Neysluskammtar, lögleiðing og sérfræðingar

Ég get tekið undir þá skoðun að það hljómi skringilega ef 18 ára unglingur er gripinn af lögreglu með 6. g af "grasi" og kippu af bjór, þá sé kippan tekin af honum en grasið ekki.

Cannabis taxed containerEn það sýnir ef til vill að viðhorf til áfengis er óþarflega strangt.

Það má líka velta því fyrir sér hvort hvort að afglæpavæðing er fyrst og fremst hugsað sem skref til lögleiðingar t.d. kannabisefna, eða hvort þar á að láta staðar numið?

Er rökrétt að löglegt sé að hafa í fórum sínum efni sem keypt er af lögbrjótum?  Því einhver þarf að brjóta lögin til að koma efnunum á markað, óháð því hvort að "neysluskammtar" eru löglegir eður ei.

Svo kemur spurningin hvað er neysluskammtur? Er hann mismunandi eftir ólíkum efnum?

Verður gefin út skrá yfir "löglega neysluskammta" af öllum hugsanlegum ólöglegum fíkniefnum?

Það má nefna að í Ontario Kanada, þar sem kannabis er löglegt, má þó ekki eiga, eða panta, meira en 30g af því einu.  Eigin ræktun er leyfð, en ekki mega vera fleiri en 4 plöntur í íbúð.

Þar rekur hið opinbera-fylkið, vefverslun og heildverslun með kannabis.

Þar er mikið úrval af alls kyns efnum, sælgæti, drykkjum og öðru "dóti".

Ef ég hef skilið rétt er "same day express" heimsending í boði.

Quebec er svo með sína vefverslun og svo eru einkaaðilar með verslanir víða um fylkin.

Rétt eins og er með áfengiskaup, miðast kannabiskaup við 19. ára aldur.

Nú eru ríflega 2. ár síðan kannabis varð löglegt í Kanada.  Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um hvernig til hefur tekist, en heilt yfir held ég að nokkur sátt ríki. Ég hef ekki heyrt neinn berjast fyrir því að efnið verði bannað aftur.

Ég sá að talað var um að hlutdeild hins opinbera í sölunni væri nú komin yfir 50% og ykist jafnt og þétt, eftir því sem fleiri kæmust upp á lagið með að notfæra sér löglega söluaðila, sem byðu upp á meira úrval og öryggi, en hærra verð.

Árangurinn er þó eitthvað misjafn eftir fylkjum. Ontario hefur að talið er markaðshludeild undir meðallagi, að í kringum 40%, en er samt stærsti aðilinn á Kanadamarkaði.  Ontario hefur selt kannabis fyrir u.þ.b. milljarð dollara (CAD) á þeim ríflega 2. árum sem lögleg sala hefur farið fram.

Það er rétt að taka fram að eftir sem áður gilda takmarkanir um hvar megi neyta kannabisefna.  Það vakti t.d. athygli mína að bannað er að neyta kannabisefna á íþróttasvæðum í opinberri eigu, nema á golfvöllum.

Heilt yfir held ég að lögleiðingin hafi ekki haft miklar neyslubreytingar í för með sér.  Vissulega er algengara að sjá neyslu t.d. ef farið í "í bæinn" um helgi.  Jafnvel má sjá neyslu á svölum eða sólpöllum. En það þýðir ekki að neysla hafi aukist heldur er ekki þörf fyrir feluleik eftir lögleiðingu.

En það að eitthvað sjáist ekki, þýðir ekki að það sé ekki til staðar.

Ég held að það sé þarft að ræða þessi mál á Íslandi. Þessi tillaga um afglæpavæðingu er þarft innlegg í þá umræðu.  Ekki þar með sagt að einhver "erlend leið", sé það sem sé best, eða hægt sé að yfirfæra það sem ákveðið hefur verið annars staðar í heild sinni til Íslands.

En miðað við hvað ég heyri, hefur baráttan gegn fíkniefnum ekki borið árangur á Íslandi undanfarna áratugi, hvorki fyrir né eftir að barist var fyrir "fíkniefnalausu Íslandi 2000".

Myndin er af kannabis dós með innsigli hins opinbera í Quebec.

 


mbl.is Sammála sérfræðingum um áfengi en ekki fíkniefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"íþróttasvæðum í opinberri eigu, nema á golfvöllum"

Enda er golf ekki íþrótt heldur gönguferð með stigagjöf. :)

Guðmundur Ásgeirsson, 6.5.2021 kl. 13:46

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur, þakka þér fyrir þetta. Blanda mér ekki í deilur um golf "íþróttina" en þetta vakti vissulega athygli mína.

Get talið þau skipti sem ég hef spilað golf á fingrum annarar handar, man ekki eftir að hafa leiðst út í slíkt án þess að bjór væri með.

G. Tómas Gunnarsson, 6.5.2021 kl. 16:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband