PS: Hvað kemur fyrrverandi Þýskalandskanslari málinu við nema sem dæmi um hvað evrópskir stjórnmaálmenn eru nú ómerkilegir? Eigum við að dæma þá alla út frá honum einum? Eða til hvers ertu að nefna dæmið um hann?
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 19:52
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Herir t.d. Breta og Frakka eru ágætlega sterkir. Ef Evrópulönd (og þá sérstaklega "Sambandslönd") hefðu almennt góða heri og víðbúnað, væru þau sameiginlega fyllilega þess máttug að standast Rússlandi snúning. Líttu bara á mótspyrnuna sem Ukraína þó veitir.
En það hefði t.d. líklega verið betra ef vopnin sem Þýskland er að senda nú (og leyfir að önnur lönd sendi) hefðu verið komin til Ukraínu áður en til árásar kom.
Ég hef ekki talað gegn þvingunaraðgerðum á þessum þræði, heldur verið að segja að þær sem beinast gegn t.d. "olígörkum" hafi ákaflega littla virkni, og að sama skapi talað fyrir því að þær byggðu á lögum.
Það er til dæmis munur á að frysta eignir og gera þær upptækar.
Nú eru æ fleiri Evrópuríki að útiloka Rússa frá lofthelgi sinni og er það vel. En það er líka vert að gefa gaum að þeim ríkjum sem hafa ekki gert það.
Það er erfitt að gefa Ukraínumönnum ráð við þessar kringumstæður. Það er ekki eins og ég hafi heildarsýn yfir gang mála þar.
Heilt yfir myndi ég þó líklega hvetja þá til að berjast, á meðan þeir telja sig hafa þokkalega getu (og vopn) til þess.
Þess vegna skipta vopnasendingar til þeirra miklu máli.
En það kemur líklega að því að þeir geta ekki meir.
Fyrrverandi Þýskalandskanslari er holdgervingur þess hvernig mörg Evrópuríki og þá ekki síst Þýskaland hafa orðið háð Rússneskri orku(þá sérstaklega gasi).
Stundum mætti halda að Merkel hafi sömuleiðis stefnt markvisst í þá sömu átt.
Það er t.d. eftirtektarvert hvað Frakkar standa mikið betur í orku- og hermálum en Þýskaland, þó að Þýskaland standi þeim framar á öðrum sviðum.
Það voru ekki mín orð að þú væri óhóflega bjartsýn, heldur spurði ég þig hvort að þú værir bjartsýnn um að Evrópuríki væru viljug til að hætta að kaupa gas af Rússum?
G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2022 kl. 20:25
Sæll Tómas,
"Það er ekki margt sem almennir borgarar geta gert andspænis yfirgangi, innrás og morðum Rússa í Úkraínu."
Þú getur örugglega keypt þér svona neo- nasistamerki til styðja þannig Úkraínu, ekki satt?
Því að það er og hefur verið í góðu lagi hjá Bandaríkjunum og NATO að styðja neo-nasista hersveitir í Úkraínu, ekki satt? Þessar hreinsanir á þeirra vegum hafa kosta yfir 14000 rússnesku ættað fólk lífið þarna í austurhluta Úkraínu. En í öllum þessum ritstýrðu fjölmiðlum, þá má alls ekki minnast á þetta rússnesku ættaða fólk í fjölmiðlum, því að allt þetta rússnesku ættaða fólk (eða rússnesku talandi), þarf alltaf að kalla sérstaklega "aðskilnaðarsinna" eða "hryðjuverkamenn" í öllu fjölmiðlum hér, því að það má alls ekki minnast á rétt þeirra rússneskumælandi í þessu sambandi.
KV.
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 26.2.2022 kl. 20:48
Ég kemst ekki hjá því að draga þá ályktun af því sem þú hefur sagt að þér sýnist það vera Evrópusambandinu (sérstaklega Þjóðverjum) að kenna hvernig komið er fyrir Úkraínu. Ástæður þess að Rússar hafi talið sig geta gert innrás og geta komist upp með það liggi ekki síst í því hvernig Evrópusambandið (sérstaklega Þjóðverjar) hafi viljandi orðið háðir Rússum.
Þar með ertu að bera blak af Pútín. Með öðrum orðum, ofstæki þitt gegn Evrópusambandinu hefur gert að verkum að þú ert alveg óvart farinn að bera blak af Rússum. Hlýtur að vera einhverskonar met í íróníu.
Kristján G. Arngrímsson, 26.2.2022 kl. 20:50
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég skrifaði hér að ofan: "Persónulega lít ég svo á að sýn manna þurfi að vera all nokkuð brengluð ef sökinni af þessu stríði er varpað á nokkurn annan en Rússland. Þeir ákváðu að fara í stríð, sökin er þeirra."
Ef ég segði að ég teldi að linkind Chamberlain hefði verið ein af ástæðum þess að Hitler og Þýskaland taldi sig geta komist upp með það að ráðast á Pólland, er ég þó að bera blak af Hitler og Þýskalandi?
Ég er alls ekki að bera blak af Putin, en undanlátssemi er líklega ekki vænleg til árangurs gegn honum.
Mér finnst illskiljanlegt hvernig mörg ríki hafa hagað sér gagnvart honum og Rússlandi eftir að hann hertók Krím og í raun héruð í austurhluta Ukraínu.
Fyrir 2014 er eitt, en eftir annað.
Meint ofstæki mitt gegn "Sambandinu" er hvergi til nema í höfðinu á þér, en það er reyndar býsna algengt að telja að ef bent sé á það sem þyki athugavert, að það sé talið "ofstæki", eða þaðan af verra. Reyndar þykir mér margir "Sambandssinnar" sérstaklega hörundsárir hvað þetta varðar. Ef til vill er það vegna þess að undanfarinn áratugur eða svo, hefur verið "Sambandinu" erfiður og ýmislegt farið úrskeiðis og ekkert gengur að sannfæra Íslendinga um að ganga þar inn.
G. Tómas Gunnarsson, 26.2.2022 kl. 22:09
Eina leiðin til að takast á við Pútín er með hernaðaraðgerðum. Ástæðan fyrir því hvernig komið er (og það eru margar ástæður) skiptir ekki máli núna. Annað hvort standa vestræn ríki saman og verja Úkraínu, eða ekki. "Það er mjög einfalt. Annars gæti að orðið hættulegt."
Þorsteinn Siglaugsson, 26.2.2022 kl. 23:55
Það er nokkuð langt seilst að kenna stjórnvöld í Úkraínu við nasisma, Þorsteinn, með forsetann gyðingatrúar.
En auðvitað falla sumir fyrir áróðri Pútíns, rétt eins og margir féllu fyrir áróðri Göbbels.
Gunnar Heiðarsson, 27.2.2022 kl. 00:11
Athugasemd mín átti auðvitað að vera svar við athugasemd Þorsteins Sch, ekki Þorsteins Sigurlaugssonar, svo það fari nú ekki á milli mála.
Gunnar Heiðarsson, 27.2.2022 kl. 00:12
Tek undir með Þorsteini Siglaugs, þó það sé auðvelt að segja fyrir mig, sem þarf ekki að fara út á vígvöllinn og hætta lífi mínu. Sé ekki að uppivöðsluseggurinn verði stöðvaður með kaffi-og-kleinu-ráðstefnum.
Hvað finnst mönnum um hrokann í yfirlýsingum Pútíns? Setja það sem skilyrði að Úkraínu verði bannað að ganga í Nató, vilji ríkið þangað inn? Hvað fyndist Reykvíkingum um það, ef ungum íþróttaiðkendum yrði bannað að ganga í KR og mættu bara gerast félagar í Val?
Auk þess mun hrokagikkurinn ekki hætta, takist honum að gleypa Úkraínu. Eystrasaltslöndin eru næst, hef séð einhverja nefna að hann muni reyna að taka Gotland, þá nánast kominn inn í garð hjá mér.
Þetta eru staðreyndir málsins. Þúsund ljósmyndasýningar Þorsteins Sch. frá Dark Web, breyta þeim ekki.
Theódór Norðkvist, 27.2.2022 kl. 04:44
Sérfræðingar telja að vísu ólíklegt að Putin muni seilast eftir Gotlandi, þrátt fyrir þetta viðtal við hann árið 2014, þar sem hann lýsir yfir miklum áhuga á eyjunni, af ástæðum sem eru allt annað en hernaðarlegs eðlis.
Putin vill ha Gotland
Theódór Norðkvist, 27.2.2022 kl. 04:59
Sæll Theódór Norðkvist,
Þetta eru ekki myndir frá þessum USA- dark web þínum, heldur myndir frá Úkraínu, sem reyndar allir neo- nazistar eru mjög ánægðir með og nota líka, þú? Ég hélt að þú værir á móti þessum neo-nazisma í Úkraínu, en þú ert greinilega í liði með NATO og á því að NATO haldi áfram að vopna þetta lið, nú eins og aðrir verður að fá fleiri svona myndir af neo- nasistum, ekki satt?
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 27.2.2022 kl. 06:34
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 27.2.2022 kl. 06:48
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 27.2.2022 kl. 06:56
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 27.2.2022 kl. 07:43
Hæ litli!
Theódór Norðkvist, 27.2.2022 kl. 09:31
Þorsteinn Sch Thorsteinsson (IP-tala skráð) 27.2.2022 kl. 14:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.