7.5.2021 | 16:54
Söguleg en ekki svo óvænt úrslit í Hartlepool
Það eru vissulega söguleg úrslit að Íhaldsflokkurinn skuli hafa unnið yfirburðasigur í aukakosningum í Hartlepool, en ekki svo óvænt.
Allt frá því að kjördæmið varð til (um miðjan 8. áratuginn) hefur Verkamannaflokkurinn unnið þar sigur. Mér skilst að Íhaldsflokkurinn hafi síðast átt þingmann á því sem getur kallast "svæðinu" á Bítlatímabilinu.
En úrslitin eru ekki óvænt að því marki að skoðanakannanir höfðu bent til þessara niðurstöðu um langan tíma.
En úrslitin eru mikið áfall fyrir Verkamannaflokkinn og sýnir veika stöðu hans.
Það má segja að enn einn steinninn sé horfinn úr "rauða veggnum", jafnvel einn af "hornsteinunum".
Verkamannaflokkurinn virðist aldrei hafa haft möguleika á því að vinna baráttuna í þetta sinn. Þeir buðu fram yfirlýstan "Sambandssinna", en Hartlepool var "Brexit" svæði með all nokkrum mun.
Verkamannaflokkurinn er ekki í öfundsverðri stöðu, flokkurinn var í sárum eftir formannstíð Corbyn og Starmer hefur ekki náð að stýra honum á rétta braut.
Reyndar má segja að "verkalýðsflokkar" víða um heim, ekki síst í Evrópu, hafi átt erfiða daga á undanförnum árum.
Sósísalistaflokkurinn í Frakklandi er ekki svipur hjá sjón, það sama gildir um Sósíaldemókrata í Þýskalandi og á Norðurlöndunum eiga Sósíaldemókratar jafnframt misjafna daga.
Það er deilt um hvað veldur.
Breski Verkamannaflokkurinn á í miklum erfiðleikum sérstaklega utan stórborganna. Hann hefur þó ekki misst sambandið við verkalýðshreyfinguna, sérstaklega herskárri hluta hennar.
En margir vilja halda því fram að það sé flokknum ekki til framdráttar.
En gærdagurinn var mikill kosningadagur í Bretlandi og kosið til sveitarstjórna víða, kosið til þings í Skotlandi og Wales.
Það verður fróðlegt að sjá hvort að einhver heildarmynd sjáist þegar fleiri úrslit koma í ljós.
Óvænt úrslit í Hartlepool | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Saga, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Hvað veldur því að "alþýðuflokkar" eiga svona mikið undir högg að sækja núna? Þeir eru sosum ekki "alþýðuflokkar" lengur nema að nafninu til, þ.e. kjósendur þeirra eru ekki lengur alþýðan, sbr. úrslitin sem þú vísar til.
Hverjir eru þá kjósendur "alþýðuflokka" núna? Og hvaða flokka kýs hin eiginlega alþýða núna? Var það ekki einmitt "alþýða" Bretlands sem kaus með Brexit, og kýs núna Íhaldsflokkinn?
Tek fram að ég hef ekki svör við þessum spurningum, þetta eru bara vangaveltur.
Kristján G. Arngrímsson, 7.5.2021 kl. 20:34
"Alþýðuflokkarnir" hafa verið að fjarlægjast alþýðuna undanfarið. Sumir kenna Twitter um, þar sem pólitíkusar tala við umbjóðendur... en ekkert nauðsynlega besta þverskurð þeirra.
Hér er breti að reyna að útskýra þetta: https://www.youtube.com/watch?v=ctd0S2BVpDo
Myndrænt gert, og með breiðum pensli, en... já.
Ásgrímur Hartmannsson, 8.5.2021 kl. 00:07
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Eins og oft er erfitt að hefja vangavelturnar án þess að velta fyrir sér hugtökunum og merkingu þeirra.
Hvað er alþýða? Hvað er almenningur? Hvað er verkalýður? Hvað er launþegi?
Og hver er munurinn á þessum hugtökum?
Hver er munurinn á launþega og verkalýð?
Því þó að ennþá megi heyra talað um verkalýðsfélög, þá hafa launþegasamtök verið að taka hægt og rólega yfir.
Er Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi formður BHM, fyrrverandi ráðherra, væntanlegur frambjóðandi Samfylkingarinnar að koma frá verkalýðsfélagi eða launþegafélagi?
Er mikið af "alþýðufólki" í BHM?
Breski Verkamannaflokkurinn er leiddur af Sir Keir Starmer, öðluðum lögmanni.
Arftakar Íslenskra "alþýðuflokka" eru leiddir af Íslenskufræðingi og arkitekt.
Segir það eitthvað? Er ekki stærri og stærri partur þjóðarinnar launþegar, þó að hann sé ekki nauðsynlega verkalýður?
Var ekki Sjálfstæðisflokkurinn um langt árabil talinn "næst stærsti flokkurinn" í verkalýðshreyfingunni?
Er 48% (eða þar um bil) kjósenda í Bretlandi "ekki alþýða"?
En auðvitað var það ekki "alþýðan" sem kaus með Brexit og "elítan" sem kaus á móti.Það er langt síðan veröldin hætti að vera svo einföld.
Þessi "svart/hvíta" umræða á ef til vill ekki við lengur.
Er ekki þekktasti sósíalisti á Íslandi forstjóri útibús "Ammerísks auðhrings" á Íslandi?
Allir flokkar á Íslandi hafa umhverfisvernd á stefnuskránni, þó með mismiklum áherslum.
En risafjárfestir sem þykir vænt um náttúruna, hvaða flokk ætti hann helst að styðja?
En það er vert að velta þessum málum fyrir sér, þó að það sé erfitt að komast að niðurstöðu.
@Ásgrímur, þakka þér fyrir þetta. Já, þeir eru vissulega breiðir penslarnir, en það má hafa gaman af þessu.
Og undir gríninu er gjarnan líka alvara.
G. Tómas Gunnarsson, 8.5.2021 kl. 02:05
Þú átt hrós skilið fyrir að vilja ekki hefja umræðu áður en grundvallarhugtök eru á hreinu. Betur að fleiri hefðu þetta í huga.
En um leið verðum við að gæta okkar á "paralysis by analysis" (að lamast af skilgreiningum?). Reyndar er ég ekki frá því að talsvert af umræðum um Covid hafi aldrei orðið að neinu því að þær drukknuðu í skilgreiningadeilum, en það er önnur saga.
Kannski er athyglisvert að skoða viðbörgð Sirs Kýrs við tapinu í Hartlepool - hann ákvað að flytja höfuðstöðvar flokksins frá London.
Er þetta kannski spurning um hvar maður býr? Án þess ég viti það nákvæmlega held ég að sterkustu vígi Samfylkingarinnar séu vestasti hluti Reykjavíkur. Hverjir búa þar? Mikið af verkalýð? Það held ég ekki.
Þetta með Þórunni Sveinbjarnar - ef ég man rétt er hún úr Fossvoginum, einu af dýrari hverfum borgarinnar.
Svo getum við náttúrulega bara litið á þetta sem efnahagspóla - er maður fylgjandi einkaframtaki eða náðarfaðmi hins opinbera?
Kristján G. Arngrímsson, 8.5.2021 kl. 08:48
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Auðvitað er það ekkert endilega alltaf í boði að fresta umræðu þangað til "staðlaráð hugtaka" hefur lokið yfirferð sinni.
En ég væri náttúrulega tilvalinn til skipunar í það. :-)
En það er líklegt að umræðan fari "út og suður", ef skilningur á hugtökum þeirra sem taka þátt er með mismunandi hætti. Er að ekki það sem gerist oft á tíðum?
Allt tal um alþýðu, almannahagsmuni, almenning sem er algerlega á móti þessu eða hinu o.s.frv.
Alþýðuflokkurinn átti í gamla daga síður fylgi í dreifbýliskjördæmunum, það hefur varla verið vegna þess að þar byggi ekki alþýða. Hann var m.a. leiddur af prófessorum og bankastjórum og gekk þokkalega þó að hann hafi aldrei talist stór flokkur á þess tíma mælikvarða.
Ég held að svo gott sem enginn flokkur afneiti einkaframtakinu eða hinu opinbera.
Þetta er allt spurningin um "réttu blönduna". Svona eins og með G&T.
Svo er þetta líka spurningin um "stéttirnar" og þjóðina (eða þannig). Á verksmiðjustarfsmaður í Hartlepool meira sameiginlegt með verksmiðjustarfsmanninum í Rúmeníu en samlöndum sínum í öðrum "stéttum"?
Að einhverju marki gaf "Hjartartjarnarfólk" svar sitt við því í "Brexit" kosningunum.
Aðrar "stéttir" voru annarar skoðunar. En auðvitað kaus engin "stétt" sameiginilega og ef til vill er allt "stétta" tal vitleysa?
Í Bretlandi er þetta svo að einhverju marki (þó erfitt sé að segja hve miklu) Boris að þakka. Hann hefur náð Íhaldsflokknum upp, meira og betur en flestir spáðu.
Hann virðist hafa eitthvað "touch" sem erfitt er að útskýra, sumir stjórnmálamenn "hafa það".
Oft hefur svo verið sagt að Bresk stjórnmál hafi mikil áhrif á Íslandi, ég hef ekki mikla tilfinningu fyrir því nú.
En sósíaldemókratar eru víða að breytast. Það verður líklega ekki langt í að Samfylkingarfólk getur ekki verið í sama herbergi og þingmenn frá "systurflokkum" þeirra á Norðurlöndunum og ganga út.
Þannig hafa stefnumál t.d. hvað varðar útlendinga- og hælisleitendamál skipast.
Breyturnar í þessu eins og öðru eru ótal margar, mun fleiri pólar en á jörðinni og þeir hreyfast gjarna hraðar en auga má á festa.
G. Tómas Gunnarsson, 8.5.2021 kl. 14:15
Það má svo bæta því við hér að nú þegar úrslit eru að koma víðar að í Sameinaða konungsdæminu, virðist sem svo að "valdaflokkarnir" hafi allir komið vel út.
Það er að segja Íhaldsflokkurinn vinnur mjög góðan sigur á Englandi, allt stefnir í býsna stóran sigur Skoska þjóðarflokksins og Verkamannaflokkurinn heldur völdum í Wales, sem getur vart talist annað en góður sigur sé litið til hinna landanna.
Eftirtektarverður sigur ríkjandi stjórnvalda í öllum tilfellum.
Er það út af faraldrinum?
Þegar má rekast á útskýringar í þá átt hvað varðar úrslitin í Wales. Þar hafi leiðtogi Verkamannaflokksins staðið sig vel og fengið meira sviðsljós en ella vegna faraldursins.
En líklega verði þessi úrslit "krufin" víða og vandlega.
G. Tómas Gunnarsson, 8.5.2021 kl. 14:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.