8.5.2021 | 17:30
Frakka netverslunin
Það er ekki nauðsynlegt að vera Franskur til að opna netverslun með áfengi fyrir Íslendinga, en líklega þarf að vera hæfilega frakkur.
En "Franskri" netverslun með hluta af starfsemi sinni, eða samstarfsaðila á Íslandi eru flestir vegir færir. Þannig er lagaumhverfið sem Íslendingum og Íslenskum fyrirtækjum er boðið upp á.
Eiginlega til skammar.
Hvað eru margar vikur síðan ríkisstjórn og Alþingi heyktist á að breyta fyrirkomulaginu til eðlilegra horfs?
Aðeins var þó um örlítið skref að ræða.
Að leyfa innlendum vefverslunum að starfa á jafnréttisgrundvelli gegn erlendum.
En á meðan margir stjórnmálamenn (og áhangendur þeirra) eru þeirrar skoðunar að sjaldan eða aldrei "sé rétti tíminn" til að ræða svona mál, "Erum við ekki í miðjum faraldri", þá heldur lífið utan stjórnmálanna áfram.
Sjálfsagt munu einhverjir stjórnmálamenn, sem og hluti almennings vilja "skerpa á reglum", "herða lögin", "bara banna þetta".
Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum yfirvalda.
ÁTVR telur líklega að "hætta sé á að grundvöllur fyrirtækisins bresti". Verði svo er það sérstakt fagnaðarefni.
Ríkið mun eftir sem áður taka til sín stærstan hluta áfengisverðs, skattar sjá til þess.
En það er jákvætt ef áfengisala á Íslandi er á leið inn í 21. öldina.
Bjórinn er 25% ódýrari í nýrri netverslun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Matur og drykkur, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Maðurinn fullyrti í fréttum Rúv áðan að þetta væri alveg löglegt. Eigum við að trúa honum?
Hvað ef ég versla við hann og svo kemur í ljós að verslunin hans er dæmd ólögleg?
Hef ég þá framið lögbrot?
Svo hef ég nú grun um að ef svo ólíklega fer að hann "komist upp með þetta" muni verðið fljólega hækka.
En annars snertir þetta mig sosum ekki því að Stella er ekki bjórinn minn.
Kristján G. Arngrímsson, 8.5.2021 kl. 21:18
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ekki ætla ég að fullyrða neitt um það sem komið hefur fram í fréttum RUV, hef ekki séð þær svo mánuðum skiptir. Eru ekki fréttamenn RUV sérfræðingar í öllu sem viðkemur að eitthvað sé löglegt/ólöglegt, afbrot eða ekki afbrot? :-)
Ég hygg að einstaklingur sem versli við þessa Frönsku vefverslun geti varla verið sekari en þeir sem versla við aðrar erlendar vefverslanir?
Eða gefur DHL eða sambærileg fyrirtæki sem milliliðir athæfinu eitthvert lögmæti?
Er eitthvað ólöglegt við að Franskt fyrirtæki hafi dreifingarmiðstöð á Íslandi?
Áður en við vitum af munu Viðreisn og Samfylkingin tala um að þetta sé allt "Sambandinu" að þakka, sem það er ekki, en samt. Því vissulega spilar EEA/EES samningurinn þarna inn í.
En ef ég hef skilið rétt voru þeir flokkar ekki fylgjandi því að leikreglurnar yrðu jafnaðar á milli innlendra og erlendra vefverslana.
Það hefur alltaf verið skrýtið að átta sig á viðhorfi margra Íslendinga til fyrirkomulags á áfengissölu.
Stella er heldur ekki bjórinn minn, enda lífið alltof skemmtilegt og fjölbreytilegt til að halda sig við einn bjór.
Ég hef þó oft drukkið Stellu mér til ánægju.
En þetta skref skiptir mig engu máli persónulega, ég gleðst yfir framförum og auknu frjálsræði hvar sem er, þó að það kunni ekki að nýtast mér.
Talandi um að eiga erfitt að líta lengra en eigin hagsmunir ná. En einhver tíma kemur ef til vill að "bjórnum þínum".
G. Tómas Gunnarsson, 8.5.2021 kl. 22:21
Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta er löglegt eða ekki, var bara að spyrja hvort maður ætti að trúa manninum sem er að þessu.
Rifjaðist upp fyrir mér að ég tók einu sinni virkan þátt í alveg hliðstæðri "lögleysu" - með því að starfrækja útvarpsstöð á meðan ríkið hafði einkarétt á ljósvakamiðlum. Nema kannski að þar lék enginn vafi á því að um lögbrot var að ræða.
(Ef ég man rétt lágu allar útsendingar Ríkisútvarps og sjónvarps niðri útaf verkfalli einhverra og þá varð mikil eftirspurn eftir svoleiðis efni).
Kristján G. Arngrímsson, 9.5.2021 kl. 07:19
PS: Hver veit nema þessi "franska netverslun" verði fyrsta skrefið í afnámi ríkiseinkaréttar á áfengissölu. Ég ætla þó að leyfa mér að efast um það.
Kristján G. Arngrímsson, 9.5.2021 kl. 07:20
Fákeppni er ekkert betri en einkarekstur ríkisins.
Það er dálítið hætt við því að stóru smásölurisarnir (eða ætti maður kannski að hafa þetta bara í eintölu?), verði fljótir að taka til á markaðnum, og ég er nokk viss að úrvalið verði ekki meira en nú og stórefa að verðið verði lægra.
Það er reyndar hugsanlegt að Costco hjálpað aðeins til, óvíst að það muni miklu.
ls (IP-tala skráð) 9.5.2021 kl. 09:43
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er heldur ekki mitt að dæma um hvort að þessi "frakka vefverslun" er lögleg eða ekki.
Til þess höfum við dómstólana. Ég er fyrst og fremst að benda á hvernig þetta "flúttar við" núverandi ástand.
Hafir þú tekið þátt í útvarpsrekstri í "Stóra BSRB verkfallinu" árið 1984, lék engin vafi á því að um lögbrot hafi verið af þinni hálfu. Þú ert sekur maður :-)
Valdstjórnin lokaði enda útvarspstöðvum á því tímabili.
Það kemur mér hins vegar meira á óvart að þú skulir hafa tekið þátt í því að grafa undan "rekstrargrundvelli" RUV. :-)
Það er útbreidd skoðun að verkfallið ´84 og rekstur útvarpsstöðva þá, hafi stuðlað að samþykkt nýrra útvarpslaga 1985.
Ríkið hefur aðeins einkarétt á smásölu áfengis (það var t.d. ekki tilfellið árið 1984), það eru all mörg ár síðan einokun í heildsölu var afnumin. Þar ríkir samkeppni, en ekki hefur orðið vart við að tegundum hafi fækkað, eða drykkja t.d. ungmenna aukist. Á sama tíma hefur vínveitingahúsum fjölgað svo líklega nálgast veldisvöxt.
Síðan hefur innflutningur alltaf verið "frjáls" og ÁTVR hefur aldrei flutt inn það áfengi sem það selur. Innflutningur einstaklinga er jafnframt frjáls, og þar kemur vefverslun til sögunnar, sem hefur gjörbreytt landslaginu síðast liðin 20. ár eða svo.
Þar kemur svo "frakka vefverslun" til sögunnar, eina sem sker hana frá öðrum verslunum er lagerhaldið. Er bannað að halda áfengislager á Íslandi? Ekki svo að mér sé kunnugt um.
Þetta er bara eitt dæmi (að mínu mati) að lög hafa ekki breyst í takt við framfarir, t.d. í tækni og flutningum. Það sama átti við að mörgu leyti um útvarpslögin á sínum tíma
Hvað er til ráða? Herða lögin, eða beygja sig fyrir því að tímarnir hafa breyst?
@ls, þakka þér fyrir þetta. Íslenskur markaður er þess eðlis á flestum sviðum að það verða sjaldnast tugir eða hundruðir aðila sem berjast.
Þó er samkeppni oft virkari en ætlað er.
Samkeppni í áfengissölu á Íslandi verður aldrei "hatrömm", vegna þess að skattar eru það stór hluti verðsins, að smásalar hafa afar lítið svigrúm.
En ég tel að ef áfengissala verði gefin frjáls á Íslandi muni hún vissulega breytast, en samkeppni mun líklegast aukast og það sama mun gilda um úrvalið.
Verð mun varla lækka mikið (vegna hárra skatt), þó að einstaka tilboð komi til sögunnar.
En það gæti vel hugsast að úrval af því áfengi sem hægt væri að "handfjatla" fyrir kaup myndi dragast saman.
En það er í mínu huga nokkuð ljóst að allt það áfengi sem er t.d. í boði á vínveitingahúsum, verður jafnframt í boði fyrir almenning. Vefverslanir myndu sjá til þess.
Sú er í raun ekki staðan í dag.
Costco er auðvitað merkileg verslun, en byggir sjaldnast á því að bjóða upp á mikið úrval í hverjum geira. Costco byggir sömuleiðis lítið eða ekkert á vefverslun á Íslandi, ef ég hef skilið rétt. En vefverslun þeirra t.d. á Bretlandi býður upp á þokkalegt úrval ágætt verð.
https://www.costco.co.uk/Wines-Spirits-Beer/c/cos_22
G. Tómas Gunnarsson, 9.5.2021 kl. 14:36
Já ég hef lagt mitt litla lóð á vogarskálarnar til að hnekkja á einokun ríkisins - geri aðrir betur!
Varðandi áfengisverslun þá verð ég að viðurkenna að úrval og aðgengi að áfengi er hérna margfalt meira en ég hef nokkra þörf fyrir og ég óttast að ef þetta verður "gefið frjálst" muni framboð minnka, aðgengi verða erfiðara og verð hækka. Ekki vegna skatta heldur vegna þess að smásalar munu vilja fá eitthvað fyrir snúð sinn.
Reynda munu flestir fara á hausinn fljótlega því að þeir munu ekki eiga roð við Ríkinu. Þessi gaur útá Granda verður hættur fljótlega og málið gleymist.
Þetta er stormur í vínglasi. Eins með þetta eins og Rúv af auglýsingamarkaði, þarna er verið að berjast af tómri tilgerð fyrir einhverri ídeólógíu fremur en praktískum umbótum fyrir neytendur.
Kristján G. Arngrímsson, 9.5.2021 kl. 16:26
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Þú lagðir ekki aðeins þitt littla lóð á vigtina til að hnekkja einokun ríkisins, heldur dugði lóðið líka til að hnekkja valdi verkalýðsfélags til að hafa kverkatak á ljósvakamiðlun á Íslandi.
Fyrir það eru borgarar landsins þér eilíflega þakklátir. :-)
Málið er Kristján, að þetta snýst ekkert um þína þörf eða mína.
Þetta einstaka mál snýst í raun um að innlendar vefverslanir njóti sömu réttarstöðu og erlendar.
Sumum kann að finnast þægilegt að versla áfengi á sunnudögum, það er ekki allir jafn skipulagðir í áfengis innkaupum og þú.
Öðrum kann að þykja gott að kaupa bjór frá littlum framleiðenda á Norðurlandi, sem ekki hefur fengið náð hjá innkaupstjóra hins opinbera. Enn annar vill helst kaupa bjór frá Stöðvarfirði, þar sem hann ólst upp.
Út af hverju er meira úrval á vínveitingahúsum en í "Ríkinu"? Ekki nauðsynlega á hverjum stað fyrir sig, heldur í heildina?
Vegna þess að innflutningur er frjáls, en smásalan ekki.
En það er lang líklegast að allar þær tegundir sem fást á veitingahúsum og fleiri til, yrðu til sölu í vefverslunum. Þannig myndi úrvalið aukast.
En það gæti dregið úr úrvali í "physical" verslunum.
Vefverslanir gera líka sitt til að minnka líkur á verðhækkunum. Tilkostnaður er minni, og samkeppnin harðari.
En sjálfsagt munu einhverjir fara á höfuðið, það er eðlilegur gangur lífsins.
Svo verður líka fróðlegt að fylgjast með, ef starfsemi "frökku vefverslunarinnar" gengur vel, hvort að innflytjandanum verður refsað að hálfu "innkaupastjóra hins opinbera" eður ei?
G. Tómas Gunnarsson, 9.5.2021 kl. 16:46
Að hugrakkur einstaklingur hafi lagt á sig mikla vinnu og hætti jafnvel á ofsóknir yfirvalda er lofsvert.
Að það megi kaupa neysluvöru X frá fleiri en einum aðila er frábært.
Langminnugir og langlífir muna vel eftir allri umræðu um litasjónvarp, frjálst útvarp, afnám mjólkurverzlana ríkisins og sölu ríkisins á sementsverksmiðju. Öllu þessu fylgdu nákvæmlega sömu yfirlýsingarnar og heyrast núna um veikara ÁTVR en ekkert rættist og enginn saknar neins.
Geir Ágústsson, 9.5.2021 kl. 17:29
Ég geri mér vel grein fyrir því að þetta snýst ekki um mínar langanir og þarfir. Enda ekkert að marka mig í sambandi við áfengi.
Þetta snýst ekki heldur um praktíska hluti eins og aðgengi og úrval. Þetta snýst um eitthvað prinsipp og ídeólógíu og hvorttveggja er alveg einnar messu virði.
En að þetta sé eitthvað sem þarf nauðsynlega að berjast fyrir til að bæta hag landsmanna er náttúrulega bara della. Áfengi er lúxus. Ergo, þetta er lúxusvandamál sem sumum finnst skipta máli.
Svo má kannski nefna að skv. rannsóknum eykur aðgengi að áfengi áfengisvanda. Og að því marki sem áfengi er ekki lúxus þá er áfengi böl. Að sumu leyti finnst mér það eigingirni að vilja auka aðgengi að áfengi vegna þess að með því er maður að skerða lífsgæði þeirra sem verða áfenginu að bráð.
Kristján G. Arngrímsson, 9.5.2021 kl. 18:32
Þetta sagði Landlæknir 2015, bendi sérstaklega á 7. málsgrein:
https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item26458/aukid-adgengi-ad-afengi-aukinn-skadi
Kristján G. Arngrímsson, 9.5.2021 kl. 18:38
@Geir, þakka þér fyrir þetta. Þetta er merkilegt mál og verður fróðlegt a fylgjast með framhaldi þess.
En mér best vitanlega rak ríkið aldrei mjólkurverslanir. Það gerði Mjólkursamsalan (eða eitthvað álíka batterí).
Enda man ég sem ólst upp á Akureyri, aldrei eftir mjólkurverslunum nema í stopulum heimssóknum til Reykjavíkur. Mjólkin var seld í kjörbúðum á Akureyri, enda var það óhætt, vegna þess að KEA átti flestar kjörbúðirnar.
Kókómjólk, svo dæmi sé tekið, var einungis hægt að njóta í höfuðborgarferðunum, enda "stórhættulegt" að flytja mjólkurvörur á milli svæða mjólkurbúanna.
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Auðvitað snýst þessi umræða að öðrum þræði um "prinsipp", en ekki hvað.
Þetta snýst t.d. um það "prinsipp" að fyrst Íslendingar geta löglega verslað áfengi frá vefverslunum í Brussel og Bordeaux, þá geti þeir einnig verslað við vefverslun í Bolungarvík, nú eða bara í Breiðholtinu.
Persónulega finnst mér það "prinsipp" sem vert er að standa á bakvið.
Rétt eins og það var ákveðið "prinsipp" að það þyrfti ekki að fara til útlanda, vinna á fragtskipum eða í flugbransanum, til þess að geta drukkið bjór.
Áfengi er "lúxus" á Íslandi og víða um lönd. Annars staðar er þetta frekar hversdagsleg landbúnaðarvara og alls ekki dýrt.
Hefur áfengisvandamál á Íslandi stóraukist með stórauknu aðgengi á þessari öld?
Bæði hefur sölustöðum fjölgað gríðarlega (jafnvel ríkifyrirtæki láta stundum undan þrýstingi) og svo hefur veitingastöðum með vínveitingaleyfi fjölgað allt að í veldisvexti um allt land.
Þrátt fyrir það ber öllum t.d. saman um að unglingadrykkja hafi stórminnkað og sé t.d. ekki svipur hjá sjón samanborið við það þegar við vorum unglingar.
En hvað skyldi þeim stöðum sem selja áfengi hafa fjölgað síðan?
Er meira áfengisvandamál í öllum þeim löndum sem hafa frjálslegra sölufyrirkomulag en Ísland? Sem er nota bene að ég tel svo gott sem öll lönd heims, nema þar sem lög Islam gilda.
G. Tómas Gunnarsson, 9.5.2021 kl. 19:54
Fögnum framtakinu. Kannski tekur einhver upp á því að bjóða Nolly Prat I netverslun. Betra seint en aldrei.
Ragnhildur Kolka, 9.5.2021 kl. 23:07
@Ragnhildur, þakka þér fyrir þetta. Tek undir með þér, framtakinu ber að fagna.
Hvað Nolly Prat varðar, þá er það ekki minn tebolli, en það eru meiri líkur á þvi að það verði í boði á Íslandi, ef innlendar vefverslanir verða leyfðar, en "innkaupa- og framboðsstjóri ríkisins" fær frí.
Þú getur auðvitað pantað það frá erlendum vefverslunum, hið opinbera og landlæknir eru ekki enn búin að ná að banna það, hvað sem síðar verður.
G. Tómas Gunnarsson, 10.5.2021 kl. 00:26
Ég treysti mér ekki í debatt um það hvort áfengisvandi hefur aukist á Íslandi undanfarna áratugi. Vísa bara í það sem Landlæknir segir. Ég held að það sem hann segir byggi á rannsóknum sem eru áreiðanlegri grundvöllur en það hvað mér sýnist og hef á tilfinningunni.
Svo gæti kannski SÁÁ veitt upplýsingar um hvort vandinn hefur aukist.
Kristján G. Arngrímsson, 10.5.2021 kl. 07:03
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég hef ekki þessar tölur heldur og hef ekki tíma til þess a leita að þeim.
En Ísland er með einhverjar mestu takmarkanir á sölu áfengis sem þekkist. Skattar á áfengi á Íslandi eru með þeim allra hæstu, ef ekki hæstu sem þekkjast.
Hefur þú heyrt talað um að áfengisvandamál sé minna á Íslandi en í öðrum löndum?
Ef ekki, eru þá skattar og takmarkað aðgengi ekki að virka?
Eða eru aðrir kraftar að verki?
Hvers vegna hefur dregið úr unglingadrykkju? Ég held að flestir ef ekki allir séu sammála um það.
G. Tómas Gunnarsson, 10.5.2021 kl. 11:42
Þetta er einfaldlega gott framtak. Eins og það var gott framtak hjá Kristjáni og Hannesi Hólmsteini á sínum tíma að stofna ólöglegar útvarpsstöðvar. Mig minnir reyndar að Hannes hafi verið dæmdur. Varst þú dæmdur Kristján?
En vínverslunin hugsa ég að sé alveg lögleg. Fyrirtækið er franskt og hefur jafn mikla heimild til að selja til Íslands og hvert annað erlent fyrirtæki hefur.
Þorsteinn Siglaugsson, 11.5.2021 kl. 19:50
Ég var ekki dæmdur fyrir þetta, enda bara fótgönguliði. Það er sem skemmtilegt við þetta er að það var málgagn Framsóknarflokksins sem stóð að þessar lögleysu, með ritstjórann í fararbroddi.
Vinur minn og Alþýðubandalagsmaður stóð að samskonar lögbroti á Ísafirði og var ef ég man rétt amk. ákærður, ef ekki dæmdur.
Kristján G. Arngrímsson, 12.5.2021 kl. 08:50
@Þorteinn, þakka þér fyrir þetta. Líklega munum við sjá þetta fyrir dómstólum, líklega í fleiru landi en einu.
@Kristján, þakka þér fyrrr þetta. Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra þegar þetta gerðist (ef ég man rétt), ég er næsta viss um að Framsókn hafði sömuleiðis Dómsmálaráðuneytið.
Það gæti útskýrt að Framsóknarmenn hafi ekki verið kærðir, en sótt að Allaböllum. LOL
Þannig að ekki eingöngu hefur þú brotið lög og einkrétt RUV, sem og tekið þátt í að brjóta á bak kverkatak verkalýðsfélaga á ljósvakamiðlum (BSRB) heldur sýnist mér þú einnig hafa verið innvinklaður í pólítíska spillingu á unga aldri.
Þetta er nú ekki jákvætt að hafa á CVinu. Ég er ekki hissa þó þú hafir ekki fengið nema sumarvinnu á RUV. Þeir hafa líklega komist að þessu.
Ég myndi ekki voga mér að fara í framboð með þetta á bakinu.
Svo talar þú um að ofan í kaupið að þú sérst að flytja í Kópavog. Líklega í úthverfi.
Ég sé gasgrill og góðar kvöldstundir í framtíð þinni. Það er er ekki gott fyrir vinstrimenn eins og þig.
G. Tómas Gunnarsson, 14.5.2021 kl. 00:51
Eiginlega magnað hvernig þér tekst þarna í fáum orðum að súmmera upp mitt pólitíska líf - sem hefur greinilega verið mun dramatískara en ég hafði gert mér grein fyrir!
Og augljóst að mitt raunverulega pólitíska heimili er í Framsóknarflokknum.
Kristján G. Arngrímsson, 14.5.2021 kl. 08:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.