25.4.2020 | 16:31
Svipmyndir frá Svíþjóð
Rakst á þetta myndband frá BBC Newsnight, þar sem farið er í heimsókn til Svíþjóðar og rætt um aðgerðir (eða aðgerðaleysi) Svía við Kórónufaraldrinum.
Rætt er við bæði vísinda- og stjórnmálamenn.
Þetta er ekki djúp greining á ástandinu, en samt nokkuð upplýsandi. En hvernig þetta allt fer og hver verður niðurstaðan að faraldri loknum á eftir að koma í ljós.
Eins og kemur fram í myndbandinu er Svíþjóð með verulega fleiri dauðsföll/höfðatölu miðað við hin Norðurlöndin. En ef miðað er við önnur lönd í Evrópu er niðurstaðan önnur. En það kemur fram í þættinum að faraldurinn sé lang sterkastur í Stokkhólmi. Það er eins og í ýmsum öðrum löndum, að stærri borgirnar verði verst úti. En eins og svo margt annað sem tengist Kórónuvírusnum, er ekki hægt að segja að neitt sé regla.
Alla vegna ekki enn þá.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Sjónvarp | Breytt s.d. kl. 16:33 | Facebook
Athugasemdir
Við hér í Svíþjóð, erum ekki fasistar ... samþykkjum engann fasistma, að nokkru tagi og erum ábyrgðarfullir einstaklingar.
Svíþjóð, á að vera fyrirmynd Norðurlanda ... ekki Kína, sem læsir fólk inni á heimilum sínum og lætur það deyja drottni sínum.
Örn Einar Hansen, 25.4.2020 kl. 17:17
Þreföld dánatíðni á við Danmörku, fimmföld á við Noreg og sjöföld á við Finnland og Ísland er eiginlega talsverður munur.
ls (IP-tala skráð) 25.4.2020 kl. 18:56
Það er algerlega pointless að bera saman fjölda látinna milli landa á hápunkti faraldursins. Í Svíþjóð hafa talsvert fleiri látist en í nágrannalöndunum, en KOMMON, það eru langtum fleiri smitaðir! Pestin mun taka sig upp aftur, og aftur í Danmörku og Noregi, en væntanlega ekki í Svíþjóð. Á endanum verður dánarhlutfallið það sama!
Einn stærsti lærdómurinn sem við munum geta dregið eftir að þessu lýkur er hversu ótrúlega léleg kennsla í einföldustu tölfræði er í menntakerfinu. Fólk (og líka veirufræðingar) blaðrar tóma steypu út frá einhverjum tölum sem ekkert er að marka. Og það kemur berlega í ljós hversu hæfileikinn til að tengja orsakir og afleiðingar með einföldum hætti á undir högg að sækja.
Þorsteinn Siglaugsson, 25.4.2020 kl. 19:51
Samkvæmt fréttum eru það aðallega aldraðir og innflytjendur (t.d. frá Sómalíu) sem hafa látist í Svíþjóð. Hafa yfirvöld þar ekki bara ákveðið að þessu fólki væri fórnandi fyrir hagkerfið?
Kristján G. Arngrímsson, 25.4.2020 kl. 20:18
Mér finnst það ákaflega ólíklegt Kristján, að sænskir sósíaldemókratar hafi ákveðið að fórna öldungum og innflytjendum. Þeir gerðu sér einfaldlega grein fyrir því að það er illskárra að taka kúfinn af flensunni fyrr og hraðar en að rústa lífsafkomu fólks með öllum þeim grafalvarlegu afleiðingum sem það hefur.
Svíar eru gjarna frekar leiðinlegir og pirrandi, en þeir eru ekki jafn vondir menn og þú stingur upp á.
Þorsteinn Siglaugsson, 26.4.2020 kl. 00:08
Þakka ykkur öllum fyrir athugasemdirnar.
Hvort að Svíþjóð sé fyrirmynd?
Um það hefur verið deilt lengi, ekki bara hvað Kórónuviðbrögð varðar, heldur ótal aðra hluti og stefnur. Ég hugsa (en ætla nú ekki að fullyrða) að þetta sé eiginlega fyrsta skiptið sem þeir eru gagnrýndir fyrir of litlar "frelsisskerðingar".
Ég er (eins og áður hefur komið fram á þessari síðu) sammála því að það sé ekki rökrétt að bera saman tölur á milli landa á þessu stigi málsins. Þær eru fengnar með mismunandi aðferðum og segja takmarkaða sögu.
En niðurstaðan verður líklega ekki ljós fyrr en eftir all nokkur ár og ég hugsa að um nokkrar mismunandi niðurstöður verði að ræða, eftir því hver skrifar þær.
Því ef til vill er það merkilegasta sem kemur fram í myndbandinu sú skoðun konunnar (ég man ekki nafnið á henni) á bryggjusporðinum að vísindamenn hafi tilfinningar og þeir bindist tilgátum sínum og skoðunum föstum böndum.
Það hefur oft heyrst áður, en því miður er það enn mjög algengt að trúa því að "niðurstaðan sé rétt", vísindamenn séu næsta óskeikulir og það sé best að fara eftir því sem þeir segja.
Er Sænska ríkisstjórnin ekki að gera einmitt það sem ýmsum öðrum ríkisstjórnum er hrósað fyrir? Það er að segja að fara eftir vísindamönnunum?
En er bara þeim ríkisstjórnum hrósað sem fara eftir þeim vísindamönnum sem "við" eða fjölmiðlar eru sammála aðgerðunum hjá?
En þó að ekki sé rökrétt að bera saman tölur frá mismunandi löndum þegar ekkert er vitað um endaniðurstöðuna og löndin líklega mislangt kominn í vegferðinni, verður aldrei hjá því komist að vangaveltur rísi um hvert stefnir. Í framhaldi af því eru svo bornar saman tölur frá mismunandi löndum, eins og blaðamaður BBC gerir í myndbandinu.
Það er ekki óeðlilegt að horft sé til nágrannalandanna, Norðurlandanna, sérstaklega Danmerkur og Noregs.
En hvers vegna ekki að skoða málin í stærra samhengi?
Belgía hefur rétt aðeins fleiri íbúa en Svíþjóð. Hvernig gengur þeim? Hvernig ganga málin fyrir sig í Frakklandi, sem hefur líklega eitt allra sterkasta forsetavald í heimi og umsvifamikinn opinberan geira? Nú eða Holland og Írland?
Samkvæmt fréttum sem ég hef séð frá Danmörku og Noregi, eru það nákvæmlega sömu hópar sem hafa orðið verst út þar, aldraðir og innflytjendur, þrátt fyrir mun færri dauðsföll.
Það má skilja af fréttum að víða (þó ekki án undantekninga) verða stærri borgir harðast úti. Skiptir stærð borga á Norðurlöndunum máli? Ekki ætla ég að fyllyrða neitt um það.
Nú má sjá mismunandi spár vísindamanna um hvernig mál muni þróast og hvenær bólusetning verði hugsanlega fáanleg.
Stendur faraldurinn yfir í einhver ár, eða verður bóluefni til í haust? Að sjálfsögðu mun það skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að því að reynt verður að meta niðurstöðuna.
Hvernig verða áhrif aukins ofbeldis, vopnaðra rána, geðsjúkdóma og áhrif almennt heilbrigði metin?
Þá er efnahagurinn eftir, sem tengist flestu sem við tökum okkur fyrir hendur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Þar á meðal almennu heilbrigði og lífslíkum.
En sóttvarnarlæknar víða um heim koma með mismunandi ráðleggingar og hafa mismunandi skoðanir. Þeim verður ekki "refsað" að faraldri loknum, hvenær sem sú hamingjustund rennur upp.
Um stjórnmálamenn gildir annað, þó að við verðum að vona að hvergi verði sú "refsing" harkalegri en að tapa í kosningum.
Því að ábyrgðin er þeirra, hvort sem þeir fara eftir ráðleggingum vísindamanna eður ei.
G. Tómas Gunnarsson, 26.4.2020 kl. 04:49
Það sem konan á bryggjusporiðinum segir um vísindi er hárrétt. Það held ég trúir því ekki lengur neinn að vísindalegar niðurstöður séu heilagur sannleikur. Síst af öllu trúa vel menntaðir vísindamenn því. Samanber það að Þórólfur sóttvarnalæknir hefur sagt ég veit ekki hvað oft að allar niðurstöður séu breytilegar og endurskoðaðar á hverjum degi.
En það er ekki þar með sagt að fyrst vísindin geti ekki sagt endanlega til um hluti þá sé ekkert meira að marka vísindamenn en hverja aðra menn (t.d. Trump). Slíkt væri einhver rök- eða hugsanavilla sem ég í svipinn man ekki hvað kallast.
Enda er þetta alls ekki nein keppni í því hvaða vísindamenn hafa rétt fyrir sér, Þórólfur, Kári eða Tegner.
Þess vegna er skynsamlegast að fara að ráðum vísindamanna, jafnvel þótt þeir segi ekki það sama í Svíþjóð og á Íslandi. Sumar "skoðanir" eru rétthærri en aðrar, það fer eftir því hvað að baki býr með tilliti til reynslu. Almennt held ég að það gildi að hvað heilbrigðismál varðar þá viti læknavísindin meira en pólitíkin. (Þ.e. Þórólfi er betur treystandi en Katrínu Jakobs - og það veit Katrín mæta vel og fylgir því því sem Þórólfur segir).
Þannig að það er líklega "exercise in futility" að velta fyrir sér hvort "Sænska leiðin" sé "réttari" en aðrar.
(Og ég verð að viðurkenna að ég treysti ekki mjög vel því sem Þorsteinn Siglaugsson segir um faraldursfræði. Þótt Þorsteinn virðist sannfærður um að hafa rétt fyrir sér hef ég engar forsendur til að vera sannfærður um það. Ég hef tilhneigingu til að vantreysta þeim sem eru algerlega sannfærðir um réttmæti eigin viðhorfa).
Kristján G. Arngrímsson, 26.4.2020 kl. 08:26
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég get tekið undir margt sem þú segir, gæti jafnvel sagt flest.
Það hafa fáir haldið því fram að Sænska leiðin sé réttari en aðrar. Mun fleiri hef ég séð halda því fram að hún sé vitleysa og "fjárhættuspil" með líf og limi almennings í Svíþjóð. En það er önnur saga.
En stjórnmálamennirnir taka ákvarðanirnar. Þeir fá ráðleggingar frá vísindamönnum.
En það eru til fleiri vísindamenn en faraldsfræðingar og læknar. Það eru hagfræðingar (ég veit að margir telja þá ekki til vísindamanna, en þeir fá nóbelinn og allt það fyrir að birta rannsóknir og flóknar formúlur) og þeir setja fram skoðanir. Félagsfræðingar líka (þeir fá aldrei nóbel), sálfræðingar o.s.frv.
Baráttan við Kórónuvírusinn s.s að finna bólefni eða lækna þá sem veikjast er 100% "raunvísindaverkefni". Ég held að um það verði deilt.
Faraldursfræði er líklega aðeins flóknara fyrirbæri, vegna þess að þar blandast "samfélagslegir þættir" inn í. Ég viðurkenni þó fúslega fáfræði mína í þeim efnum, en uppfræðsla vel þegin.
Hvernig er best að höndla þjóðfélagið allt í miðjum faraldri, er hins vegar að mínu mati ekki eingöngu "raunvísindi". Sjúkdómurinn er líklega auðveldur viðureignar ef enginn hittist. En það gera sér allir grein fyrir því að slíkt er ekki mögulegt.
Þar geta margir aðrir þættir en sjálf baráttan við vírusinn spilað "stóra rullu".
Þú segir að þú treystir Þórólfi betur en Katrínu. Ég hugsa að flestir taki undir það með þér hvað varðar smitsjúkdóma. En þjóðfélagið er meira en smitsjúkdómur, jafnvel í miðjum faraldri (eða leyfum við okkur að vona að við séum á seinni hlutanum?).
Það er einmitt þar sem stjórnmálamennirnir eru í aðalhlutverki. Þeirra er að vega og meta. Til þess voru þeir kosnir. Almenningur fól þeim að gæta hagsmuna sinna.
En almenningur er ekki 1. hópur. Ég veit ekki einu sinni hvað ætti að tala um marga hópa eða hverja.
En eiga stjórnmálamenn bara að "hlusta" á faraldursfræðinga og lækna eða skipta önnur sjónarmið máli og þá i hvaða hlutfalli? Það er ekki bara að ræða landlækni, Þórólf eða Kára.
Ég hef ekki svör við því og öfunda ekki stjórnmálamennina af því hlutskipti sínu.
Og taktu eftir því að stjórnmálamenn eru þegar byrjaðir að tala um á hverju Íslendingar hafa efni á. Það á eingöngu eftir að ágerast eftir því sem tíminn líður.
G. Tómas Gunnarsson, 26.4.2020 kl. 09:25
Ég legg til að þú kynnir þér tölurnar Kristján, og dragir þínar eigin ályktanir af þeim.
Þorsteinn Siglaugsson, 26.4.2020 kl. 11:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.