23.4.2020 | 09:07
Verða það "forréttindi" að hafa mótefni gegn Kórónaveirunni?
Þetta er áhugaverð frétt frá fleiri en einu sjónarhorni. Í fyrsta lagi að einstaklingur hafi lagt á sig ferð (þó ekki mjög langa eða erfiða) með því markmiði að smitast af Kórónuveirunni.
Það kemur ekki fram í fréttinni hvers vegna honum þótti það æskilegt, en það má leyfa sér vangaveltur í þá átt að hann hafi talið að "illu væri best aflokið" og eftir veikindin væri hræðsla úr sögunni og hann gæti lifað eðlilegu lífi án ótta. Ferðast hvert sem er o.s.frv., hann væri ónæmur.
Sjónarmið sem er hægt að skilja.
En svo er spurningin hvers vegna hann hélt sig ekki heimavið þangað til ljóst væri hvort hann hefði smitast eður ei?
En mér þætti líka fróðlegt að vita hvernig hann bar sig að við að reyna að fá smit? Heimsótti hann einhvern sem staðfest var að væri smitaður eða sat hann bara og drakk öl á veitingastöðum?
Það er líka spurning hvort að einhver hætta hafi stafað af honum, ef sveitarstjórnin hefur virt allar reglur um fjarlægð og annað slíkt? Var einhver meira hætta af þessum einstakingi en öðrum sem hefur ef til vill farið til Stokkhólms, en í venjulegri tilgangi?
Ef svo hefur verið gert, hvernig er þá hægt að neita einstaklingi sem lítur út fyrir að vera heilbrigður að sitja fund?
En sá fyrirvari er hér að ég þekki ekki nógu vel þær reglur sem settar hafa verið í Svíþjóð.
En þá kemur að vangaveltum í þá átt hvort að það geti verið eftirsóknarvert að hafa mótefni gegn Kórónaveirunni.
Getur það komið sér vel og jafnvel skapað forréttindi þangað til bóluefni verður fundið upp og komið í almenna útbreiðslu? Fá þeir einstaklingar fullt ferðafrelsi, svo dæmi sé tekið.
Sjá hefur mátt vangaveltur í þá átt hér og þar, en ekkert hefur verið ákveðið.
Til dæmis sagði nýlega í frétt hér á mbl.is: "Þá gæti jafnvel farið svo að óskað verði eftir því að fólk geti sýnt fram á að það sé með mótefni við veirunni áður en það ferðast á milli landa."
Svipaðar vangaveltur má sjá í nýlegri grein í Kanadíska blaðinu National Post.
En sitt sýnist hverjum og andstæðar skoðanir koma fram. Ýmsir eru á þeirri skoðun að slík "flokkun" gæti skapað mikið stærri vandamál en hún leysir.
Í greininni má m.a. lesa:
"For years, decades, weve been writing about stigma in infectious disease and how its problematic and now people are thinking of actually employing something that is by definition stigmatizing as a way out, said University of Toronto bioethicist Dr. Ross Upshur, of the Dalla Lana School of Public Health."
...
"Its nice to think of an immunity passport if youre the one immune, Upshur added. Because that means there is at least the possibility that some of us would be able to freely move in the environment.
But how to do the testing fairly and equitably? You would need a regimen to give everybody the fair opportunity to have the test, and look at how well weve been rolling out testing in Ontario in the first place, he said.
The plan would also be premised on the idea that the non-immune would remain largely sheltered until vaccines become available. But Upshur, who has been on multiple meetings with top scientific minds on World Health Organization teleconferences, says the probability that there will be a vaccine in the near future with over 90 per cent efficacy and available in seven billion doses is almost non-existent."
...
"Its likely that people exposed to the pandemic virus in the past would have some reasonable degree of immunity. One hundred percent immunity? Probably not. One hundred per cent of the time? Definitely not. But better than nothing, said Amir Attaran, a professor of law and medicine at the University of Ottawa who has a PhD in immunology.
However, in our shelter-in-place isolation, we didnt magically develop immunity, Attaran noted. Weve been sitting on the couch watching Netflix and drinking beer."
...
"Attaran said we ought to consider immune passporting, giving those who are thought to be immune a bill of health that says they can circulate more extensively in society without risking the health of others.
But what level of immunity makes someone passport worthy? How would it work?"
Sem leiðir mig að næstu vangaveltum.
Hvað gerist þegar/ef bóluefni verður á boðstólum?
Hvað gerist þegar/ef einstaklingar/fjölskyldur/hópar neita bólusetningu?
Verður það gert refsivert? Mega "slíkir einstaklingar" sækja skóla, vinnu, vera í strætó, sækja tónleika, ferðast, fara í klippingu o.s.frv?
Viljum við að þeir verði auðkenndir á einhvern hátt?
Það er ekki komið að ákvörðunum um slík mál. En líklega er tímabært að fara að velta þeim fyrir sér.
Gleðilegt sumar.
Fór til Stokkhólms til að smitast af veirunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Mannréttindi, Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 09:08 | Facebook
Athugasemdir
Þetta eru eiginlega of sorglegar pælingar á Sumardaginn fyrsta Tómas. Bíð því með að kommenta, í það minnsta nema Kristjáni takist að koma með góðan átakapunkt.
Þorsteinn Siglaugsson, 23.4.2020 kl. 10:44
Tommi mér líst ekkert á hvað þú ert mikið að lesa National Post. Hvað heldurðu að Elfa segði ef hún vissi þetta?
Kristján G. Arngrímsson, 23.4.2020 kl. 11:12
Reyndar er talsvert síðan ég sá frétt einhverstaðar um að þetta væri það sem Þjóðverjar væru með plön um.
Kristján G. Arngrímsson, 23.4.2020 kl. 11:15
@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Þetta eru ekki "skemmtilegar" hugsanir frekar en flestar aðrar tengdar Kórónavírusnum, en koma þó í hugann og eru nauðsynlegar.
En að öðrum leyti hef ég verið út í garði að njóta sólskinsins í dag. Er búinn að þrífa grillið og setja "stríðsaxarsteik" í mareneringu.
Búinn að bíða með hana í ísskápnum í 3. vikur.
@Kristján þakka þér fyrir þetta. National Post er ágætis vefsíða. Hleypir að ótal sjónarmiðum. En það er auðvitað þetta með eftirlitið. Í hvert sinn sem internetið höktir hjá mér, held ég auðvitað að nú sér verið skrúfa fyrir mig. Hér verður að vera Glitnisbroskall :-)
En það er víða um lönd verið að velta fyrir sér spurningum um hvort að "ónæmisvottorð" verði gefin út, eða hvernig sé best að standa að málum þangað til bóluefni verður möguleiki.
Sumir velta því upp að ónæmir einstaklinger verði "kvaddir" til mikilvægra starfa, en ég veit ekki hvað það er raunhæft.
En ég sá nú í dag skoðanakönnun frá háskólanum í Sheffield. Þar kom fram m.a. að 70% Breta töldu að þeir myndu hiklaust láta bólusetja sig ef það væri í boði.
En það sitja alltaf einhverjir eftir.
Að lokum, Gleðilegt sumar báðir tvei, þakka ykkur fyrir samræðurnar í vetur. Sérstaklega undanfarna daga.
Við verðum að treysta á sólina, hún gerir allt betra.
G. Tómas Gunnarsson, 23.4.2020 kl. 14:09
Ætli 70% myndi ekki duga til hjarðónæmis.
En gleðilegt sumar. Njótið blíðunnar. Og steikurinnar.
Kristján G. Arngrímsson, 23.4.2020 kl. 15:36
Gleðilegt sumar sömuleiðis. Sést meira að segja aðeins í blátt núna. Líklega best að grilla bara!
Þorsteinn Siglaugsson, 23.4.2020 kl. 16:46
Við hér í Svíþjóð höfum þegar náð hjarðónæmi ... verðum við leiðtogar heimskingja evrópu kommúnismans í framtíðinni? Nei. en kanski getum við kastað út þessum komma skŕil sem æskir þess að verða þrælar kínverskra kommúnista.
Örn Einar Hansen, 23.4.2020 kl. 18:09
Hvað er kommúnismi? Ég er nú ekki alveg sannfærður um það Örn Einar að stefna kínverskra stjórnvalda sé nú á endanum einhver sérstakur kommúnismi. Ekki að minnsta kosti ef maður leggur hefðbundinn skilning í það orð. Mér finnst hún eiginlega að mörgu leyti eiga meira skylt við fasisma en kommúnisma.
En það breytir ekki því að þeir eru hættulegir, þeir vinna gegn frelsi og mannréttindum og síst af öllu myndi ég vilja fá þá yfir okkur hér á Vesturlöndum sem, þrátt fyrir alla sína galla eru nú einu sinni lönd þar sem fólk nýtur bærilegs frelsis og grundvallarréttinda.
Þorsteinn Siglaugsson, 23.4.2020 kl. 21:51
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Almennt virðist talið á á bilinu 60 til 70% þurfi til að ná hjarðónæmi og ekki ætla ég að efast um það.
En það eru undantekningarnar sem skapa hættu.
Enn vitum við ekkert um hvernig bóluefni verður, en það er eigi að síður mjög algengt að einhverjir eru ekki bólusettir vegna heilsufræðilegra ástæðna, þó að þeir fegnir vildu. Ef ég hef skilið rétt gildir þetta um flestar bólusetningar.
Það þekkist mjög vel t.d. hvað varðar bólusetningu gegn mislingum.
Það er auðvitað sá hópur (þeir viðkvæmustu í samfélaginu) sem eru í mestri hættu fyrir smiti, ef býsna stór hópur einstaklinga er óbólusettar (eigið val) og t.d kæmi einhver þeirra smit t.d eftir utanlandsferð.
Það er ekkert langt síðan að talið var að mislingar væru "horfnir" í þróaðri ríkjum.
En nú koma upp reglulega smit hér og þar, sum býsna alvarleg.
En þegar ég var að skrifa þetta rifjaðist upp fyrir mér að heyra sögur í æsku minni um að farið væri með börn á heimili þar sem voru smitsjúkdómar, s.s. mislingar, hlaupabóla o.s.frv. til að smita þau. Því það þótti æskilegt að "drífa þetta af" á meðan þau voru börn. Þau fá sjúkdómana oftast mun vægar.
@Örn, þakka þér fyrir þetta. Ég veit ekki með sænska hjarðónæmið, það eru verulega skiptar skoðanir um slíkt og littlar eða engar mælingar á því farið fram í Svíþjóð. En það verður fróðlegt að sjá.
Því miður er mikil hætta á því að áhrif Kínverja aukist verulega á næstu árum. Það er ekki eins og sé mikil ástæða til bjartsýni hvað varðar væntanleg viðbrögð evrópskra leiðtoga. Það má t.d. horfa til hvernig þeir brugðust við fésekkjum Kínverja eftir síðustu kreppu.
@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Það hafa nú margir velt fyrir sér muninum á kommúnísma/fasisma og komist að mismunandi niðurstöðum. En ég held að munurinn sé ekki mikill, þó að vissulega megi sjá mörg blæbrigði innan beggja stefna.
Set fram fjóra valkosti, ekki að ég vilji fá svör, svona valkostum ætti enginn að þurfa að standa frammi fyrir.
Hvort vildi ég hafa búið á Ibiza undir stjórn Francos, eða í Leningrad undir stjórn Stalins?
Hvort vildi ég hafa búið í Þýskalandi undir stjórn Hitlers, eða í Kampucheu undir stjórn Pol Pot?
Og vert er að hafa að allar þessir leiðtogar/stefnur áttu sér dyggja fylgjendur á Íslandi, líklega síst Falangistar Francos.
En það er rétt að hafa í huga Þorsteinn, og óttast að hluta, að það er aldrei auðveldar að fá fólk til að gefa upp frelsi sitt og réttindi en á kreppu og faraldstímum.
G. Tómas Gunnarsson, 24.4.2020 kl. 06:55
Má ekki bara taka Trump á þetta og láta fólk borða gamla, góða skúripúlverið?
En án gamans þá er líkingin við mislinga kannski ekki galin, að eitthvað svipað verði með þessa kórónuveiru.
Kristján G. Arngrímsson, 24.4.2020 kl. 13:43
Annars er það mjög athyglisverð spurning hvort fólk eigi ekki að hafa frelsi til að gefa frá sér frelsi sitt. (Til dæmis í því augnamiði að tryggja stöðugleika í samfélaginu og þar með auka líkurnar á sinni eigin afkomu - á fólk ekki að hafa skilyrðislausan rétt til að tryggja hana?)
Ætti fólki ekki líka að vera frjálst að binda endi á líf sitt?
Hvar og hvenær er rétt að setja skorður við einstaklingsfrelsinu?
Ég veit að þetta eru heimspekilegar spurningar, en viti menn, þær eru allt í einu orðnar relevant.
Kristján G. Arngrímsson, 24.4.2020 kl. 13:48
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég hef aðeins séð óljóst hvað Trump var að bulla í gær. Ekki haft tíma til að kynna mér það. En það er með hann eins og margt, ég er sammála ýmsu sem kemur frá honum. En hinsvegar er bullið yfirgengilegt og framkoman er líklega það sem fer mest í taugarnar á mér. Ég þyrfti eiginlega að skrifa um þetta, en það verður að bíða betri tíma.
Bólusetning og hverjir neita að láta bólusetja sig, hverjir þola ekki bólusetningu o.s.frv. er alls ekkert "smámál" og Kórónuvírusinn getur fært þá umræðu í nýjar hæðir.
Það er ekkert einfalt svar í slíku.
Frelsið er alltaf merkilegt og þarft umræðuefni. Ég er svona 50/50 í að vilja taka þessa umræðu við þig.
Ekki það að hún sé ekki áhugaverð, það er hún.
En það er erfitt að taka hana í "athugasemdakerfi" og hitt að það er hægt að halda áfram endalaust.
Ég er reyndar þeirrar skoðunar að fólki eigi að vera frjálst að binda enda á eigið líf, ef það sér engan tilgang með því. Það er enda svo að margir kjósa að óska ekki eftir leyfi.
Að óska eftir aðstoð við framkvæmdina er annað mál. En jafnframt flóknara, því hví skyldi einhver eiga rétt á aðstoð til að enda eigið líf? En hvers vegna skyldi einstaklingur ekki eiga rétt á aðstoð til þess að enda eigið líf, rétt eins og samfélagið ákveður að lengja það án þess að spyrja leyfis undir mörgum kringumstæðum.
En það að gefa frá sér frelsi sitt, er einnig flóknara, en jafnframt áhugavert.
Ef vilji er til hjá báðum aðilum er þrælahald eðlilegt og sjálfsagt? Ef einhver borgar til dæmis upp allar skuldir einstaklings og er reiðubúinn til að sjá fyrir honum og tryggja afkomu hans, er það þá sjálfsagt?
Við erum komnir býsna langt frá efni upphaflega pistilsins, en hreinskiptnar umræður eiga það til að "fara út í hróa" og þó að það sé ef til vill ekki til fyrirmyndar gerist það jafnan og er ekki óeðlilegt.
Allt tengist þetta eins og einhver sagði.
Ef til vill væri rökréttara að taka þessar umræður á annan vettvang en ég veit ekki hvert.
En heimspekilegar vangaveltur eiga alltaf rétt á sér, en ef til vill aldrei frekar en undir núverandi kringumstæðum, þegar flest allir eru í "samlokubanni".
Hvað af þessu "klagar upp á " aðra einstaklinga, er ef til vill stóra spurningin?
G. Tómas Gunnarsson, 24.4.2020 kl. 14:50
Ég held að afstaðan til frelsis eigi sér alltaf rót í afstöðunni gagnvart þeirri spurningu hvort til séu mannréttindi. Og sú afstaða, að til séu mannréttindi, er alltaf trúarlegs eðlis, þ.e. annað hvort trúum við því að þau séu til eða ekki. Maður getur trúað á mannréttindi en kosið að gefa eftir frelsi sitt að ákveðnu marki. En hversu langt getur það gengið? Getur maður trúað á mannréttindi, en selt sjálfan sig í þrældóm? Ræðst það af því hvort þrældómurinn er tímabundinn eða ekki?
Þorsteinn Siglaugsson, 24.4.2020 kl. 15:04
Ég tek undir að þetta er ekki rétti vettvangurinn fyrir þessa umræðu, en vildi bara segja að ég er sammála þér um þetta með að mega binda enda á líf sitt.
Kristján G. Arngrímsson, 24.4.2020 kl. 15:07
@Þorsteinn, @Kristján, þakka ykkur fyrir þetta. Eru mannréttindi afstæð? Fara þau eftir tímabilum og landsvæðum?
Persónulega hef ég lengi talið þetta með merkustu setningum mannkynssögunnar:
"We hold these truths to be self-evident, that all men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty and the pursuit of Happiness."
En það breytir því ekki að það tók fast að 200 árum að telja svarta, einstaklinga af asískum uppruna, gyðinga og marga aðra til "all men".
Enn lengra þurftu samkynhneigðir t.d að bíða eftir því að teljast til "all men".
Og enn eru þetta ekki "unalienable Right" víðsvegar um heiminn. Og hvað gerum við í því?
Hverjum trúum við?
Eða erum við alltaf að fórna "mannslífum fyrir efnahagslegan ávinning"?
G. Tómas Gunnarsson, 24.4.2020 kl. 16:03
Ef ég man rétt ræddum við spurninguna um algildi siðferðis hérna á þessum vettvangi fyrir einhverju síðan. Ég reyndi þá að halda fram algildi siðferðis og meira að segja að til væru "siðferðilegar staðreyndir" - sem hlaut frekar dræmar undirtektir, minnir mig.
Hvað mannréttindi varðar þá finnst mér að algildi (universal) sé hluti af skilgreiningu þeirra - mannréttindi sem eru ekki algild eru ekki eiginleg mannréttindi.
En þetta er nú efni í bók.
Kristján G. Arngrímsson, 24.4.2020 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.