6.6.2020 | 13:00
Illa upplýstir borgarfulltrúar? Eða einbeittur brotavilji?
Reykjavíkurflugvöllur á sér merkilega sögu og undanfarna áratugi hefur hann verið eitt af stærri deilumálum á Íslandi.
Persónulega get ég vel skilið rök þeirra sem telja þetta eftirsóknarverðasta byggingarsvæðið á höfuðborgarsvæðinu.
En ég get einnig skilið rök þeirra sem vilja halda flugvellinum þar sem hann er. Vegna nálægðar við Landspítalann, vegna góðs aðgengis að miðbæ Reykjavíkur og stjórnsýslu Íslendinga sem er að stórum hluta staðsett þar.
Einnig er kostnaður við uppbyggingu á öðrum flugvelli gríðarlegur og það er vandséð að mínu mati að innanlandsflug lifði af flutning til Keflavíkurflugvallar.
En í landi eins og Íslandi eru flugsamgöngur mikilvægar, ekki síst hvað varðar heilbrigðis- og öryggismál.
Því verður vandséð að hægt sé að leggja niður Reykjavíkurflugvöll án þess að sambærilegur eða betri kostur komi til.
Það er því ólíklegt að þetta deilumál verði til lykta leitt á næstu árum.
En hinir mismunandi "R-lista meirihlutar" sem stjórnað hafa Reykjavík undanfarin áratug eða svo virðast hafa ákveðið að beita "spægipylsuaðferðinni" til að koma Reykjavíkurflugvelli fyrir kattarnef, það er skera af honum sneið eftir sneið.
En fyrir nokkrum dögum rakst ég á umræður um Reykjavíkurflugvöll á Vísi.is, en umræðan fór fram í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni.
Þar tókust á Pawel Bartosek (Viðreisn) fyrir hönd meirihlutans (sem þó hlaut færri atkvæði en minnihlutinn) og Vigdís Hauksdóttir (Miðflokkurinn) fyrir hönd minnihlutans.
Þetta eru fróðlegar umræður og vert að hlusta á.
Ég hef alltaf borið nokkra virðingu fyrir Pawel sem stjórnmálamanni, en í þessu viðtali tókst honum að þurka hana að mestu leyti út.
Hann virðist illa upplýstur, ekki vita (eða vilja viðurkenna) hvað er að er að gerast þegar talað er um flugskýli flugfélagsins Ernis.
Hann vitnar ítrekað í kosningu um flugvöllinn sem fór fram 2001 sem eitthvað sem ekki megi líta fram hjá, hún náði ekki bindandi úrslitum, enda hvorki þátttakan næg eða úrslitin nógu afgerandi. Munurinn á fylkingum var 385 atkvæði og kosningaþátttakan var í kringum 34%.
Þarna þótti mér stjórnmálamaðurinn Pawel setja mikið niður.
Verða að virða samkomulagið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Samgöngur | Breytt s.d. kl. 17:13 | Facebook
Athugasemdir
Minn peningur er á einbeittum brotavilja.
Þessum hjólríðandi Nazistum í Reykjavík hefur verið illa við flugvöllinn alltaf. Þeir fengu þá andúð í arf frá forverum sínum, sem hata völlinn vegna þess að hann var lagður af höfuð-andstæðingum Sovétríkjanna á þeim tíma.
Flóknara er það ekki. Heimskulegt, en einfalt.
Ásgrímur Hartmannsson, 6.6.2020 kl. 17:47
@Ásgrímur, þakka þér fyrir þetta. Persónulega tel ég algeran óþarfa að blanda þjóðernissósíalistum inn í þessa umræðu.
Ég endurtek það að ég get vel séð aðdráttaraflið sem þetta svæði hefur til bygginga.
En svo er líka hitt hvort að eingöngu sé um að ræða skipulagsmál Reykvíkinga eða hvort að allir landsmenn ættu að hafa eitthvað um málið að segja.
Þætti okkur eðlilegt að sveitarfélögin á Suðurnesjum sammæltust um að skipuleggja Keflavíkurflugvöll í burtu, án þess að aðrir landsmenn hefðu nokkuð um það að segja?
Er það tóm heimtufrekja af Reykvíkingum að vera að tjá sig um virkjanir hér og þar um landið?
Spurningin er líklega ekki síst um aðgengi landsbyggðarinnar að Reykjavík, heilbrigðis- og stjórnkerfi, sem hefur verið byggt upp af öllum landsmönnum og allir greiða til.
G. Tómas Gunnarsson, 6.6.2020 kl. 18:12
Var það ekki þessi 2001 könnun sem Ingibjörg Sólrún sagði að hefði verið "siðferðilega bindandi niðurstaða"? Sennilega er Pawel enn "siðferðilega bundinn" af þeirri niðurstöðu.
Annars er tóm steypa (ha!) að byggja í Vatnsmýrinni. Fínt að hafa þar opið svæði, hvort heldur sem væri flugvöll eða fuglafriðland. Þétting byggðar í borginni er orðin alveg nóg.
Kristján G. Arngrímsson, 6.6.2020 kl. 20:51
Persónulega tel ég algeran óþarfa að blanda þjóðernissósíalistum inn í þessa umræðu.
Allt í lagi, smá hyperbóla, en ekki nógu mikil fyrir minn smekk.
Ég endurtek það að ég get vel séð aðdráttaraflið sem þetta svæði hefur til bygginga.
Núna já, þegar auðveldara er að ræsta fram mýrar.
En svo er líka hitt hvort að eingöngu sé um að ræða skipulagsmál Reykvíkinga eða hvort að allir landsmenn ættu að hafa eitthvað um málið að segja.
Þetta er nú flugvöllur. Sem er samgöngu mannvirki, eins og vegur eða brú. Þetta er fyllilega sambærilegt við að fjarlægja brýrnar á Skeiðarárssandi eða fylla uppí Hvalfjarðargöngin.
Á móti er ríkið í sinni alkunnu heimsku að reyna að leggja innanlandsflug niður með gjaldheimtu.
Stundum held ég að MacNamara's morons stjórni hér öllu.
Þætti okkur eðlilegt að sveitarfélögin á Suðurnesjum sammæltust um að skipuleggja Keflavíkurflugvöll í burtu, án þess að aðrir landsmenn hefðu nokkuð um það að segja?
Kemur aftur að þessu með að fylla uppí Hvalfjarðargöngin. Viltu samgöngur, já eða nei?
Reykjavíkurborg virðist ekki vita neitt um samgöngur. Ekkert. Það er eins og þeir hafi ekki skynfæri.
Er það tóm heimtufrekja af Reykvíkingum að vera að tjá sig um virkjanir hér og þar um landið?
Þeir mega fyrir mér tjá sig um hvað sem þeim dettur í hug, en, ef þeir vilja stöðva atvinnuuppbyggingu, á eiga þeir að gera það heima hjá sér.
Sem mér reyndar skilst að þér séu á fullu að gera, með ágætum árangri.
Hvað er mikið eftir af búðum á Laugaveginum?
Spurningin er líklega ekki síst um aðgengi landsbyggðarinnar að Reykjavík, heilbrigðis- og stjórnkerfi, sem hefur verið byggt upp af öllum landsmönnum og allir greiða til.
Og bara að flutningskerfi almennt.
Hvað er að því að alþýðan ferðist?
Ásgrímur Hartmannsson, 6.6.2020 kl. 23:22
Sælir G. Tómas og félagar.
Ég telst líklega til þess að öllum líkindum meirihluta þjóðarinnar sem er hjartanlega sammála málflutningi ykkar öllum varðandi ástæður tortímingar Reykjavíkurflugvallar.
Þetta mál er löngu komið á "af því bara" stigið og "pabbi minn er sterkari en pabbi þinn" svo það er engin furða að rök Pawels Bartoseks væru harla brothætt.
Að mínu mati er einstrengisleg framganga borgarstjórnar í þessu og reyndar mörgum öðrum málum einungis sviðsmynd á einstakri spillingu, fjölskyldu og vinavæðingu, sem náð hefur rækilegri fótfestu hér á landi - merkilegt nokk, miðað við formfast regluverk nágrannaþjóða okkar.
Ég hef nokkrum sinnum frá hruni stungið upp á, svona mest í gríni að tímabært væri að reisa gapastokk og gálga við stjórnarráðið, en án gríns þá hlýtur að koma að því að mælirinn fyllist og Íslendingar standi á fætur.
Jónatan Karlsson, 7.6.2020 kl. 08:31
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er nú líklega of lítið úr gert að kalla kosninguna 2001, "könnun". Þetta var íbúakosning. En þátttakan var lítil.
En mig rámar eitthvað í umræðu um "siðferðislega bindandi niðurstöðu".
En á það var bent að siðferðilega væri að segja kosninguna ekki bindandi og fyglja þannig þeim reglum sem borgarstjórn setti um kosninguna þegar samþykkt var að hún var haldin.
Þau eru mörg "siðferðislegu" álitamálin.
"Þétting" byggðar er svo annað álitamál.
@Ásgrímur, þakka þér fyrir þetta. Þetta er nú sami meirihluti og gaf út skýrslu í febrúar (að mig minnir) um hvað Reykjavíkurborg tapaði miklu á öllum ferðaþjónustufyrirtækjunum sem starfa í Reykjavík.
@Jónatan, þakka þér fyrir þetta. Málið er í skotgröfum, enda hefur engin bent á skynsamlega lausn á málinu sem sátt væri um. Mér þykir þó líklegt að flugvöllurinn hverfi á endanum, en það er engin ástæða til að láta eins og það tækifæri hverfi þá að málinu sé frestað.
En ég þekki ekkert til þeirra spillingar sem þú minnist á í þessu sambandi.
G. Tómas Gunnarsson, 7.6.2020 kl. 10:24
Ég held að Jónatan hitti nokk naglann á höfuðið um spillinguna - fjölskyldu- og vinavæðinguna sem er jú grunnþáttur í íslensku samfélagi. Ég held að það sé ekki hægt að uppræta þetta, nema með því að gerbylta samfélagsgerðinni og það gerist nú ekki svona einn tveir og þrír.
Margir Íslendingar sjá auk þess ekki þessa spillingu, eins og Tómas segir, nú eða sjá þetta ekki sem spillingu heldur einfaldlega bara er þetta svona. Enda má velta fyrir sér hvort það væri ekki að berjast við vindmyllur að ætla sér að uppræta þessa spillingu og mun hyggilegra að nota krafta sína í að koma sér áfram í því kerfi sem fyrir liggur.
Eða flytja af landi brott.
Kristján G. Arngrímsson, 7.6.2020 kl. 11:17
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég var nú að tala um að ég þekkti ekki til spillingar tengdri því að meirihlutinn í Reykjavík vildi flugvöllinn í burtu.
En þú upplýsir ef þú veist eitthvað meira um það.
G. Tómas Gunnarsson, 7.6.2020 kl. 11:51
Nei, ég var ekki að tala um spillingu í flugvallarmálinu sérstaklega, frekar að tala um þessa almennu spillingu sem eins og ég segi er samofin íslenskri samfélagsgerð.
Annars þarf maður ekki að fylgjast lengi með borgarpólitíkinni til að sjá að þar er vinavæðing talsverð og reynt að láta ekki allt uppi. Sbr. braggamálið. Væri æskilegt að skipt yrði út ráðandi öflum í borginni, ef kjósendur vildu vera svo vænir.
Kristján G. Arngrímsson, 7.6.2020 kl. 14:53
@Kristján, þakka þé8r fyrir þetta. Eru ekki helstu baráttumenn gegn spillingu á Íslandi í meirihluta borgarstjórnar? Samfylkingin, Píratar, VG og Viðreisn?
Ekki er ég aðdáandi borgarstjórnarmeirihlutans, vildi gjarna sjá hann á brott, en hafa kjósendur einverjar sterkari ástæður í næstu kosningum, frekar en 2018?
En það er rétt að það er mikil leyndarhyggja víða. Mér sýnist núverandi borgarstjórn í það minnsta vera nærri því að vera ósannsögul, með borgarstjóra í fararbroddi, samanber fréttir dagsins.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/06/07/ekkert_heyrt_fra_borginni_i_manud/
https://www.visir.is/g/20201977919d/fundargerd-synir-ad-borgin-var-akvedin-i-ad-leggja-veg-i-gegnum-flugskyli-ernis
En spilling er víða og erfitt að uppræta. Þar sem er verið að útdeila "gæðum" fylgir víða spilling.
Það virtist koma mörgum á óvart þegar Norrænir bankar urðu uppvísir að umfangsmiklu peningaþvætti.
Hér er svo smá stubbur um spillingu í Noregi. https://en.wikipedia.org/wiki/Corruption_in_Norway
En spilling er ábyggilega til staðar á Íslandi, en ég fullyrði ekkert um það í þessu tilfelli eða braggamálinu, enda hef ég ekkert til að bakka slíkar fullyrðingar upp.
G. Tómas Gunnarsson, 7.6.2020 kl. 17:47
Íslenskt samfélag er gegnsýrt af spillingu. Verður hún einhvern tíma upprætt? Ég efast um það.
Þorsteinn Siglaugsson, 7.6.2020 kl. 23:07
@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Ekki ætla ég að dæma um hversu gegnsýrt Íslenskt samfélag er af spillingu, þekki alls ekki nógu vel til, allra síst upp á síðkastið.
En eins og ég sagði hér ofar, þá er alltaf hætta á spillingu þar sem "gæðum" er úthlutað.
Það gildir jafnt um Ísland sem önnur lönd.
Það er erfitt að ímynda sér að slíkt verði upprætt.
En ég hef stundum líkt þessu við fíflana. Ég fer flesta daga út í garð og sting upp þó nokkra af þeim.
En sé ekki fram á sigur, en ég gefst ekki upp heldur.
G. Tómas Gunnarsson, 8.6.2020 kl. 09:50
Tja, það má velta því fyrir sér hvort Ísland sé "gegnsýrt af spillingu" eða einfaldlega sé um að ræða tiltekna þjóðfélagsgerð. Kunningjaþjóðfélag hefur það verið kallað.
Frá bæjardyrum annarskonar þjóðfélaga er þetta gegnsýrt af spillingu en hér á Íslandi "er þetta bara svona" og hyggilegra að eyða kröftum í að læra að koma sér áfram heldren en berjast við vindmyllur.
Kristján G. Arngrímsson, 9.6.2020 kl. 10:44
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það skiptir líklega miklu hvernig horft er á málin.
Eins og segir t.d. í stubbinum frá Wikipedia um spillingu í Noregi er talað um að spilling sé hvað mest í skipulagsmálum, enda er vissulega um mikil gæði að ræða.
Ég er ekki viss um að þau sér mörg þjóðfélögin sem Ísland lítur út sem "gegnsýrt af spillingu" í samanburði við.
En við verðum líklega meira var við spillingu þar sem við þekkjum.
En vissulega eru smærri samfélög á ýmsan hátt meira "útsett" fyrir spillingu þó að hún sé gjarna öðruvísi.
Ef ég setti inn alla þá sem ég hef kynnst á Íslandi í gegnum tíðina, liti það næstum því eins og ég væri partur af stórum "vef".
Slíkt er þó ekki raunin.
G. Tómas Gunnarsson, 9.6.2020 kl. 12:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.