Að banna "alla vitleysu"

Nú er komið fram á Alþingi frumvarp um að banna að draga Helförina í efa, sð segja hana ekki hafa átt sér stað, eða gera lítið úr henni.

Í sjálfu sér held ég að fáir séu innst inni á móti slíku.

En er hægt að banna vitleysu?

Nú er ég í engum vafa um að Helförin átti sér stað og hef komið á nokkra af þeim stöðum sem hún átti sér stað á.

En eigum við að festa í lög að bannað sé að hafna öllum atburðum í mannkynssögunni sem við teljum hafna yfir allan vafa?

Yrði ekki listinn æði langur?

Ættu þjóðir ef til vill að gefa út "sögubækur" og bannað yrði að víkja frá þeim?

Ég held ekki.

Ættu Íslendingar (eða aðrar þjóðir) að banna að afneita Holodomor, það er þeirri hungursneyð sem Sovétríkin ullu visvitandi í Ukraínu á 3ja áratug síðustu aldar og kostaði milljónir einstaklinga lífið?

Almennt er þessi viðurstyggilegi atburður talinn staðreynd í dag, en þó eru ýmsir sem enn afneita honum.

Hér má lesa um slíka afneitun, frá árinu 2019.

Ætti að banna að afneita þjóðarmorði Tyrkja á Armenum árið 1915?

Það má lengi halda áfram, enda nægur efniviður um hroðalega atburði og fjöldamorð í mannkynssögunni.

Hvernig eigum við að taka á öllum þeim sem neituðu að fjöldamorðin í Kambódíu (Kampucheu) hefðu átt sér stað?  Ég held þó að slík söguskoðun hafi að mestu látið undan síga.

Ætti hið opinbera að taka afstöðu um  þjóðarmorð Kínverskra stjórnvalda á Uigurum og banna að öðru sé haldið fram?

Ég get alveg viðurkennt að þeir sem afneita Helförinni fara í taugarnar á mér og ég eiginlega afskrifa þá um leið í allri umræðu.

Það þýðir ekki að ég telji þá eiga fangelsisvist skylda.

Það sama gildir um þá sem afneita eða vilja gere lítið úr glæpum kommúnista.

Ég hef hvorki mælst til þess að hakakrossinn eða að hamar og sigð séu bönnuð.

Hakakrossinn á sér merkilega sögu, þó að viðurstyggileg verk nazista kasti dökkum skugga á hann.

Ég get hins vegar í huga mér enga jákvæða tengingu fundið fyrir hamar og sigð, þó hefur á undanförnum árum mátt sjá ýmsa Íslendinga skreyta sig (eða kökur) með því tákni.

En ég er ekki talsmaður þess að það yrði bannað eða varðaði fangelsisvist.

Það er einfaldlsega ekki lausn að banna "alla vitleysu", þar eru rök og fræðsla verkfæri sem duga betur.

Það má til dæmis velta því fyrir sér hvort að fræðsla um Helförina eða glæpi kommúnismans sé næg á Íslandi.

P.S. Bæti hér við að t.d mætti hugsa sér að Menntamálaráðuneytið kæmi á fót farandsýningum, t.d. um Helförina, glæpi kommúnismans og fleiri stóra atburði sögunnar.

Þessar sýningar yrðu síðan á stöðugt færðar á milli framhaldsskóla Íslands.  Hring eftir hring.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég spur nú bara eins og fávís. Er þetta eitthvað aðkallandi vandamál sem er að valda skaða i samfélaginu? Er þetta kannski bara "virtue signaling" tik heimabrúks fyrir þessa þingmenn.

Menn hafa fáránlegustu skoðanir og kenningar án nokkurra raka. Þeir dæmast yfirleytt af orðum sínum og æði. Það er ekki eins og þessir vitleysingar sanki að sèr stórum fylgjendahóp og skapi hættu, hvort sem það er afneitun á helför eða tunglferðir. Væri kannski réttara að ganga alla leið og banna vitleysinga. Þeir hverfa ekki við það samt.

Samsæriskenningar eru ekki smitandi. Það sýnir sig í því að það er nánast enginn sem heldur svonaa kjaftæði à lofti. Eina sem þetta gerir er að vekja forvitni og kynda undir slíku rugli. 

Ef eitthvað er skaðlegt þá er það svona lagasmíð. Hálfgerður Streisand effect að vekja máls á einhverju sem ekki má ræða né fólk hafi hugmynd um að fyrirfinnist. Garanterað til þess að allir fari að ræða það og þekkja.

Hélt að það lægju þyngri mál á borðum en svona non issue.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2021 kl. 04:02

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Næst verður það svo líklega bann við afneitun á hamfarahlýnun og svo koll af kolli. Hugsanalögreglan safnar vopnum sínum. 

Jón Steinar Ragnarsson, 20.1.2021 kl. 04:08

3 identicon

Væri kannski réttara að ganga alla leið og banna vitleysinga. 

Hvernig væri það, það myndi alla vega losa okkur við þesas vitleysingja sem eru að setja þetta frumvarp fram...

Líklegast bróðurpartinn af þinginu í leiðinni!!

Ég verð að viðurkenna að það hljómar bara helvíti vel hjá mér.

En þetta er enn eitt af þessu rugli sem kemur frá þessum flokki!

Halldór (IP-tala skráð) 20.1.2021 kl. 08:43

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það dúkkaði upp á facebook hjá mér í morgun auglýsing þar sem spurt var hvort ég vildi kynnast Rósu Björk. Ég varð soldið ringlaður og hélt eitt andartak að ég hefði óvart skráð mig inn á Tinder.

Kristján G. Arngrímsson, 20.1.2021 kl. 09:13

5 Smámynd: Grímur Kjartansson

Það er eitt að afneita algjörlega helförinni og annað að gera athugasemdir við umfang hennar það er að segja hversu margir gyðingar voru líflátnir og/eða sígunar og aðrir óæskilegir.

En manni verður hugsað til Darwinréttarhaldanna. Má afneita þróunarkenningunni því rökstyðja má að hún sé ekki í samræmi við biblíuna

Grímur Kjartansson, 20.1.2021 kl. 11:12

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Steinar, þakka þér fyrir þetta.  Í hugum margra eru alltaf "réttur tími til að banna eitthvað". 

Ég held nú reyndar ekki að Alþingi sé það störfum hlaðið til mikilla vandræða horfi, en það er önnur saga.  Í mörgum tilfellum væri það jafnvel til bóta ef færri lög kæmu frá þinginu.

Ég er líka sammala því að "bann lög" geta virkað í þveröfuga átt. Ég held til dæmis að þau lög sem Pólska ríkisstjórnin hugðist setja um bann við því að segja Pólverja bera einhverja ábyrgð á Helförinni.

Ég veit nú ekki alveg hvernig það endaði, en það dró án efa mikla athygli að hlut Pólverja.  Að því sögðu ber Pólska ríkið eða þjóðin ekki ábyrgð á Helförinni, en vissulega komu Pólskir einstaklingar að framkvæmdinni eins og frá mörgum öðrum þjóðum.

En ég held að bann breyti engu um þær mismunandi söguskoðanir.

@Halldór, þakka þér fyrir þetta.  Íslenskum kjósendum gefst tækifæri til þess í haust að breyta samsetningu Alþingis. 

Ég er nú ekki nema hóflega bjartsýnn á að þær breytingar verði til batnaðar, en vonin er sterkt afl.  lol

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Þú ættir auðvitað að tala við þingmennina þina (úr kjördæminu) og reyna að fá þá til að leggja fram frumvarp um að banna auglýsingar á FaceBook, alla vegna fyrir hádegi. 

En líklega hefur þú sést það oft á þessari síðu að það hefur verið metið svo að þú þyrftir á "hugmyndafræðilegri endurmenntun" að halda.

Það er vert að fara varlega sérstaklega í morgunsárið.

G. Tómas Gunnarsson, 20.1.2021 kl. 11:18

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Grímur, þakka þér fyrir þetta. Það er vissulega munur á því að hafna alfarið Helförinni eða draga umfang hennar í efa.  En þó að vissulega muni líklega seint eða aldrei fást endanleg niðurstaða í þann fjölda sem var myrtur.

En það er komin fram býsna áreiðanlegar niðurstöður, ekki síst byggðar á skýrslum nazistana sjálfra. 

En það má sjálfsagt finna rök fyrir bæði hærri niðurstöðum og eitthvað lægri. 

En umfangið er að mestu ljóst, en enn er verið að rannsaka og stúdera og það koma reglulega nýjar upplýsingar fram.

Hvað varðar þróunarkenninguna, þá hafa einstaklingar verið fangelsaðir vegna hennar, þó að ég held varla fyrir að halda henni fram, heldur fyrir að kenna hana í skólum.

https://www.politico.com/story/2014/05/john-scopes-arrested-for-teaching-evolution-may-5-1925-106325

Ekki beint til fyrirmyndar.

G. Tómas Gunnarsson, 20.1.2021 kl. 12:24

8 identicon

Ætli það verði bannað að benda á líkindi með búsáhaldabyltingunni og mótmælunum og árásinni á þinghús Bandaríkjanna nýverið?

Hvernig þingenn sumir hvöttu lýðinn fram og hvernig áköfustu mótmælendurnir ötuðust og beittu ofbeldi gegn lögreglu og reyndu að komast inn í þinghúsið. 

Í framhaldinu síðan vangaveltur um ábyrgð stjórnmálamannanna sem hvöttu til mótmælanna og hvort sú ábyrgð nær til vandalismans sem átti sér stað í skjóli mótmælanna. 

Miðað við ákafann í fyrrum þingmanni að afneita þessum líkindum og illmælum í garð okkar bestu fjölmiðlamanna fyrir að voga sér að hleypa slíkum röddum að þá er ekki ósennilegt að hann/hún telji réttlætanlegt að banna slíka umræðu. 

Hugsanlega vegna einhvers votts af samviskubiti, vonandi!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.1.2021 kl. 13:56

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni, þakka þér fyrir þetta. Það er í sjálfu sér auðvelt að sejta lög og banna hvað sem er.

Hvort að það skilar einhverjum árangri er allt annar handleggur. Boð og bönn, eru langt frá því að hafa skilað árangri í öllum tilfellum.

Umræður verða ekki stöðvaðar svo auðveldlega.

G. Tómas Gunnarsson, 20.1.2021 kl. 15:21

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sá sem leggur til bann við heimsku er með því að leggja til bann við sjálfum sér. Slík hugmynd er því sjálfdauð í fæðingu.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2021 kl. 20:47

11 identicon

Heimsku er ofurlítið erfitt að skilgreina hlutlægt, rétt eins og skoðanir.

Helförin hefur reyndar dálitla sérstöðu þar sem hún tengist bæði samviskubiti vestur-Evrópu og gyðingahatri, en ekki bara almennu mannhatri eða eigingirni.

En stærsti gallin við að banna eina vonda skoðun er að þá er auðveldara að banna þá næstu (með samanburðarrökfræði, svona rétt eins og að bera saman af hverju eitthvað fær undanþágu frá sóttvarnarreglun en annað ekki...). 

ls (IP-tala skráð) 20.1.2021 kl. 21:18

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Að ætla að banna heimsku, er heimska í sjálfu sér.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2021 kl. 21:21

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur, @ls, þakka ykkur fyrir þetta. Það er erfitt að skilgreina "heimsku", ætli það gildi ekki svipað um hana og klám, það ómögulegt að skilgreina hana, en flestir þekkja hana þegar þeir sjá hana.  LOL

En hins vegar er óvarlegt að dæma alla þá sem halda því fram að Helförin hafi ekki átt sér stað sem heimska, en það getur vissulega verið erfitt að greina á milli.

En það er auðvitað ekki hægt að banna heimsku, en það er hægt að gera hana refsiverða og um það snýst málið um, frekar en annað

En Helförin snertir vissulega samviskubit Evrópu (alls ekki bara Vestur-Evrópu, líklega enn frekar Austur og Mið) og þar með talið Íslendinga, enda gyðingahatur landlægt um alla álfuna, þar með talið á Íslandi.

Það er í raun ekki hægt annað en að skammast sín fyrir samfélagið sem ég ólst upp i, þar sem gyðingur var tvíþætt skammaryrði. Annars vegar um kaupmenn sem þóttu "okrarar" og svo einstaklinga sem þóttu "nískir".

Við vitum líka mikið um hana (ef við kærum okkur um að leita upplýsinga) og "kerfið" sem snerist um hana er um leið "banalt" og skelfilegt.

En nær okkur í tíma eru svo aftur þjóðarmorð á Tútsum í Rúwanda, þar sem á bilinu 500 til 800.000 voru myrtir á u.þ.b. 3. mánuðum.  Allt að hálfri milljón kvenna var nauðgað.

Síðan er stríðið í fyrrum Júgóslavíu mörgum í fersku minni. Það sýndi hvað stutt er í illskuna.

En ég er þó enn þeirrar skoðunar að búa til refsiramma um "vitlausar skoðanir" sé ekki leiðin fram á við.

En það er þarft verk, sem vonandi sem flestir taka þátt í, að berjast gegn þeim.

En eins og í öllu öðru er það ákvörðun hvers og eins (eða ætti að vera) hverju hann berst gegn og hvernig.

En fræðslan hefur er að mínu mati ótvíræða kosti, rétt eins og mér líst að öllu jöfnu betur á að setja gulrót í hendina en svipu.

G. Tómas Gunnarsson, 21.1.2021 kl. 00:20

14 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta er grundvallar mál: Ríkir málfrelsi eða ekki?

Þetta tiltekna mál skiptir í sjálfu sér engu en fordæmið er stórhættulegt: Fái yfirvöld valdheimildir til að takmarka málfrelsið þá er það vegur sem er erfitt að sjá fyrir endann á. Verður bannað að segja ákveðna brandara, svo dæmi sé tekið? 

Nú þegar takmarka lögin málfrelsið á marga vegu, svo sem í því hvað má auglýsa og hvernig. Eru engin mörk?

Geir Ágústsson, 21.1.2021 kl. 15:24

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Geir, þakka þér fyrir þetta. Auðvelt að vera sammála því að um grundvallarmál er að ræða.

En þannig er oft byrjað.

Einfalt að byrja á því að banna eitthvað sem flestir eru jú sammála, svo má hægt og rólega ganga lengra og lengra.

Leiðin til einræðis er yfirleitt vörðuð "góðum áformum".

G. Tómas Gunnarsson, 21.1.2021 kl. 23:49

16 Smámynd: Halldór Jónsson

Er ekki hakakrossinn fornt og hroðalegt kastvopn sem engu eirir sem fyrir verður?

Halldór Jónsson, 22.1.2021 kl. 21:52

17 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Halldór, þakka þér fyrir þetta.  Einhverjir hafa tengt hakakrossin við t.d. hamar Þórs og sagt hann kastvopn.

En hann er mun víðar talinn tákn um hamingju, velgengni og annað jákvætt.

https://is.wikipedia.org/wiki/Hakakross

https://www.bbc.com/news/magazine-29644591

En hakakrossinn hefur í gegnum tíðina verið talinn hafa jákvæðar merkingar, en síðan komu nazistarnir til sögunnar og breyttu sögunni og ímynd hakakrossins.

Það er ekki eins og eitthvað eyðileggjandi, eða hatursfullt hafi tengs stofnun Eimskipafélagsins.

Label from Swastika

G. Tómas Gunnarsson, 23.1.2021 kl. 01:49

18 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég myndi ganga svo langt að segja að nasistar hafi breytt merkingu hakakrossins (ekki bara ímynd hans) til frambúðar. Það er algjörlega merkingarlaust að segja að hakakrossinn sé "í rauninni" eitthvað gamalt tákn - það tákn sem hann kannski var einu sinni er ekki til lengur. Hann verður ekki skilinn frá nasismanum. Þannig að eiginlega finnst mér gott að Eimskip hafi skipt um merki. En það þykir eflaust alveg hroðaleg goðgá og pólitísk rétthugsun.

Kristján G. Arngrímsson, 23.1.2021 kl. 20:18

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Auðvitað er málið umdeilandlegt.  Ekki síst hvort að u.þ.b. 25 ára saga vegi þyngra en árþúsundir?

Og hakakrossinn er enn notaður í sínum forna tilgangi, sú notkun hefur aldrei hætt.  Nazistar notuðu líka rúnir með svipuðum hættt.  Á tímabili olli það rúnaletri ákveðnum "vandræðum" ef svo má að orði komast.

Reyndar má segja að nazistarnir hafi á vissna máta komi ákveðu óorði á norræn fræði, sem síðan ég held að hafi að mestu gengið til baka.

Það er hins vegar eðlilegt að Eimskip hafi skipt um merki og í raun stórmerkilegt að það skyldi ekki hafa verið gert fyrr.

Ég veit ekki hversu oft þú drekkur eða hefur drukkið Heineken bjór. 

Fór rauða stjarnan í taugarnar á þér? 

Persónulega hef ég drukkið Heineken með bestu lyst, þó ég hafi tekið eftir stjörnunni.

En Orban og félögum þótti ástæða til þess að banna vörumerkið, og hugleiddu slíka aðgerð, þó að ég held að til þess hafi ekki komið.

https://www.reuters.com/article/us-hungary-heineken-redstar-idUSKBN16R17K

G. Tómas Gunnarsson, 24.1.2021 kl. 13:12

20 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Í kirkjugarði einum hér á Íslandi er leiði þar sem í stað hefðbundins kross er rauð stjarna og hamar og sigð. Einhverjir veit ég til að hafi látið þetta fara í taugarnar á sér og fundist ósmekklegt.

En væntanlega hefur fengist opinber heimild fyrir þessu. Spurning hvernig færi ef hakakross yrði settur á leiði.

Kristján G. Arngrímsson, 24.1.2021 kl. 15:21

21 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Persónulega finnst mér ekkert að því að "bautasteinn" sé með rauðri stjörnu, hamri og sigð.

En mér finnst það frekar en nokkuð annað skrýtið.

Ég verð nú að viðurkenna að ég þekki ekki nógu vel til Íslenskra kirkjugarða.  Hvar eru þeir grafnir sem ekki eru t.d. kristnir?

Er eitthvað "horn" fyrir slíka einstaklinga?  Ef rauða stjarnan, hamarinn og sigðin er í "tnum hluta", þá er það enn skrýtnara og ef til vill pínu fyndið.

En væri rétt að banna að hakakross væri til dæmis á legsteini hindúa sem grafin væri í Íslenskum kirkjugarði?

Ég teldi það frekar vafasamt. 

Fyrir búddistum er hakakrossinn einnig mikilvægur ef ég hef skilið rétt.

Ég get ekki séð að það þurfi flóknar reglur um hvað megi standa á leiðum, krossar hverrar gerðar sem þeir eru, stjörnur (litur skiptir ekki máli) hamar eða sigð, nú eða hvoru tveggja.

G. Tómas Gunnarsson, 24.1.2021 kl. 16:26

22 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Í þessu sem öðru er umburðarlyndi og víðsýni dygð. En öllu má ofgera. Ef við hefðum hlið við hlið leiði með Davíðsstjörnu annarsvegar og hakakrossi hinsvegar þá veit ég ekki ...

Stundum er haft á orði að það sé vandlifað. En það kemur fyrir að vandinn nái út yfir gröf og dauða. Bókstaflega.

Kristján G. Arngrímsson, 24.1.2021 kl. 17:59

23 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Án gamans: Mér skilst að þeir sem ekki eru kristnir séu hér á landi engu að síður jarðaðir í kirkjugörðum, og þá er sett á leiðið eitthvað annað en kross, t.d. Davíðsstjarna.

Kristján G. Arngrímsson, 24.1.2021 kl. 18:02

24 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég get tekið undir að víðsýni er af hinu góða.

En hvers vegna ættum við að flokka trúartákn í "góð" og "ill"?

Viljum við neita hindúum og búddistum um að nota sín trúartákn, vegna þess að andstyggileg hreyfing nazista tók upp trúartákn þeirra um u.þ.b. 25 ára skeið?

Þurfum við ekki að vera "stærri" en það?

Ætti að vera bannað að skrifa nafn eins og Gissur með rúnaletri?

Væri slíkt bannað t.d. á legstein?

Eða ef einvher héti Ari Sigurður Sölvi Björnsson, mætti þá ekki standa:

Ari S.S. Björnsson með rúnaletri á legstein hans?

Ef til vill ekki stórhætta á slíku, en eins og í svo mörgum tilfellum þá er erfitt að sjá hvar eigi að draga mörkin.

Hakakrossinn þekkist einnig í trú frumbyggja N-Ameríku. 

https://en.wikipedia.org/wiki/Swastika  Hér má lesa ýmsan fróðleik um hakakrossinn og einnig hvernig hann er víða notaður í myndmáli.

G. Tómas Gunnarsson, 24.1.2021 kl. 18:19

25 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég verð að viðurkenna að mig skortir umburðarlyndi fyrir hakakrossinum og væri já til í að banna hann sem eitthvað annað en tákn um illsku. Ég held að hvað sem allri sögu líður og mismunandi menningarkimum þá sé merkinga hakakrossins órjúfanlega bundin við nasisma og þar með illsku. Því miður, mætti alveg segja, því eins og oft er bent á er hakakross gagnmerkt fyrirbæri með mikla sögu. 

En hann er eiginlega ónýtur. Nasistarnir eyðilögðu hann. Svo einfalt er málið í mínum huga. Ef það þýðir að mig skorti umburðarlyndi og víðsýni þá verður bara að hafa það.

Kristján G. Arngrímsson, 24.1.2021 kl. 18:23

26 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Að vissu marki get ég alveg skilið skortinn á umburðarlyndi hjá þér.

En það eru mörg álitamál.

Einhver myndi sjálfsagt segja að um "týpíska sjálfhverfni Everópubúans" væri að ræða, þar sem 25 ára saga hakakrossins í Evrópu réttlæti að banna hann og litið sé fram hjá þúsunda ára menningsögu í Asíu og N-Ameríku.

Það má líka minnast t.d. á Japani sem frömdu mýmörg grimmdarverk í heimstyrjöldinni.  Þeir breyttu ekki einu sinni um fána að henni lokinni. Þó kann það að hafa virkað óþægilega á marga, t.d. Kínverja og Kóreubúa að horfa á fána þeirra.

Það má reyndar halda því fram að Samfylkingin hafi að vissu marki stuðst við sama tákn og Japansli fáninn byggir á um árabil, en hún fékk nýtt merki á síðasta ári.

Saga "táknanna" getur verið margvísleg.

Sjálfsagt finnst mörgum A-Evrópubúanum (og fleirum) Sovétríking og kommúnisminn hafa "eyðilagt" rauðu stjörnuna.  Það var jú það sem Orban og félagar voru að velta fyrir sér með Heineken logóinu.

Ég sé reyndar, svo nefnt sé, mikinn mun á hakakrossinum og hakakrossfánanum.

En í mínum huga varða bönnin ekki leiðina fram á við.

G. Tómas Gunnarsson, 24.1.2021 kl. 20:35

27 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Tek heilshugar undir að ekki sé heppilegt að stjórna með bönnum - og í samræmi við það myndi ég ekki vilja banna bönn. Stundum eiga þau rétt á sér. Að vel rökstuddu máli.

Kristján G. Arngrímsson, 25.1.2021 kl. 08:52

28 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er óþarfi að banna bönn. Bönn eiga sér heimili í umferðarlögum, og auvðvitað lögreglusamþykktum og hegningarlögum.

En bann við trúartáknum, skoðunum og öðru slíku virkar tvímælis og getur opnað "dyr" sem betur eru hafðar lokaðar.

G. Tómas Gunnarsson, 25.1.2021 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband