30.7.2021 | 15:01
Vinstri græn og samstarfið
All nokkuð hefur verið skrifað um mikið óþol stuðningsmanna VG við samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Í sjálfu sér er ekki erfitt að skilja að það er ef til vill ekki það sem stuðningsmenn flokksins kysu helst.
En ef gengið er út frá því að óraunhæft sé að VG nái hreinum meirihluta, með hvaða flokkum skyldu stuðningfólkið helst vilja samstarf?
Vissulega kvarnaðist úr þingflokknum þegar leið á kjörtímabilið, enda var ekki sátt um ríkisstjórnarsamstarfið frá upphafi.
Augljóslega hefur VG eitthvað þurft að gefa eftir, eins og ég held að flestir geti tekið undir að hinir flokkarnir hafa þurft að sætta sig við málamiðlanir sömuleiðis.
Það er vert að gefa því gaum að Vinstri græn hafa aðeins tekið þátt í stjórnarsamstarfi í tvígang.
Það er nú með Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki og svo áður með Samfylkingunni.
Hvernig skyldi stuðningsfólk VG leggja mat á þessar tvær ríkisstjórnir sem flokkurinn hefur starfað í?
Hvað "hurfu" margir þingmenn flokksins á braut í hvoru tilfellinu um sig?
Hvað missti VG stóran hluta fylgis síns eftir samstarfið við Samfylkingu? Er hætta á að það fylgistap verði "toppað" nú?
Hvað þurftu Vinstri græn að gefa eftir í því stjórnarsamtarfi? Var það alltaf ætlun flokksins að sækja um aðild að Evrópusambandinu?
Svona má lengi ræða hlutina, en það voru vissulega skiptar skoðanir um samstarfið við Samfylkinguna ef ég man rétt.
Það er enda ekkert óeðlilegt að allir þurfi að gefa sitthvað eftir í ríkisstjórnarsamstarfi. Ég held að það hafi Vinstri græn ekki gert í meira mæli en hinir samstarfsflokkarnir í núverandi ríkisstjórn og enn síður sé miðað við styrkleika.
En pólítík er list hins mögulega og flokkar reyna að sneiða hjá "ómöguleikanum".
Ríkisstjórnarsamstarf hlýtur alla jafna að taka mið af því sem er gerlegt og því sem er í boði.
P.S. Til að forða öllum misskilngi er rétt að taka fram að ég er ekki og mun líklega aldrei verða stuðningsmaður VG.
En finnst einfaldlega fróðlegt að fylgjast með umræðum um þann flokk eins og aðra flokka.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Saga, Dægurmál | Facebook
Athugasemdir
Hvað nákvæmleg hefur Sjálfstæðisflokkurinn þurft að gefa eftir í þessu stjórnarsamstarfi? Ég held að marga kjósendur VG langi til að fá að vita það. Nú eða Framsóknarflokkurinn, ef því er að skipta?
Kristján G. Arngrímsson, 30.7.2021 kl. 20:29
Líklegast er kjósendum Sjálfstæðisflokksins líka spurn hvað VG hefur þurft að gefa eftir.
Líkast til er hægt að sjá þetta dálítið út frá ráðuneytum, stefna viðkomandi flokka hefur verið nokkuð áberandi í þeim ráðuneytum sem þeir hafa.
ls (IP-tala skráð) 30.7.2021 kl. 22:51
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins virðast vera mjög sáttir við stjórnarsamstarfið og vilja það áfram, þannig að líklega hafa þeir yfir litlu að kvarta.
Kristján G. Arngrímsson, 30.7.2021 kl. 23:58
@Kristján og ls, þakka ykkur fyrir þetta. Ég vil nú byrja á því að taka það fram að ég hef í sjálfu sér ekki lagst í neina rannsóknarvinnu þessu tengdu.
Persónulega tel ég líklegt að vegna "kófsins" hafi þessari ríkisstjórn orðið minna úr verki en ella hefði orðið, það enda ekki óeðlilegt.
Jafnframt hefur það líklega haft í för með sér minni "núansa" en ella hefðu getað orðið.
En það þýðir ekki að margt hefði orðið öðruvísi ef einhver þessara flokka hefðu haft hreinan meirihluta á Alþingi.
Sjálfstæðisflokkurinn hefði án efa höndlað heilbrigðismálin (önnur en "kófið") öðruvísi og ekki "keyrt á ríkisvæðingu þess. Þeir hafa enda fengið á sig nokkuð harða gagnrýni fyrir að lát slíkt henda "á þeirra vakt" frá t.d. Viðreisn á Alþingi.
Ég reikna sömuleiðis með að málefni RUV/frjálsra fjölmiðla hefðu verið höndluð öðruvísi, og hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið á sig gagnrýni fyrir það, innan flokks sem utan.
Ég reikna líka með að frumvarp um breytta tilhögun á sölu áfengis hefði fengið öðruvísi meðferð í ríkisstjórn og jafnvel farið í gegn á Alþingi.
Þetta er nú bara sisona "on top of my head", án þess að kryfja málin til hlýtar.
Ég reikna með því að stuðningsmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks séu ánægðari með ríkisstjórnina en stuðningsmenn VG, ekki síst vegna þess að þeir séu almennt "pólítískt raunsærri", vanari því að þeirra flokkur sé í ríkisstjórnum og þurfi að gefa eftir og semja um mál.
Það er auðvitað auðveldara að halda "hugsjónum sínum hreinum" í stjórnarandstöðu og VG vissulega vanara þeirri stöðu.
En þú nefnir ekkert Kristján hvað VG hefur þurft að gefa svo hræðilega eftir. Vissulega fór frumvarpið um hálendisþjóðgarð á bið, enda missti það stuðning víðast um landið, ekki síst á sveitastjórnarstiginu. Líklega ekki síst vegna ráðherra VG. Slíkt gerist og ekki sjálfgefið að kenna samstarfsflokkum um.
Raunsæi er góður fylginautur í stjórnmálum, þó að hugsjónir eigi ekki að gleymast.
G. Tómas Gunnarsson, 31.7.2021 kl. 01:05
Ágætis hugleiðing hjá þér G.Tómas. Ekki ætla ég að reyna að telja upp hvað hver flokkur hefur þurft að gefa eftir í stjórnarsamstarfinu, enda skiptir það svo sem ekki öllu máli úr því sem komið er. Hitt er fróðlegra að skoða hvernig VG kemur undan vetri í stjórnarsamstarfi, nú og í fyrra skiptið.
Eftir samstarf við Samfylkingu, "hreina vinstristjórnin", mátti ekki miklu muna að VG hyrfi af póltíska sviðinu. Kjósendur flokksins voru greinilega ekki ánægðir með það samstarf. Þó var það tveggja flokka stjórn. Hvernig mun VG koma út í fjögurra eða fimm flokka stjórn til vinstri.
Nú benda skoðanakannanir hins vegar til að VG muni bara koma ágætlega út úr kosningunum.
Eitthvað sem vinstra fólk ætti að skoða, sér í lagi kjósendur VG.
Gunnar Heiðarsson, 31.7.2021 kl. 07:58
XD þurfti að gefa eftir uppbyggingu Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Helguvíkurhöfn sökum andstöðu innan VG.
Stefan Thor (IP-tala skráð) 31.7.2021 kl. 08:34
Ef Helguvíkurhöfn er "eftirgjöf" Sjálfstæðisflokksins þá held ég að kjósendur hans geti verið harla ánægðir. Það sem VG hefur orðið að bakka með er jú að vissu leyti hálendisþjóðgarðurinn, ný stjórnarskrá og svo auðvitað eilífðarmálið veiðileyfagjöldin.
Hagsmunir útgerðarinn eru alfa og ómega í stefnu og völdum Sjálfstæðisflokksins og á meðan hann þarf ekki að gefa það eftir eru menn þar sáttir.
Ef Sjálfstæðismenn (bæði kjósendur og þingmenn) eru svona raunsæir þá held ég að einkavæðig heilbrigðisþjónustunnar sé þeim ekki neitt alvörumál því þeir vita sem er að það er engin stemmning í þjóðfélaginu fyrir slíku. Það eru bara einstaka hagsmunaaðilar innan flokksins sem hafa þar hæst. Svipað gildir um frjálsa sölu áfengis. Enda er nú frjáls sala áfengis varla stórkostlegt baráttumál nema þá helst ungra sjálfstæðismanna.
Kristján G. Arngrímsson, 31.7.2021 kl. 13:16
Kristján: Ég held að fáir sjálfstæðismenn hafi haft miklar væntingar um auknar einavæðingar í heilbrigðiskerfinu í þessari ríkisstjórn en ég held að margir séu furði lostnir að horfa upp á hversu ráðherra heilbrigðismála hefur fengið að að leika lausum hala í að rískisvæða heilbrigðiskerfið.
Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 31.7.2021 kl. 22:38
Kristján: Ég held að fáir sjálfstæðismenn hafi haft miklar væntingar um auknar einavæðingar í heilbrigðiskerfinu í þessari ríkisstjórn en ég held að margir séu furði lostnir að horfa upp á hversu ráðherra heilbrigðismála hefur fengið að að leika lausum hala í að ríkisvæða heilbrigðiskerfið.
Stefán Örn Valdimarsson, 31.7.2021 kl. 22:39
Þegar spurt er hvað sjálfstæðismenn hafa gefið eftir má ekki gleyma fóstureyðingarfrumvarpinu sem var samþykkt. Meiri andstaða var við það en kom fram við atkvæðagreisluna, og hygg ég að þar hafi flestir einsett sér að halda stjórninni saman frekar en að greiða atkvæði eftir sinni sannfæringu, vitandi að málið var og er umdeilt.
Þó er alveg furðulegt hversu samhent stjórnin hefur verið miðað við að talað var um andstæða póla. Já, VG hefur gefið mikið eftir, en er það ekki til hróss fyrir Katrínu að vera sveigjanleg, samvinnufús? Þau hafa fengið áhrif og völd fyrir vikið.
Ég tek undir með Gunnari Heiðarssyni um að það lítur út fyrir að ekki gildi lengur sú kenning að flokkar sem vinni með Sjálfstæðisflokknum tapi á því.
Píratar mættu taka það til athugunar og Samfylkingin.
Ingólfur Sigurðsson, 31.7.2021 kl. 23:26
Einhver sagði við mig að Ísland hefði aldrei haft sjálfstæði og að sjálfstæðið hefði ætíð verið blekking.
Kannski fyrir utan þorskastríð ( sem breytti í raun engu ) og Icesave.
Sjálfsagt flestir búnir að gleyma að fyrrum orkumálaráðherra Bretlands hljóp til fyrirtækis sem hann hjálpaði til að landa sæstrengs verkefni og blekið varla þornað.
Þannig að bak við tjöldin vita fáir hvernig Icesave gjörningurinn endaði.
Samkvæmt Wikileaks skjölum ( sem virðist ekki vera aðgengileg lengur )
Þá opinberaði núverand næst æðsta vald framkvæmda snemma vors árið 2008 í samkvæmi í sendiræði almættisins að Ísland ætti að leita sér skjóls í ESB. Talskona flokks sem var yfirlýstur andstæðingur ESB.
Allir vita hvað gerðist í stjórn skjaldborgar um heimilin.
Vaktaskipti fjórflokksins snúast ætíð um alþjóðasamskipti og hafa gert í áratugi.
Hagsmunir þjóðarinar hafa verið reiknaðir út frá aljóðasamskiptum/alþjóðasamfélaginu svo glettilega lúmskir að það er ekki annað hægt að dá hæfileikana hvernig örlög þjóðar verið ísmegilega verið ráðin.
Heiðar Þór Leifsson (IP-tala skráð) 1.8.2021 kl. 00:15
Já því miður er margt til í þessu. Það er þó engin ástæða til að brýna ekki stjórnmálamennina til að gera betur og kjósa skárri flokka ef þeir hafa möguleika á að verða nógu stórir til að hafa áhrif.
Jóhönnustjórnin var náttúrulega bara kapítuli útaf fyrir sig og skjaldborgin um auðvaldið.
Icesave stríðið sem vannst var stórsigur fyrir þjóðina, og þorskastríðin þótt ekki væri nema fyrir ímynd þjóðarinnar og höfðu jákvæð áhrif, og auknar tekjur.
Nógu slæm er spillingin án ESB, verður hún skárri ef þjóðin fer þangað inn?
Ingólfur Sigurðsson, 1.8.2021 kl. 00:56
Framkvæmda valdið er orðið að æðsta valdi með næstum samþykki meirihluta þjóðarinar.
Fólk heldur í raun að það kjósi ríkisstjórnir.
En ekki fulltrúa á þing.
Framkvæmdavaldið þjónustar alþjóða alræði.
Ásamt vel skipulagðri hálf íslenskri " hard core " elítu.
Engin kemst til valda nema vera til þess " hæfur "
Vitundarvakning er það sem þurfa skal til breytinga.
Dagar samsæriskenninga hljóta að vera liðnir þegar samsæriskenningar reynast sannar.
En þegar samsæriskenningar reynast sannar, þá vill fólk helst ekki ræða þær. Heldur snúa út úr eða að öðru.
Fólk kýs til þings en ekki til framkvæmdavalds.
Framkvæmdavald er orðið æðsta vald þrískiptingar valds, öfugþróun í átt til fasisma.
Heiðar Þór Leifsson (IP-tala skráð) 1.8.2021 kl. 02:45
Ég vil þakka öllum þeim sem hér hafa litið sett hér inn athugsemdir eða litið inn.
@Kristján. Það er einfalt að segja að pólítískir andstæðingar þínir eigi að vera fegnir að stefnumál þeirra komist ekki í gegn, en leggur lítið til mála nema vott of hroka.
Ég hygg að flest stuðningsfólk Sjálfstæðiflokksins sé fylgjandi veru Íslands í NATO og þar með uppbyggingu í Helgavík og að varnarviðbúnaður sé að Íslandi, þar með talin uppygging í Helguvík.
Ég man ekki eftir því að VG hafi lagt áherslu á "nýja" stjórnarskrá fyrir síðustu kosningar, þó að flokkurinn hafi viljað stjórnarskrárbreytingar. En það að stjórnarskrárbreytingar hafi ekki náð í gegn skrifast ekki frekar á samstarfsflokka en stjórnarandstöðu.
VG hefur reyndar (eftir mínu minni) verið örlítið vaklandi hvað varðar veiðilgjöld. Margir innan flokksins hafa einmitt lýst áhyggjum sínum yfir því að þau séu of íþyngjandi fyrir smærri útgerðir.
Ég held að flestir Íslendingar séu þokkalega sáttir við hið blandaða kerfi í heilbrigðismálum.
Ríkisvæðing t.d. krabbameinsskimana hefur ekki tekist vel og ég efast um að það sé mikill stuðningur við að "liðskiptasjúklingar" fari frekar í aðgerðir hjá einkasjúkrahúsum í Svíþjóð frekar en einkasjúkrahúsi á Íslandi.
Tryggingarkerfið er eitt og rekstrarformið annað, en auðvitað þurfa Íslendingar að ræða slík mál hreinskilnislega og í þeim þarf að gera skýran mun á rekstri og tryggingum/greiðslum.
Það er full ástæða til þess að nútímavæða sölufyrirkomulag á áfengi á Íslandi og ég held að við það sé vaxandi stuðningur.
Það frumvarp sem var til umræðu nú gekk þó ekki lengra en að leyfa framleiðendum að selja á framleiðslustað og svo að jafna réttindi innlendra vefverslana á við þær erlendu.
Sjálfsagt framfaraskref. Sjálfur fer ég nokkuð reglulega og kaupi öl hjá fraleiðenda sem er ca. kílómeter frá heimili mínu. Hann býður t.d. upp á að kaupa öl í fjölnota brúsum, sem er auðvitað sérstaklega umhverfisvænt.
Það er er ekkert annað en mýta að samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokks tapi alltaf á því, en vissulega er algengara en ekki að flokkar í ríkisstjórn tapi.
Ég hef oftar en einu sinni bloggað um þessa mýtu, nýjustu færsluna um það efni má finn hér: https://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/2259382/
Ég get tekið undir að framkvæmdavaldið hefur markvisst "sogað" til sín vald frá Alþingi og er það reyndar tilhneyging víðast um lönd.
Alþingi hefur á borði, en ekki orði, í raun æ minna vald. Frumkvæðið og flest frumvörp (sem eru samþykkt) koma frá ráðherrum.
Gott dæmi um er hvernig haldið er á sóttvarnarmálum. Það er stjórnað með reglugerðum og Alþingi hefur lítið að segja.
Vissulega er þörf á því að bregðast skjótt við oftast nær, en það má t.d leysa með því að samþykki Alþingis þurfi að koma til innan viss tíma.
En um þetta eru líklega skiptar skoðanir eins og margt annað og "ráðherraræðið" nýtur víða stuðnings, líklega ekki síst innan embættismanakerfisins.
Þegar bætist við sú lenska að fækka ráðherrum, verður það til að æ færri koma "að borðinu" og valdið er á færri höndum.
G. Tómas Gunnarsson, 3.8.2021 kl. 18:52
Bara ein leiðrétting á misskilningi: Ég átti nú við að ef þetta með Helguvík væri það eina sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði þurft að gefa eftir gætu kjósendur hans vel við unað að það væri ekki fleira sem hefði þurft að gefa eftir.
Kristján G. Arngrímsson, 3.8.2021 kl. 20:22
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þar sem ég minntist á fleiri atriði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði gefið eftir, lagði ég ekki þennan skilning í þetta.
Tel það augljóst að það hefur ekki verið eina málið sem Sjálfstæðiflokkurinn hefur þurft að "kyngja" ef svo má að orði komast.
Þú enda minnist á önnur mál svo sem "einka/ríkisvæðingu" í heilbrigðiskerfinu og svo t.d. sölufyrirkomulag á áfengi. Í öllum tilfellum virðist þú fella þann dóm að það sé "smámál" fyrir Sjálfstæðisflokkinn að gefa eftir.
En er það þá eitthvað meira mál fyrir samstarfsflokka hans að gefa eftir hvað varðar "þeirr mál"?
G. Tómas Gunnarsson, 3.8.2021 kl. 22:57
Já, sko, ég var eiginlega bara að svara kommentinu næst á undan mínu, þar sem var bara minnst á Helguvík. En gott og vel.
Kristján G. Arngrímsson, 4.8.2021 kl. 11:49
Enda held ég, eins og ég nefndi, að Sjálfstæðimenn séu, þegar öllu er á botninn hvolft, til í að kyngja hverju sem er svo lengi sem ekki er hróflað við hagsmunum útgerðarinnar.
Kristján G. Arngrímsson, 4.8.2021 kl. 11:51
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Á þar síðasta áratug töluðu einstaka "spjátrungar" bæði í viðskiptum og stjórnmálum á þann veg að Íslendingar þyrftu lítið á sjávarútvegi að halda lengur.
Það höfðu enda fáir áhuga á því að fjárfesta í "slíkum fyrirtækjum".
Í gegnum tíðina hafa sömuleiðis margir haft horn í síðu "orkufreks" iðnaður eins og hann er oft nefndur.
En þessar starfsgreinar fleyttu Íslendingum í gegnum bankahrunið og svo þegar ferðaþjónustan fór að aukast varð aftur "fjör".
En sjávarútvegur og fiskeldi er í sókn og góðu heilli hefur verið lagt í miklar fjárfestingar á undanförnum árum sem vonandi eiga eftir að skila sér í enn frekari tekjum á næstu árum og áratugum.
G. Tómas Gunnarsson, 4.8.2021 kl. 14:25
Hmm... þú hljómar eins og lobbíisti hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta er fagurgali sem kemur ekkert inná það sem hann á að heita svar við.
Svonalagað heitir á góðu máli bullshit.
Kristján G. Arngrímsson, 4.8.2021 kl. 14:50
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ekki gleyma að minnast á orkufreku fyrirtækin.
Þetta kemur inn á það að það er mikilvægt fyrir þjóðfélagið í heild að staða sjávarútvegs sé góð og sterk.
Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu um veiðileyfagjald. Nú síðast var helsti talsmaður Viðreisnar að viðurkenna að þeirra breytingatillögur myndu ekki auka gjaldtökuna.
En það gengur ýmislegt á, loðnan hvarf í nokkur ár og ekki vitað hvernig næsta vertíð verður, þorskkvótinn var nú skorin verulega niður.
En verðmætasköpun og nýting hefur aukist og skapar aukin verðmæti.
Það er auðvitað auðvelt að kalla þetta "bullshit", en líklega erfiðara að rökstyðja það.
G. Tómas Gunnarsson, 4.8.2021 kl. 15:42
Það er nú sosum ekkert mál að útskýra (eða rökstyðja) að þetta sé bullshit. Ég á ekki við með því að þetta sé beinlínis rangt, heldur að þetta er eiginlega eitthvað sem allir eru sennilega sammála. Auðvitað er mikilvægt fyrir þjóðfélagið í heild að staða sjávarútvegs sé sterk. Enginn andmælir því. Enda er það ekki það sem málið snýst um heldur hvernig tryggt sé að staða sjávarútvegs sé sterk. Þú svona gefur í skyn, eða býður upp á að vera skilinn þannig, að annaðhvort verði haldið áfram óbreyttu fyrirkomulagi eða að staða sjávarútvegsins verði veik. En þetta er einföld rökvilla.
"Bullshit" er einmitt svona orðfæri sem hljómar vel en hefur ekkert sannleiksgildi (þ.e. er hvorki satt né ósatt) en hljómar þannig að flestallir ef ekki alveg allir geta kinkað kolli. Þetta eru hátíðarræðurnar sem stuða engan en enginn man eftir stundinni lengur.
Leið til að víkja sér undan því að svara því sem maður er spurður að. Eins og ef ég myndi spyrja þig hvort viltu vanilluís eða súkkulaðiís, og þú myndir svara: ég vil bara geta valið, ég vel frelsið. Auðvitað eru allir sammála þér, en þú hefur vikið þér undan því að svara því sem þú varst raunverulega spurður um.
Kristján G. Arngrímsson, 4.8.2021 kl. 19:25
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það eru skiptar skoðanir um hvort hvað stór hluti af hagnaði sjávarútvegs eigi að enda hjá ríkinu, það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt.
Einhverjir eru svo þeirra skoðunar að best væri að útgerðin væri á hendi hins opinbera og tala með eftirsjá um bæjarútgerðir og ríkisfyrirtæki.
En ef allir eru sammála um að æskilegt sé að staða sjávarútvegs sé sterk, er ekki besta leiðin til þess að gefa gaum að og hyggja að hagsmunum hans?
Ég held að seint verði fundin hinn "eina rétta leið" í sjávarútvegi fremur en víðast annars staðar.
Hver er rétti "balansinn" á milli skattlagningar og þess að fjárfestingargeta útvegsins skerðist?
Ef miðað er við "greiðslugetu" best stæðu fyrirtækjanna fara líklega mörg önnur "á höfuðið", ef miðað er við greiðslugetu síður stæðu fyrirtækjanna þá þenst að sjálfsögðu hagnaður best stæðu fyrirtækjanna.
Í raun má segja að ef sjávarútvegurinn (sem heild) finnur leið til hagræðingar/sparnaðar, þá hækkar veiðleyfagjaldið (sem og auðvitað tekjuskattur).
Það má halda því fram að það virki letjandi til þess að bæta reksturinn. En að sama skapi kemur ákveðinn fjárfestingarhvati fram.
Stærsta deilan síðustu misseri hefur líklega snúist um veiðileyfagjald, telur þú að hækkun þess tryggi sterkari stöðu sjávarútvegs?
Eins og ég sagði hér að ofan, lýsti helsti talsmaður Viðreisnar í sjávarútvegsmálum því að í þeirra "breytta" kerfi myndu tekjur ríkisins líklega ekki aukast.
Margir á vinstri kantinum hnussuðu yfir því.
Ég var fyrst og fremst að segja að góð staða sjávarútvegs styrkir stöðu landsins.
Hér er ágæt grein um efnið, sem hægt er að finna hér á blog.is: https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2267738/
En það eru mörgum ódýrar pólítískar keilur að ráðast á sjávarútveginn. Þar er hagnaður eða arðgreiðslur ekki í hærri prósentum en í öðrum atvinnugreinum.
Fákeppni í sjávarútvegi er líklega sömuleiðis síst minni en í öðrum atvinnugreinum.
G. Tómas Gunnarsson, 4.8.2021 kl. 20:49
Síðasta setningin í athugsemdinni hér að ofan skolaðist til hjá mér, en átti að vera,
Fákeppni í sjávarútvegi er líklega sömuleiðis síst meiri en í mörgum öðrum atvinnugreinum.
G. Tómas Gunnarsson, 4.8.2021 kl. 23:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.