26.6.2021 | 16:54
Verðlag er hátt á Íslandi, en sker sig minna frá "samanburðarlöndum" en oft er talið
Það geta ekki talist nýjar fréttir að verðlag sé hátt á Íslandi. Það er nokkuð vel kunn staðreynd.
Þó að ekki séu öll ríki Evrópu með í samanburði Eurostat, má reikna með því að þó lönd sem eru utan hans séu ekki við toppinn sem gerir Ísland að 4ja dýrasta landi Evrópu í, miðað við útreikninga Eurostat.
Aðeins Sviss, Danmörk og Noregur eru dýrari. Fáum kemur líklega á óvart að sjá Sviss og Noreg á toppnum, en líklega eru einhverjir hissa á því að sjá Danmörk í öðru sæti (á undan Noregi), og þá jafnframt "dýrasta" Evrópusambandslandið.
En það vekur ekki síður athygli hve lítill munur er t.d. á Íslandi og Írlandi og Luxembourg.
Ísland er 37% yfir "Sambandsmeðaltalinu" en Írland og Luxembourg 36%. Þau eru þau tvö lönd sem eru "dýrust" á Eurosvæðinu.
Síðan koma Svíþjóð og Finnland. Ég tel það koma fáum á óvart að Norðurlöndin ásamt Sviss og Luxembourg raði sér í efstu sætin. Sjálfum mér kom það örlítið á óvart hvað Írland er ofarlega.
Ísland er í miðju Norðurlandanna, tvö þeirra eru örlítið dýrari, tvö heldur ódýrari.
En auðvitað eru svo einstaka flokkar sem skipast öðruvísi.
Hvað Ísland varðar eru það líklega 2. flokkar sem skera sig úr. Annars vegar áfengi og tóbak (en þar er Ísland u.þ.b. 90% yfir meðaltalinu, aðeins Noregur hærri, en Írland skammt undan) og svo aftur orka (en þar er Ísland með 63.4% af meðaltalinu og nokkurn veginn á pari við Noreg).
Eini flokkurinn sem Ísland er dýrasta landið í þessum samanburði er raftæki (consumer electronics), en þar er Ísland 22.9% dýrari en "Sambandsmeðaltalið".
Heilt yfir tel ég að Íslendingar geti þokkalega við unað, þó að án efa sé svigrúm til þess að gera betur.
En smár markaður þar sem flutningskostnaður verður alltaf hár gerir það líklegt að Ísland verði í "hærri sætunum".
En auðvitað er fjöldi breytanna mikill í dæmi sem þessu. En ég get ekki séð að gjaldmiðill hafi afgerandi áhrif á verðlag, eða stuðli að því að það lækki.
En hér má skoða samanburðinn nánar ef áhugi er fyrir hendi.
P.S. Meiningin var að þessi færsla tengdist þessari frétt af mbl.is, en það virðist hafa misfarist.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:14 | Facebook
Athugasemdir
Forvitnilegt.
Kaupmáttur þyrfti að vera með.
Og einnig kaupmáttur þeirra 20% þjóðfélags þegna sem hafa lægsta kaupið, og atvinnulausir innifaldir.
Ef atvinnulausir væru 30% þá þurfum við að hugsa málið.
Þá berum við saman verðlag og tekjur þeirra 20% lægstu í Sviss og Tyrklandi.
Egilsstaðir, 26.06.2021 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 26.6.2021 kl. 21:43
@Jónas, þakka þér fyrir þetta. Það hefur víða komið fram að kaupmáttur á Íslandi er með þeim hærri í heiminum. Það er eitthvað misjafnt hvernig reiknast, en alla jafna má finna Ísland (upp á síðkastið) á top 5 yfir þjóðir í Evrópu.
Sbr t.d. : https://www.gfk.com/insights/map-of-the-month-gfk-purchasing-power-europe-2020
En þarna er ekki eingöngu skipt eftir löndum, heldur einnig héruðum.
Það hefur líka komið fram að launajöfnuður er óvíða meiri en á Íslandi.
Hér má lesa að launajöfnuður sé mestur á Íslandi meðal landa OECD: https://www.oecd.org/gov/gov-at-a-glance-2017-iceland.pdf
Ég hef hvergi séð nákvæman samanburð á milli þeirra lægst launuðu, en það segir sig sjálfst að ástandið hlýtur að vera betra í landi þar sem launamunur er minnstur en kaupmáttur á meðal þeira hæstu.
Hitt er svo að vissulega hafa Covid aðgerðir víða um heiminn alla jafna bitnað harðar á þeim sem hafa minna á milli handanna.
Bæti þessum hlekk við í lokin: https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/FOR/Fylgiskjol-i-frett/Greinager%C3%B0%20um%20launabil%20og%20j%C3%B6fnu%C3%B0.pdf
G. Tómas Gunnarsson, 27.6.2021 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.