"Stór Idaho" í kortunum?

Víða um lönd virðast íbúar eiga erfitt með að sætta sig við að tilheyra einu eða öðru landi. Sjálfstæðishreyfingum vex víða fiskur um hrygg.

Fjöldi nýrra ríkja hefur orðið til á undanförnum áratugum, Tékkland, Slóvakía, Serbía, Svartfjallaland, Eistland, Lettland, Litháen, Norður Makedónia, svo fáein séu nefnd og þetta er bara í Evrópu.

Sum löndin hafa endurheimt sjálfstæði sitt, en önnur eru ríki í fyrsta sinn.

En það eru fleiri ríki sem vilja sjálfstæði, Skotland (það má þó ef til vill segja að í raun vilji Skotar aðeins skila Englandi og Wales), þar vilja margir sjálfstæði, sama má segja um Katalóníu og svo Baska.

Í N-Ameríku hafa margir í Quebec átt draum um sjálfstæði og svo er einnig orðið í Alberta.

Talað hefur verið um að kljúfa Kalíforníu frá Bandaríkjunum og sumir í Texas hafa svipaða drauma.

Líklega hefur ekki verið fjallað meira um sjálfstæðisdrauma neinna en Skota undanfarin misseri. 

Minna hefur þó farið fyrir því að sumar eyjarnar undan strönd Skotlands hafa þegar hafið undibúning að því að kljúfa sig frá Skotlandi, kljúfi Skotland sig frá "Sameinaða konungdæminu".

En hvað veldur því að þjóðir og hópar una sér svo illa innan stærri eininga?

Ég hef velt því all nokkuð fyrir mér án þess að komast að niðurstöðu.

Að hluta til kann það að vera "pólun" á milli "stórborga" og "dreifbýlis".  Skotlandi kann að þykja London fjarlæg og þar búi "elítan", það sama kann svo að gilda um Hjaltlandseyjar og Edingborg.

Einhverjum kann að þykja að "þeirra svæði" borgi mun meira í sameiginlega sjóði en aðrir í "sambandinu".

Enn aðrir vilja finnst að auðlindir á þeirra svæði nýtist ekki nægjanlega í "heimabyggð".

Nú hafa 7 hreppir (counties) í Oregon ríki kosið um tillögu um að landamærum á milli Oregon og Idaho verði breytt, og meirihluti kjósenda vill frekar tilheyra Idaho.

Enn er langt í land að sjáist hver niðurstaðan verður, en hugmyndin nýtur einnig þó nokkurs stuðnings í Oregon.

Þar vilja margir meina að norðuvesturhluti Oregon "niðurgreiði" suðaustur hlutan, þannig að ef þeir vilji fara sé það sparnaður sem ekki sé ástæða til að neita.

Lesa má frekar um þessar hugmyndir á greateridaho.org.  Margir vilja ekki láta nægja að færa syðri "hreppi" (sýslur) Oregon yfir til Idaho, heldur sé það aðeins fyrsta skrefið og næs komi nyrstu "hreppir" Kalíforníu og verði aðilar að "Stór Idaho".

Hér er ekki verið að fara fram á sjálfstæði, heldur að flytja "hreppi" á milli ríkja. 

Íbúarnir (eða stór hluti þeirra) vilja frekar tilheyra ríki sem sé svipað uppbyggingu og þeirra eigin landsvæði, og stjórnmála- og lífsskoðanir líkari.

Heilt yfir finnst mér ekki ástæða til annars en að íbúarnir (eða meirihluti þeirra) ákveði hvort að landsvæði sé sjálfstætt eða nú hvaða ríki það tilheyrir.

En vissulega getur slíkt skapað vandræði og einnig er vert að velta því fyrir sér hvort að slíkt eigi að vera sífelldum breytingum háð, eða hvort þörf sé á einhverri festu.

Ef þessar hugmundir um "Stór Idaho" ná flugi, má gera ráð fyrir því að slíkar hugmyndir fari af stað, ekki bara víða í Bandaríkjunum, heldur víða um heim.

Sjálfstæðisbarátta heldur sömuleiðis líklega áfram að skjóta upp kollinum víða.

Sækjast sér um líkir er stundum sagt, en æ meira óþol virðist vera fyrir sambýli ólíkra landsvæða og/eða hópa.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Mér finnst að þegar Skotar verða orðnir sjálfstæð þjóð þá eigi að bjóða þeim aðild að Norðurlandaráði. Þeir eiga margt sameiginlegt með Norðurlöndunum, til dæmis tala þeir á köflum eiginlega fornnorrænu og svo búa þeir til sjónvarpslögguþætti á heimsmælikvarða - hver man ekki eftir Taggart?

(Sem er reyndar enn sýndur á Danmarks Radio)

Kristján G. Arngrímsson, 21.5.2021 kl. 16:54

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég hef miklar efasemdir um að Skotlandi takist að skila Englandi og Wales, ekki það að ég sé á móti því.

Ég hef einfaldlega ekki trú á því að sú yrði niðurstaða kosninga þegar til þeirra kemur, en auðvitað er það ekki útilokað.

Hvernig ríkisstjórn Skoska þjóðarflokksins heldur á fjármálum þess sýnir hvað erfið staðan gæti orðið.

Ef svo eyjarnar undan ströndinni vilja ekki lúta stjórn "Holyrood" sýnir svo hvernig getur spilast úr stöðunni.

Mörg orð í bæð "skosku" og Ensku koma auðvitað úr norrænu, en þrátt fyrir það teldi ég út í hött að bjóða Skotum aðild að Norðurlandaráði.  Lang best að halda því eins og er.

Það væri eðlilegra að bjóða þeim þátttöku í Nordic-Baltic, er það ekki kallað NB8, sem myndi þá breytast í NB9, nú eða 10 ef Hjaltlandseyjar yrðu sömuleiðis sjálfstæðar.

Get ekki sagt að ég hafi horft á Taggart, þó að ég hafi heyrt á hann minnst. Hef heldur aldrei horft á DR.

G. Tómas Gunnarsson, 21.5.2021 kl. 17:36

3 identicon

En hvað þarf landsvæði að vera stórt til íbúarnir megi ákveða þetta sjálfir?

Gætu íbúar í blokk í Breiðholti ákveðið að blokkin eigi frekar að tilheyra Kópavogi?

Breytir það einhverju ef íbúarnir eru flestir úr Kópavogi?

ls (IP-tala skráð) 21.5.2021 kl. 22:35

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls, þakka þér fyrir þetta. Þetta er nú ein af stóru spurningunum.  Hvað telst land eða landsvæði, hvað er þjóð og svo framvegis?

Ég held að seint verði fundin ein "formúla" sem gildir alls staðar.  Rétt eins og það er ljóst að engin hreppur (eða sýsla) flyst á milli Oregon og Idaho, án þess að bæði ríkin séu sátt við "hreppaflutningana", þá heilt yfir skapar það vandræði ef slíkt er ekki gert í sátt.

Ég sé ekki fyrir mér að t.d. Grafarvogur verði sjálfstætt sveitarfélag, þó að meirihluti kynna að kjósa svo, án flókinna samningaviðræðna, t.d. um skuldir og annað slíkt.

Ríki geta vissulega orðið sjálfstæði með valdi, ef svo má að orði komast eða hreinlega í stríði.

En aðstæður eru mjög mismunandi.  Á Íslandi eiga sveitarfélög t.d. flestar lóðir og leigja þær út, en víða um lönd eru það íbúar, eða fyrirtæki sem eiga allar lóðir.

Það getur t.d. varla talist sanngjarnt að "hverfi" vilja yfirgefa eitthvert "svæði", ef nýverið hefur verið eytt stórum fjárhæðum til að kaupa það landsvæði sem "hverfið" stendur á.

Hvernig opinberar skuldir skiptast er svo eitthvað sem hlýtur oft að vera meginatriði ef lönd eða ríki skiptast upp.

Hvernig færi það hjá t.d. Skotlandi/Bretlandi?  https://www.iflr.com/article/b1rrq0pywbfqk6/uk-debt-share-a-key-concern-for-scottish-independence

Þannig að að sjálfsögðu eru fjöldamörg atriði sem þarf að taka tillit til, og ekki endilega þau sömu alls staðar.

En heilt yfir og til lengri tíma, er ekki hollt fyrir neitt ríki að hafa stóran hluta óánægðan með hlutskipti sitt.

En rétt eins og í öðrum "skilnaðarmálum", þarf að ræða málin, semja, en ekki einfaldlega rjúka í burtu.

G. Tómas Gunnarsson, 22.5.2021 kl. 00:05

5 identicon

Dæmir er náttúrlega ýkt, en skipti maður Breiðholti út fyrir, t.d. eitthvert Eystrasaltsríkjana og Kópavogi fyrir Rússland, þá er maður með eitthvað eldfimara en Idaho eða Skotland.

ls (IP-tala skráð) 22.5.2021 kl. 22:48

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls, þakka þér fyrir þetta. Sem betur fer tókst Eystrasaltsríkjunum að endurheimta sjálfstæði sitt án mikilla blóðsúthellinga.  En það var ekki án þeirra.

En öll Eystrasaltsríkin höfðu notið sjálfstæðis áður, þó að vissulega hefðu þau þurft að berjast fyrir því, bæði við Sovétið og Þjóðverja á þeim tíma.

Þau urðu sjálfstæð um sama leiti og Ísland náði fullveldi, Finnland kom til sögunnar á sama tíma.

Fjöldinn allur af ríkjum ýmist varð til í fyrsta sinn, eða endurheimti sjálfstæði sitt í þeim umbrotum sem urðu við lok fyrri heimstyrjaldarinnar.

Það er vert að hafa í huga að til dæmis Þýskaland á ekki lengri sögu en til 1870, Ítalía aðeins tæpum áratug eldri.

Svo er spurningin hvað er þjóð og hvernig við viljum skilgreina hana?

Það eru ekki allir svo heppnir sem Íslendingar að eiga skýr landamæri.

Þó getur vel komið til þess í framtíðinni að einhver hluti Íslands vilji skilja sig frá.

Ég umgengst svolítið hjón frá Ukraínu.  Þau eru fædd í Sovétríkjunum, nánar tiltekið í borginni Lvow.  Hún er í raun "Pólverji", foreldrar hennar tala reiprennandi Pólsku.  Hann er ættaður úr "fjöllunum", er í raun Ungverji, foreldrar hans töluðu Ungversku.

Þó líta þau á sig sem Ukraínubúa. Einkasonur þeirra lítur að ég tel fyrst og fremst á sig sem Kanadabúa, enda fæddur þar.

En hvorki sagan né skilgreiningar eru alltaf einfaldar.

G. Tómas Gunnarsson, 23.5.2021 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband