Hvar er best að auglýsa?

Nú er mikið rætt um hvar opinberir aðilar á Íslandi eigi að auglýsa.  Fyrirhugað er auglýsingaherferð til þess að fá Íslendinga til þess að ferðast innanlands.

Göfugt markmið.

En hvar á að auglýsa?

Ætti fyrst og fremst að auglýsa hjá Íslenskum aðilum, eða á einnig, og ef til vill í meira mæli að nota hina ýmsu samfélags/samskiptamiðla þó að um sé að ræða erlend fyrirtæki?

Stutta svarið hlýtur að vera að nota þá miðla mest sem bjóða upp á ódýrustu snertinguna.

Auglýsing er eitt og styrkur annað.

Nær einhver Íslenskur fjölmiðill álíka snertingu/verð og vinsælustu samfélagsmiðlarnir gera?

Verður ekki að gera greinarmun á auglýsingum og stuðning/styrk?

Auglýsingaherferðum er ekki ætlað að styðja við fjölmiðla heldur að ná árangri/markmiði.

Líklega verður þó alltaf einhver hluti af auglýsingaherferðinni beint að Íslenskum fjölmiðlum. 

En ef "markaðslögmálin" eru látin gilda verður líklega mjög stór hluti af þeim hluta, eytt hjá Ríkisútvarpinu.  Það hefur einfaldlega það stóra markaðshlutdeild.

Það er vissulega umhugsunarvert.

Það eru bara einstaklingar með "hjarðfofnæmi" eins og ég sem ekki finnast á samfélagsmiðlum. 

Ef ná á til fjöldans, eru þeir líklega besta og ódýrasta leiðin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er allt útlit fyrir að taka verði markaðslögmálin úr sambandi um stund ef einhverjir fjölmiðlar eiga að lifa á Íslandi, aðrir en Rúv (sem lýtur ekki téðum lögmálum alveg), og sama á víst við um flugsamgöngur. Líklega þarf að þjóðnýta Flugleiði, bæði millilandaflug og innanlands, að einhverju leyti til að þessar lífæðar samfélagsins haldi áfram að virka - og samfélagið haldi þannig áfram að virka.

Annars skilst mér að ef ætti að auglýsa fyrst og fremst út frá því hvaða fjölmiðlar ná til neytenda þá væri ráðlegast að setja megnið af auglýsingunum í Rúv. 

Kristján G. Arngrímsson, 29.4.2020 kl. 22:29

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já og annar íslenskur fjölmiðill sem ekki lýtur markaðslögmálunum er Morgunblaðið - þessi fánaberi markaðshyggjunnar tapar stórfé en er haldið uppi af aðila sem fær aðgang að auðlindum í þjóðareigu afhentan á silfurfati. Þannig að Morgunblaðið er í rauninni undir sömu sök selt og Rúv: Haldið uppi af almannafé!

Óskaplega dapurlegt hvernig komið er fyrir gamla góða Mogga.

Kristján G. Arngrímsson, 29.4.2020 kl. 22:32

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Blasir ekki lausnin fyrir Icelandair við.

Allir Íslendingar 18. ára og eldri og lögaðilar (líklega á bilinu 300 til 320.000 aðilar) verða skyldaðir til þess að kaupa 20.000 króna inneignarnótu frá félaginu árlega? 

Hefur gefist vel á öðrum vígstöðvum ekki satt?

Gæfi rekstrinum alla vegna dágott "boost".

Mér hefur skilist (en ætla ekki að fullyrða) að samfélagsmiðlar nái til mun stærri hóps en RUV. 

Þannig er ekki óeðlilegt sá sem stjórnar auglýsingaherferð og er ætlast til að skili árangri leiti þangað.  Af Íslenskum fjölmiðlum fengi RUV líklega stærsta partinn, enda í einstakri aðstöðu til þess að niðurbjóða verðið.

Hvað Morgunblaðið varðar get ég ekki sagt að ég þekki verulega vel til rekstursins.  En ég veit að það var farið að skila hagnaði, en síðan hefur ef ég hef skilið rétt aftur sigið á verri hliðina.

En það er takt við aðra Íslenska fjölmiðla, sem hafa átt æ erfiðara uppdráttar.

Það tengist svo líklega sögum af því hvernig RUV hefur herjað á auglýsingamarkað með undir- og gylliboðum.

En auðvitað hefur RUV getu til þess sem hefur líklega fengið á milli 30 til 50.000, nýja "áskrifendur" á liðnum árum.

Hvað heldur þú að margir þeirra myndu vilja "segja upp áskriftinni" ef þeir bara gætu?  Sérstklega nú þegar kreppir að hjá mörgum.

G. Tómas Gunnarsson, 30.4.2020 kl. 07:22

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Um það hvort Rúv nær til fleiri en t.d. YouTube skal ég ekki segja, ef litið er til bara myndskeiðsauglýsinga; mínar upplýsingar um að auglýsendur vilji helst vera í Rúv eru reyndar orðnar dálítið gamlar þannig að þetta gæti hafa breyst.

Með skylduáskriftina: Ef hún væri ekki til staðar væri Rúv alveg á auglýsingamarkaði. Hættan er sú að þá yrði enginn góður fjölmiðill á Íslandi. Það er séns sem ekki er takandi. Fyrr má nú vera markaðshyggjutrúin.

Um Flugleiði þá stendur víst til að bjóða almenningi að kaupa hlutabréf. Leiðin sem þú stingur uppá er náttúrulega bara svona fjallabaksleið að ríkisrekstri þannig að ég held að væri ráð að hafa það frekar uppi á borðum og "ríkisvæða".

Var ég búinn að nefna þetta með ríkisvæðingu járnbrauta í Bretlandi? Mér skilst að það hafi verið gert svo lítið bæri á vegna þess að einkarekstur á mörgum leiðum bar sig engan veginn og útlit fyrir mjög skerta þjónustu.

Kristján G. Arngrímsson, 30.4.2020 kl. 07:33

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég ætla ekki að segja mig sérfræðing í Íslenska auglýsingamarkaðnum. 

En eftir því sem ég heyri (og Íslendingar grobbuðu sig af fyrir fáum árum) er FaceBook sá miðill sem flestir Íslendingar nota. 

En af Íslensku fjölmiðlunum, t.d. útvarpi, er Bylgjan vinsælasta útvarpsstöðin. En RUV fer uppfyrir með "samtengdum rásum" í auglýsingasölu. 

RUV hefur umtalsvert forskot á Stöð 2 í sjónvarpi, en það er lang mest í elstu aldurshópunum.

https://www.gallup.is/nidurstodur/fjolmidlar/sjonvarp/

Reyndar er það verylega athyglisvert að 12-49 ára horfa á meðaltali undir 3. tíma á viku á RUV.  Hvað eru þeir að fá fyrir peninginn?

Staðreyndin er sú að æ fleiri horfa hvorki á RUV eða Stöð2.  Netið og Netflix hefur tekið yfir.  Netflix er ódýr stöð án auglýsinga. 

Er RUV góður fjölmiðill?  Hver dæmir það?

Persónulega finnst mér það stór spurning.

Ég er ekki áskrifandi að neinum Íslenskum fjölmiðli. Ég horfi hér um bil aldrei á Íslenskt sjónvarp.

En af Íslenskum netmiðlum er mbl.is, með öllum sínum kostum og göllum, lang besti netmiðillinn að mínu mati. ruv.is kemst ekki nálægt honum.  En að er eingöngu mitt álit.

Ég var nú með "hæðnistóninn" þegar ég talaði um inneignarnóturnar, en slíkt kemst illa til skila á netinu.

En auðvitað má færa "RUVmódelið" yfir á fleiri þætti atvinnulífsins ef svo mikil ánægja er með það.

Ég held að þú hafir ekki nefnt þetta með ríkisvæðingu járnbrauta í Bretlandi, en mér skilst að það sé 6. mánaða ráðstöfun, ef svo má að orði komast.

Eftir að ríkisstjórnin og önnur yfirvöld höfðu hvött alla til þess að ferðast ekki með járnbrautunum til þess að vernda lykilstarfsmenn, féll traffikin niður um ca. 70%.

Þá sáu einkafyrirtækin sig eðlilega knúin til þess að draga úr ferðum og framboði.

Þá ákvað ríkið að stíga inn tímabundið til þess að ekki drægi um of úr ferðaframboði.

Því má segja að ríkið reki járnbrautirnar svo að lykilstarfsfólk komist leiðar sinni.

Skrýtið en ekki alfarið órökrétt.

https://www.ft.com/content/2aae48b6-6cde-11ea-89df-41bea055720b

G. Tómas Gunnarsson, 30.4.2020 kl. 09:35

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Gleymdi auðvitað að minnast á Hr. Google.  Sem staðsetur auglýsingar býsna nákvæmlega eftir "áhugamálum" og leitarorðum.

G. Tómas Gunnarsson, 30.4.2020 kl. 09:57

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég er mikið til hættur að lesa minn gamla starfsvettvang mbl.is og les bara ruv.is núna af íslenskum miðlum. Þetta með hvað fjölmiðlar séu bestir er annarsvegar spurning um einstaklingsbundið mat neytenda og líka hægt að meta út frá ákveðnum prinsippum í fjölmiðlun, sem ekki ráðast af vinsældum miðla. En förum ekki út í það, það gæti bara misskilist, eins og nafni minn Ólafsson sagði.

Þetta með bresku járnbrautirnar er ekki bara eitthvað sem kom upp núna í kóvinu heldur eldra mál. En nóg um það.

Kristján G. Arngrímsson, 30.4.2020 kl. 12:46

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég er alveg sammála því að mat á fjölmiðlum er einstaklingsbundið.

En þetta með "prinsippin" er í raun ákaflega einstaklingsbundið einnig.

Hver er þess til dæmis bær að mæla "bias" eða hlutdrægni?

Þessi síða gerir tilraun til þess:  https://mediabiasfactcheck.com/

Alls ekki út í hött, en samt sem áður er þetta hálf partinn út í hött.  Hver gætir að hlutleysi þeirra sem dæma hlutleysið?

Svo notuð sé útgáfa af þekktum "frasa".

Persónulega finnst mér til dæmis RUV langt í frá hlutlaust, en aðrir eru án vafa annarar skoðunar.

Það er ekkert að því, ranglætið fellst í því að neyða alla til að borga fyrir það.

En hvað Bresku járnbrautirnar varðar, hefur það einhvervegin farið fram hjá mér, ertu með einhverja "hlekki" á það?

Hins vegar er það ekkert nýtt að skert þjónusta kalli á inngrip stjórnmálamanna.

Svipað eins og með hæga "ríkisvæðingu" stórs hluta innanlandsflugs á Íslandi og það sama með "strætóvæðingu" landsbyggðarinnar.

Bæði algjört feigðarflan ef þú vilt mitt álit.

G. Tómas Gunnarsson, 30.4.2020 kl. 13:08

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei sko "prinsipp" felur einmitt í sér að um sé að ræða eitthvað sem er ekki einstaklingsbundið, því þarna er um að ræða fagleg prinsipp, svona eins og það gilda ákveðnar reglur t.d. í fótbolta. Lýðræði er líka ákveðið prinsipp, í þessum skilningi, sem er varla einstaklingsbundið.

Einstaklingar geta auðvitað haft sín prinsipp, en það er "prinsipp" í soldið öðrum skilningi.

Kristján G. Arngrímsson, 30.4.2020 kl. 18:41

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján þakka þér fyrir þetta.  Vissulega eru til staðlar. En þegar metið er t.d. áreiðanleiki, sannleikur einstakra frétta og svo framvegis, komast mismunandi einstaklingar að mismunandi niðurstöðu.

Þó að "samkomulag" sé um prinsippin, er matið á eftirfylgni gagnvart þeim mismunandi.

Dómarar dæma ekki allir eins, og sami dómarinn getur jafnvel leyft mismunandi leikjum "að þróast" á mismundi hátt. Reglurnar eru einar, en það breytir því ekki að deilt er um túlkanir dómara og dóma þeirra.

Dómar Hæstaréttar eru endanlegir (nema til endurupptöku komi). Þeim þurfa allir að fara eftir, en það kemur ekki í veg fyrir að þeir séu umdeildir og ekkert óeðlilegt við það.

Það er einnig deilt um lýðræði og má segja að "mismunandi lýðræði" ríki í mismunandi löndum.

Lýðræðið hefur einnig tekið breytingum og er ekki "endanlegt".

Hvernig hlutleysi eða "bias" mældur?

Hann getur falist í rangri frásögn. Hann getur falist í "hálfagðri" fráögn.  Hann getur falist í vali á viðmælendum og svona má líklega lengi telja.

En mismunandi aðilar munu meta þetta á mismunandi vegu.

Og er "skeiðklukku- eða dálkssentimetrahlutleysi" eitthvað hlutleysi?

G. Tómas Gunnarsson, 1.5.2020 kl. 08:11

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Fótbolti er eiginlega mjög gott dæmi um það hvernig það prinsipp, að til sé endanlegur sannleikur, er forsenda þess sem gert er. Hin svonefnda "Varsjá" í fótboltanum á rætur að rekja til þessa prinsipps. Ef við bara höfum nógu góð tæki þá getum við séð hvort boltinn var raunverulega inni eða ekki - eða maðurinn rangstæður.

Dómarinn hefur ekki lengur alltaf rétt fyrir sér - líka þegar hann hefur rangt fyrir sér.

Lýðræði er lýðræði, líka þegar birtingarmyndir þess eru mismunandi. En eru mannréttindi mismunandi frá einu landi til annars? Eru ekki "kínversk mannréttindi" samt sem áður mannréttindi?

Kristján G. Arngrímsson, 1.5.2020 kl. 10:04

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég fylgist ekki mikið með fótbolta, en hef þó heyrt um "VAR".

En í raun eru var eingöngu að bætt er við dómara eða dómurum, sem hafa vissulega þann möguleika á því að horfa oftar en einu sinni á atvikið.

En enn eru ekki allir sammál um niðurstöðuna, þrátt fyrir myndbandaáhorf.

Ef til vill síst um málefni eins og hvort bolti hafi farið yfir línu eða rangstöðu, en þegar kemur að öðrum brotum, er ennþá skiptar skoðanir.

Á að gefa gult spjald fyrir þetta, reka af velli, eða hvernig á þetta allt að gerast.

Mannréttindi eru hafa verið mismunandi á mismunandi tímabilum eða í mismunandi ríkjum.

Hver ákveður að "þessi" réttindi skuli sjálfsögð en ekki "hin"?

Hver er hinn endanlegi sannleikur í þeim efnum og er hann óbreytanlegur?

Hvenær hættir lýðræði að vera lýðræði?

Gildir þetta:  a system of government by the whole population or all the eligible members of a state, typically through elected representatives.

Eða eigum við að trúa "wikipediu", sem segir:  No consensus exists on how to define democracy, but legal equality, political freedom and rule of law have been identified as important characteristics.

Það er margt í mörgu eins og maðurinn sagði.

G. Tómas Gunnarsson, 1.5.2020 kl. 10:32

13 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

VAR snýst um að nýta tækni, auka þannig möguleikana á að sjá hvað gerðist í raun og veru, hvar boltinn eða maðurinn var í raun og veru. VAR er því ekki bara spurning um eina manneskjuna enn. Þú þarft greinilga að kynnar þér málið betur - eða ekki.

Svo máttu ekki falla í gryfjuna sem kallast náttúrurökvillan, þ.e. að halda að það sem ER sé eins og hlutirnir EIGI að vera. 

Sjá: https://en.wikipedia.org/wiki/Is%E2%80%93ought_problem

Kristján G. Arngrímsson, 1.5.2020 kl. 15:25

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Eins og þú segir réttilega getur tækni aukið möguleikana á því að réttar ákvarðanir séu teknar.  En tryggir það ekki.

Enn eru það mennirnir sem taka ákvarðanirnar.

Ég held ekki að hlutirnir eigi að vera eins og þeir eru.

En það breytir því ekki að það eru verulega skiptar skoðanir um hvernig best færi á því að þeir verði.

Skoðanir um það eru margar og hafa breyst í tímans rás og eiga líklega eftir að gera það áfram.

Sjálfsagt eru líka skiptar skoðanir um að hvort að það sem hefur breyst (og breytingarnar eru ekki þær sömu alls staðar) sé framför eða ekki.

G. Tómas Gunnarsson, 1.5.2020 kl. 15:42

15 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Gott og vel, en ef mannréttindahugtakið getur verð breytilegt frá einum stað til annars, einum tíma til annars, er það þá ekki að verða svo vítt og breitt að það sé eiginlega merkingarlaust?

Höfum við semsagt engan sannleika, bara skiptar skoðanir sem allar eru réttar hver frá sínu sjónarhorni og hver á sínum tíma?

Kristján G. Arngrímsson, 1.5.2020 kl. 17:11

16 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég veit ekki hvor það er merkingarlaust, held raunar ekki.

En ég hef ekki trú á "sannleikanum eina", svona heilt yfir.

Það þýðir ekki að við eigum að hætta að berjast fyrir hugsjónum okkar.  En við verðum að gera okkur grein fyrir því að þær eru ekki "hinar einu réttu".

Þú talaðir sjálfur fyrir fáum dögum um að afsala sér réttindum sem margir telja eflaust "heilög mannréttindi".

Er þá hægt að afsala ´sér "sannleikanum"?  Bara vangavelta.

Hvenær var byrjað að tala um mannréttindi?  Hver voru þau þá?  Voru þau til áður en þeim var komið í "hugsun"?

Hvenær verður "baráttumál fárra" að mannréttindum?  Hefur það að einhverju leiti alltaf verið það, eða verður það að mannréttindum þegar ákveðinn fjöldi er kominn á vagninn?

Eða er eitthvað allt annað sem ákveður það?

Hvað eða hver ákvarðar sannleikann í slíkum málum?

G. Tómas Gunnarsson, 1.5.2020 kl. 17:22

17 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei, það er ekki hægt að afsala sér sannleikanum vegna þess að maður á hann ekki - sbr. fleyg orð bandarísks stjórnmálamanns sem ég man ekki hvað heitir um að maður eigi rétt á að hafa sínar eigin skoðanir en ekki rétt á að hafa sínar eigin staðreyndir.

Og áður en við spyrjum hver eða hvað ákvarðar sannleikann þurfum við að spyrja hvort yfirleitt sé hægt að komast að sannleika. Ef maður efast um það er fyrri spurningin alveg tilgangs- og merkingarlaus.

Kristján G. Arngrímsson, 1.5.2020 kl. 20:50

18 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Sannleikur er líklega eins og margir hafa áður sagt, afstæður.

Þó er það líklega óvéfengjanleg staðreynd (eða lítt umdeild) að ég er 187cm á hæð, þó hef ég mælst 188.

Flestir mundu líklega segja að ég sé yfir kjörþyngd. Ég myndi ekki neita því.  En er hin eina rétta þyngd til?  Er það sannleikur að ég eigi að vera 88 til 90 kíló eða svo?  Gildir það um alla sem eru í þessari hæð?

Er þetta óvéfengjanlegt?

Note bene ég er ekki að leita að afsökun fyrir ofþyngdinni.  lol

Er ferðafrelsi ekki mikilvæg mannréttindi?  En hvers virði er ferðafrelsi þeim sem engan pening á til ferðast?

Er ekki "brauðið" einu mannréttindin sem eitthvað er gefandi fyrir?  Eða er betra að deyja standandi en að lifa á hnjánum, svo notað sé frægt "kvót"?

Fólk sem ég kannast við hefur sagt mér að fyrstu árin eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur eyddi það öllum þeim peningum sem það gat nurlað saman í að ferðast. Eins oft og það kom því við.

Samt, eins og einn þeirra sagði mér, átti hann engan pening sem heitið gat þegar komið var á áfangastað, því launin voru svo lág (hlutfallslega) heimafyrir.

Hann gat ekkert leyft sér.  Borðaði verr en heima.  Varð að hugsa sig um tvisvar áður en hann fékk sér kaffi á veitingastað.

En þessi tilfinning.  Að stíga upp í rútu, þurfa ekki spyrja um leyfi.  Koma í annað land eftir dag eða tvo.

Upplifunin, tilfinningin, það var það sem skipti máli.

Svo verður þetta að "hversdagsleikanum".

Meira að segja breytist "raunvísindasannleikurinn" stöku sinnum í sögunni, þegar nýjar uppgötvanir eru gerðar.

Einhvers staðar var sagt:  Therefore the non existence of an absolute truth is what the only and absolute truth is.

G. Tómas Gunnarsson, 2.5.2020 kl. 05:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband