22.5.2020 | 06:45
Um margt athyglisverð niðurstaða hjá Svíum, en ekki síður hjá Bretum
Mér þykir það býsna merkileg niðurstaða að einungis 7.3% íbúa Stokkhólms hafi myndað mótefni gegn Kórónaveirunni. Þó er settur sá fyrirvari sem eðlilegt er að þeir sem hafi veikst án einkenna, hafi hugsanlega ekki myndað mótefni.
En ef ég man rétt er íbúafjöldi Stokkhólms í kringum milljón. Þessi niðurstaða myndi þá þýða að að ríflega 70.000 einstaklingar hafi örugglega smitast í borginni.
Það er meira en tvöföld heildartala staðfestra smita í Svíþjóð allri. Það er rétt að hafa í huga að ég hef ekki tölur um hvernig smit skiptast á milli borga eða landsvæða í Svíþjóð, en talað hefur verið um að stór hluti þeirra væri í Stokkhólmi, hún enda stærsta borgin.
En ef talað er út frá þessum niðurstöðum (eins og þær væru staðreynd), koma mér nokkur atriði í hug.
Er sjúkdómurinn ekki meira smitandi en þetta? Það er að segja að þrátt fyrir meint "frjálslyndi" Svía og hve kátir þeir hafa verið á veitingahúsum, opnum svæðum o.s.frv., þá hafa ekki fleiri smitast?
Eða ef Kórónan er jafn smitandi og margir vilja vera láta, eru þá svo margir sem "aldrei veikjast" þrátt fyrir smit og þróa því ekki mótefni?
Eða virkuðu tilmæli (en ekki skipanir) Sænskra yfirvalda það vel, að þrátt fyrir allt hafa svo fáir smitast?
En svo vaknar líka spurning ef svo fáir hafa smitast, hvers vegna svo margir hafa dáið í Svíþjóð?
Svíþjóð hefur þegar þetta er skrifað u.þ.b. tvöfallt fleiri staðfest smit miðað við íbúafjölda en Noregur svo dæmi sé tekið. En u.þ.b. 9. sinnum fleiri dauðsföll/íbúafjölda. En þeir hafa sömuleiðis aðeins um helming af skimunum/íbúafjölda.
En á sama tíma birtast fréttir frá Bretlandi þess efnis að áætlað sé að u.þ.b. 17% af íbúum London hafi þróað mótefni og ca. 5% á öðrum svæðum Bretlands.
Gróflega reiknað, er það í kringum 1.5 milljón í London og 2.9 milljónir annars staðar í Bretlandi, eða 4.4 milljónir smitaðra í Bretlandi.
Það er næstum 18 sinnum hærri tala en staðfest smit sem eru þegar þetta er skrifað u.þ.b. 250.000.
Það er þá einhverstaðar í kringum 6.6% af heildaríbúafjölda Bretlands sem hafa smitast (ef við lítum á þessar niðurstöður sem staðreynd). Þannig að Bretland sem heild er ekki langt frá tölunni í Stokkhólmi, en London með næstum 2.5 sinnum hlutfallslega fleiri sem hafa myndað mótefni.
Bretland hefur heldur fleiri skimanir/íbúafjölda en Noregur, en ekki afgerandi.
Ég vil undirstrika að þetta eru aðeins vangaveltur.
En þetta undirstrikar ef til vill einnig hve lítið er vitað um hegðun Kórónuveirunnar og hve mismunandi hún virðist á ýmsum stöðum. Líklega að að hluta vegna mismunandi meðferð talna og upplýsinga og svo eru ótal aðrir þættir sem spila inn í.
Alls kyns upplýsingar hafa komið fram um hópa sem verða misjafnlega fyrir barðinu á sjúkdómnum. Stærri borgir virðast gjarna verða harðar úti, þéttleiki byggðar og samgöngumátar spila þar líklega hlutverk.
En það virðist enn langt í að almennileg yfirsýn náist yfir sjúkdóminn.
Einungis 7,3% Stokkhólms myndað mótefni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 23.5.2020 kl. 04:52 | Facebook
Athugasemdir
Alvarlegustu afleiðingar plágunnr eru auðvitað dauðsföllin, og þess vegna hlýtur það að vera mikilvægasta spurningin varðandi Svíþjóð hvers vegna svona margfalt fleiri hafi dáið þar (ef marka má tölur) en á t.d. hinum Norðurlöndunum.
Þar í framhaldi er síðan mikilvæg spurning hvað megi læra af þessu til framtíðar litið ef við gefum okkur að plágan komi upp aftur, sem líklegt hlýtur að teljast. Það vekur þá óhjákvæmilega þá spurningu hvort hjarðónæmi sé óheppilegt markmið og jafnvel "hættulegt og óraunhæft" markmið, eins og haft er eftir prófessor Ólsen í fréttinni.
Eftir situr sú tölulega staðreynd (ef við gefum okkur að tölurnar endurspegli staðreyndir, eins og þú setur réttilega sem fyrirvara) að margfalt fleiri hafa dáið í Svíþjóð af völdum plágunnar en annarsstaðar á Norðurlöndunum. Hvað veldur því?
Kristján G. Arngrímsson, 22.5.2020 kl. 08:23
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er eiginlega ómögulegt að segja nokkuð til um hvers vegna fleiri deyja í Svíþjóð en á hinum Norðurlöndunum án þess að hafa frekari upplýsingar, t.d. um "hverjir" hafa dáið. Þá er ég að tala um mismunandi þjóðfélagshópa.
Það hefur mátt sjá fréttir um að Kórónuveiran herji harðar á aldrað fólk, einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma, innflytjendur (Ég held að ég hafi t.d. heyrt minnst á Sómali í þessu sambandi á öllum Norðurlöndunum), og efnaminni hópa og þeldökka.
Tengist þetta á einhvern hátt?
Eru Norðurlöndin jafn "einsleit" og við oft viljum vera láta?
Er samsetningin í Svíþjóð á einhvern hátt frábrugðin hinum Norðurlöndunum? (þetta eru bara vangaveltur).
En svo er hitt, Bretland er búið að vera í "lockdowni" í kringum 2. mánuði, samt eru smit þar mun útbreiddari en í Svíþjóð, ef marka má þessar fréttir.
Hvað veldur því? Er það þéttleiki byggðarinnar í London? "Tjúbið", öðruvísi "demógrafía" eða hvað veldur?
G. Tómas Gunnarsson, 22.5.2020 kl. 09:57
Ég veit ekki hvort það er ráðlegt að bera saman Svíþjóð og Bretland, því að í fljótu bragði eru þessi samfélög svo gerólík frá hugmyndafræðilegu sjónarhorni; aftur á móti eiga þau það sameiginlegt að vera bæði mikil innflytjendasamfélög.
En kannski er aftur á móti einmitt lærdómsríkt að bera saman svona hugmyndafræðilega ólík samfélög og sjá hvort það eru samt hliðstæðir hópar (t.d. eldra fólk á hjúkrunarheimilum, fátækir, osfrv.) sem verða harðast úti.
Kristján G. Arngrímsson, 22.5.2020 kl. 10:10
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég held að mismunurinn á milli Svíþjóðar og Bretlands sé minni en margur heldur og ekki endilega sá er þeir ímynda sér. Ég hugsa t.d. að munurinn á milli Svíþjóðar og Íslands sé tæplega minni en á milli Svíþjóðar og Bretlands.
Svíþjóð hefur líklega (það er alltaf erfitt að fullyrða) mun markaðsdrifnara heilbrigðiskerfi en Bretland. Stærri einkageira og mun sveigjanlegra kerfi.
Þessi grein er gömul, en það er ekki svo mikið sem hefur breyst. https://www.theguardian.com/society/2012/dec/18/private-healthcare-lessons-from-sweden
Svíum (eins og fleiri löndum) virðist gjörsamlega hafa mistekist að vernda dvalarheimili.
https://www.bbc.com/news/world-europe-52704836
En ef Kórónuveiran hefur herjað hlutfallslega harðar á innflytjendur en aðra þjóðfélagshópa, er vert að gefa því gaum hverjir kunna t.d. að vinna láglaunastörf á dvalarheimilum frekar en aðrir.
En jafnan er risastór og breyturnar ótrúlega margar.
En hverju hefur svo "lockdownið" skilað? Það er vert að velta því fyrir sér.
Vissulega er alltaf möguleiki á því að ástandið væri enn verra.
En við erum að mínu mati enn óralangt frá því að vera að tala um óvéfengjanlegar staðreyndir.
G. Tómas Gunnarsson, 22.5.2020 kl. 10:35
Las í einhverri fréttinni að nú væru menn farnir að líta til genasamsetningar þar sem þeldökkir á norðurslóðum virðast í meiri hættu en aðrir. Þar með er óttast að faraldurinn verði mun skæðari í Afríku og S-Ameríku þegar haustar þar. Þ.e. hvað dauðsföll varðar.
Vandinn er auðvitað sá að enginn veit enn neitt með vissu um hvernig veiran hagar sér. Eða yfirhöfuð hvernig hún þróast og/eða stökkbreytist.
Kolbrún Hilmars, 22.5.2020 kl. 12:20
@Kolbrún, þakka þér fyrir þetta. Ég hef lesið svipaðar kenningar. Sumir vilja meina að þetta sé vegna þess hve svartir séu vanbúnari til að taka upp D-vítamín frá sólinni á norðurslóðum.
En hvergi hef ég séð slíkar kenningar sannaðar.
En það virðist hafið yfir vafa tölfræðilega að Kórónuveiran legst þyngra á eldra fólk, svarta, innflytjendur (að einhverju marki, þó ekki flokkað eftir uppruna), lægri tekjuhópa, og einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma.
T.d. virðist 3/4 þeirra sem hafa látist í Bretlandi vera 75 ára og eldri, en ég hef ekki séð því mengi skipt upp í undirflokka.
https://www.bbc.com/news/health-52770353
En þetta verður líklega allt rannsakað í þaula á næstu árum, en ég yrði ekki hissa þó að við fengjum misvísandi niðurstöður, en það er annað mál.
G. Tómas Gunnarsson, 22.5.2020 kl. 13:28
Eflaust fáum við allar tölfræðilegar upplýsingar eftir að fárinu lýkur.
Eldra fólk er mishraust auðvitað, en þar sem dánartölur á hjúkrunarheimilum erlendis eru mun hærri en meðaltalið laumast að manni sú hugsun að þar sé starfsfólkið að stórum hluta innflytjendur í láglaunastörfum, þ.e. einmitt þeir þeldökku sem talið er hættast við smiti. En vissulega er of snemmt að draga neina vitræna ályktun af þeim líkum.
Kolbrún Hilmars, 22.5.2020 kl. 13:47
@Kolbrún, þakka þér fyrir þetta. Ég held að dvalarheimili verði eitt af þeim atriðum sem verður tekið til endurskoðunar víða að loknum faraldri.
Sum staðar hefur herinn verið kallaður til aðstoðar til að sjá um dvalarheimili.
https://www.cp24.com/news/ford-asks-army-to-assist-at-five-long-term-care-homes-hit-hardest-by-covid-19-1.4906741
Líklega er þörf á meiri þjálfun og markvissari viðbrögðum við faraldri sem þessum á dvalarheimilum. Það er líklega einnig varasamt að mikið af starfsfólki starfi á mörgum dvalarheimilum.
En það verður að gera greinarmun á dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum. Dánartíðni á hjúkrunarheimilum víða um lönd getur verið í kringum 30 eða svo í "venjulegu" árferði.
En enn sem komið er eru allar upplýsingar takmarkaðar og því rétt að undirstrik að aðeins er um vangaveltur að ræða.
G. Tómas Gunnarsson, 22.5.2020 kl. 18:21
Þakka þér einnig fyrir spjallið, G.T. Eitt stendur þó uppúr; eldra fólk á dvalar- og hjúkrunarheimilum er ekki mikið á ferli svona almennt, sem bendir til þess að það fái veiruna "heim-senda".
Kolbrún Hilmars, 23.5.2020 kl. 13:12
Eins og komið hefur fram, er mismunur á milli hvað menn kalla dauða af völdum COVID-19. Ef einhver deyr í Svíþjóð, og hefur veiruna ... þá er veiran talin dánarorsökin. Aðeins BNA hefur sömu sögu að segja ... hugsanlega einnig Ítalia og Spánn. Öll önnur ríki, Ísland, Þýskaland, Danmörk eða Noregur ... telur aðeins ef dánarorsökin er af völdum COVID-19, þá er það ástæðan. Ef menn deyja vegna hjartasjúkdóma ... skiptir engu máli, hvort þeir hafi veiruna eða ei.
Hér verðum við einnig að staldra við, þegar um er að ræða hversu margir hafa smitast í Svíþjópð. Ég smitaðist, og allir félagar mínir einnig ... við höfum aldrei gengið til skoðunar eða farið á spítala. Sumir okkar hafa haft væga öndunarerfiðleika, sumir haft hita en aðrir aðeins lítil einkenni.
Þú mátt reikna með, að meir en 30% svía hafa haft veiruna, í einu eða öðru formi. Allt frá því í byrjun nóvember á síðasta ári.
Örn Einar Hansen, 23.5.2020 kl. 21:09
Síðbúin smáleiðrétting. Á Ísland eru taldir þeir sem hafa látist með veiruna, hvort sem þeir hafa haft einhverja aðra sjúkdóma líka, eða eins og segir á covid.is: Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru tíu látin
ls (IP-tala skráð) 1.6.2020 kl. 09:45
@Kolbrún, þakka þér fyrir þetta. Það er nokkuð ljóst að það er líklega starfsfólk eða heimsóknir sem bera smit inn á dvalarheimili.
@Örn, @ls, þakka ykkur fyrir þetta. Þetta er rökrætt víða og margir vilja að það sé munur á því að deyja af völdum Kórónuveirunnar og að deyja með Kórónaveiruna.
En eins og oft áður eru málin ekki einföld.
Þannig er t.d. talað um í það minnsta í Bandríkjunum að einstaklingar hafi látist með bæði Kórónuveiru og inflúensu plús undirliggjandi sjúkdóma.
Það mun taka mörg ár að komast að niðurstöðu um tölfræðina og líklega munu þær verða umdeildar.
G. Tómas Gunnarsson, 1.6.2020 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.