4.4.2020 | 12:43
Forsætisráðherra Ontario birtir spálíkan fyrir útbreiðslu og tímalengd kórónuveirunnar.
Forsætisráðherra Ontario, mannflesta fylkis (eða hérað) Kanada birti spálíkan hvað varðar Kórónuveiruna á blaðamannafundi í gær.
Það er óhætt að segja að rétt eins og annars staðar í heiminum er slíkt líkan enginn skemmtilestur.
Í stuttu máli gerir spáin ráð fyrir því að á milli 3.000 to 15.000 einstaklingar í Ontario deyi í faraldrinum.
Enn fremur er því spáð að faraldurinn geti varað í 18 til 24 mánuði.
Forsætisráðherrann, Doug Ford hefur fengið lof fyrir framgöngu sína hvað varðar baráttuna gegn Kórónuveirunni, hann hefur verið duglegur við að miðla upplýsingum.
Ontario er fyrsta fylki Kanada sem birtir slíkt spálíkan, ríkisstjórn Kanada hefur ekki gert slíkt, en kallað hefur verið eftir því.
Ríkisstjórnin hefur einmitt verið gagnrýnd fyrir frekar slælega upplýsingagjöf, en hún hefur þó lofað að birta slíka spá "á næstu dögum".
Ríkisstjórnin hefur einnig verið sökuð um að reyna að notfæra sér neyðarástandið og reyna að aftengja þingið, eins og með tillögu um að rikisstjórn yrði heimilt að hækka skatta, án samþykkis þingsins, út árið 2021.
Það er víða sem reynt er að aftengja lýðræðið að hluta undir þessum kringumstæðum.
En á blaðamannafundinum í Ontario voru einnig Matthew Anderson, yfirmaður "Ontario Health", Adalsteinn Brown rektor "public health" deildar Toronto háskólans (hér vantar mig gott orð yfir "public health"). og Dr Peter Donnelly, yfirmaður "Public Health Ontario".
PDF skjal sem útskýrir spálíkanið betur má finna hér.
Þeir sem vilja horfa a lengra myndband af fréttamannafundinum geta gert það hér.
P.S. Nafn eins og Adalsteinn Brown vakti að sjálfsögðu athygli Íslendingsins í mér. Ég þekki ekkert til hans, en mér þykir líklegt að hann sé einn af fjölmörgum Kanadabúum af Íslenskum uppruna. Ekki síst vegna þess að örlítil hjálp frá Hr. Google, leiddi í ljós að hann er oft kallaður "Steini".
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 18:14 | Facebook
Athugasemdir
Það á vafalaust eftir að teikna margar "sviðsmyndir" upp úr "spálíkönum" á næstunni og stjórnmálamenn telja fólki trú um að hvorki sé tími til að "eiga samtal" né setja málin í "nefnd".
Þó svo að almenningur um allan heim sé að verða vitni af grímulausu afnámi lýðræðis og mannréttinda, sem tekur fram fasisma fyrri tíma, allt til að koma í veg fyrir mannfall af völdum veiru. Og endanleg "sviðsmynd" verði í engu samræmi við "spálíkanið", -þá munu yfirvöld eftirá alltaf geta hælst um yfir því að ekki fór ver.
Það gæti verið að íslenska orðið sem þig vantar sé "lýðheilsa", vitsmunalega virðist sú heilsa ekki vera upp á marga fiska þessa dagana.
Magnús Sigurðsson, 5.4.2020 kl. 06:38
Public Health heitir á íslensku lýðheilsa.
Það er athyglisvert hvernig stjórnmálamenn hafa verið næstum ósýnlegir hér á Íslandi varðandi fréttir af heilsufarslegum þáttum faraldursins og haldið sig við efnhagslegu hliðina. Má segja þetta sé til fyrirmyndar hér og uppýsingagjöf líka. Svona spálíkan, unnið af HÍ, hefur verið opinbert frá byrjun (covid.hi.is)
Eitt það skrítnasta í þessari umræðu allri um faraldurinn eru innlegg kverúlanta sem gera mest úr því að stjórnvöld séu að "notfæra sér ástandið" til að vega að borgaralegum réttindum. Læðist að manni sá grunur að hjá þessum kverúlöntum ráði einhverskonar narsissismi ferðinni þar sem þeir hugsa fyrst og fremst um eigin hagsmuni en ekki um hagsmuni þeirra sem eru veikastir fyrir. En það eru einmitt hagsmunir (og heilsa) þeirra veikustu sem allt snýst um.
Kristján G. Arngrímsson, 7.4.2020 kl. 17:55
@Magnús, þakka þér fyrir þetta. Ég held nú reyndar að að sé ekki til bóta að setja margar nefndir á stofn í þessu árferði.
En ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að aftengja þingin eins t.d. var gerð tilraun til hér í Kanada.
Það má gefa stjórnvöldum ákveðið neyðarvald, t.d. að grípa til aðgerða sem geti þá staðið í stuttn tíma t.d. viku eða tvær, en falli þá úr gildi ef þing samþykkir ekki.
Líklega er lýðheilsa rétt, ég á það til að lokast svona stundum.
Spádómar eru ekki nákvæmir undir kringumstæðum sem þessum. En það er eigi að síður nauðsynlegt að reyna, eftir fremsta megni, að gera sér grein fyrir því sem gæti gerst.
@Kristján Þakka þér fyrir þetta.
Ég held að þetta sé að að hluta til skynsemi hjá stórnmálamönnunum, enda hafa þeir í sjálfu sér nóg á sinni könnu með efnahagsmálin.
En það þarf ekki að fara lengra en til Danmerkur til að sjá stjórnmálaforingja í aðalhlutverki.
En ég er sammála því að upplýsingagjöf er í raun mikilvæasta atriðið. Ekki síst til þess að réttlæta skerðingu á borgaralegum réttindum. Slíkt á aldrei að taka af léttúð.
En það er vissulega deilt um hvað sé rétt og réttlætanlegt og að mínu mati er það eðlilegt.
Það má heyra skoðanir sem vilja ganga mikið lengra en gert er á Íslandi og sömuleiðis skoðanir sem vilja ganga mikið styttra.
Og þá er ég að tala um einstaklinga sem hafa starfað í vísindum við góðan orðstý.
Það þarf ekki að fara lengra en til Svíþjóðar til að sjá mismunandi áherslur.
G. Tómas Gunnarsson, 8.4.2020 kl. 12:34
Ef þú skoðar spálíkan HÍ (covid.hi.is) sérðu að það virðist hafa sagt glettilega vel fyrir um atburðarásina.
Annað er að líklega fer best á að við svona fordæmalausar aðstæður (eða "fordómalausar aðstæður" eins og heyrst hefur á Íslandi!) ríki einhverskonar upplýst einræði, og lýðræðið víki um stund. Það er eiginlega raunin hér á Íslandi þar sem sóttvarnalæknir er orðinn hálfgerður einvaldur í raun. En auðvitað koma allar ákvarðanir enn úr ráðuneytum, en það er held ég bara formsatriði.
Kristján G. Arngrímsson, 8.4.2020 kl. 12:59
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Upplýst einræði og ekki. Vissulega eru í gildi strangar takmarkanir, en samt er farið varlega í boðum og bönnum.
Rétt eins og er með ferðalög núna um páskana. Það að treyst á skynsemi einstaklinga og höfðað til hennar. Ekki bannað og það er vel.
Ég held að það sé heldur ekki rétt að setja þetta allt á sóttvarnarlækni.
Líklega tekur þríeykið megnið af ákvörðunum, en ekki hann einn.
Styrkurinn á Íslandi er líklega hvað mestur byggður á umfangsmikilli skimun, enda erfitt að fá skynsamlegar niðurstöður, án þess að hafa skynsamlegar tölur til að byggja á.
Þar hefur Decode líklega skipt gríðarlegu máli, því að eðli málsins samkvæmt er heilbrigðiskerfið upptekið af því að fást við þá sem eru veikir.
En svo er það fámennið sem gefur forskot.
Smitrakningar virðast hafa gefist vel á Íslandi. En ég er hálfhræddur um að slíkur árangur gæti aldrei náðst t.d. í New York eða t.d Toronto.
G. Tómas Gunnarsson, 8.4.2020 kl. 13:08
Smitrakningar virðast hafa tekist vel í S-Kóreu, Seoul er held ég borg á stærð við margar Toronto.
Spálíkan HÍ er byggt á tölum frá Kína og öðrum löndum, auk innlendra talna. Og svo auðvitað líkanavísindum og smitsjúkdómafræðum.
Kosturinn við að hafa vísindamenn við stjórnvölinn við þessar aðstæður er líklega sá að þeim er sennilega eðlilegt að horfa á raunveruleg gögn, en byggja ekki á einhverju innsæi, óskhyggju og hagsmunahugsun eins og pólitíkusum er vant.
Kristján G. Arngrímsson, 8.4.2020 kl. 13:30
Það er mjög fróðlegt (og dapurlegt!) að fylgjast með Trump núna. Varla heil brú í neinu sem hann segir. Fullyrðir eitt núna og annað eftir tvær mínútur.
Ef áreiðanleg upplýsingagjöf er það sem hvað mestu skiptir við svona aðstæður þá blasir við að best er að vísindamenn veiti þær upplýsingar, ekki stjórnmálamenn vegna þess að maður getur aldrei trúað því sem stjórnmálamenn segja.
Kristján G. Arngrímsson, 8.4.2020 kl. 13:33
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það eru margar ástæður fyrir því að S-Korea hefur tekist nokkuð vel að rekja.
Þeir vita líklega betur hvar fólk býr en bæði Bandaríkin og Kanada. Í öðru lagi hafa þeir verið að rekja síma og svo debet og kreditkort. Reiðufé er t.d. mikið algengara í bæði Bandaríkjunum og Kanada.
Ég er sömuleiðis nokkuð viss um að þar næðist aldrei sama hlutfallslega niðurhalið á rakningarforriti og t.d. á Íslandi.
Þjóðfélagsgerð skiptir máli.
Það eru vaxandi efasemdir um áreiðanleika talna, þó að nota verði það sem hægt er að koma höndum yfir. Mismunandi skráningarreglur, fjöldi skimana o.s.frv. gerir samanburð á milli landa nokkuð hæpin.
Trump er vissulega áhugaverður.
Í raun fór hann vel af stað að mínu mati. Bannaði beint flug frá Kína og svo Schengen.
Uppskar reyndar gríðarlega gagnrýni og reiði fyrir það. En flestir fylgdu svo í kjölfarið.
En síðan fór hann að klúðra málunum og eftirfylgnin varð engin. Allt of lengi beðið með að hefja umfangsmikla skimun og aðra framleiðslu og undirbúning.
En svo stakk hann upp t.d. loka landamærunum að New York, New Jersey og Connecticut.
En þá varð Cuomo brjálaður og sagðist líta á slíkt sem stríðsyfirlýsingu af hálfu alríkisins.
En ef það virkar í Evrópu og hví skyldi það ekki virka í US?
En hins vegar er gallinn hvernig hann snýst í hringi, segir hitt og svo þetta, ýtir fram lyfjum sem eru rauninni á tilgátustigi, o.s.frv.
Honum hefur mistekist, sem er mikilvægt er við svona aðstæður, að veita yfirvegaða forystu.
Það þarf reyndar ekki að leita lengi að vísindamönnum sem segja þeir sitt á hvað.
Virtir vísindamenn hafa mismunandi skoðanir.
Svo má líka t.d. velta fyrir sér staðreyndum eins og hvað deyja margir af völdum "venjulegrar" influenzu í Bandaríkjunum á hverju ári.
Það eru fróðlegar tölur.
Nú eða hvað deyja margir af öndurfærasjúkdómum þar, nú eða í Evrópu árlega.
Við lesum bara ekki um það í æsifréttastíl í fjölmiðlum.
G. Tómas Gunnarsson, 8.4.2020 kl. 13:53
Gleymdi að setja hér inn að eftir að búið var að loka á flug, hefði t.d. þurft að reyna að hemja fjöldasamkomur (slíkt er þó líklega að stærstum hluta komið undir ríkjunum), ótrúlegur fjölda smita má rekja til t.d. Mardi Gras og "Spring Break".
Þá hefði verið tilvalið að vara við "nálægð", þó ekki hefði verið gripið til strangra banna.
G. Tómas Gunnarsson, 8.4.2020 kl. 13:58
Já maður þarf að passa að lesa ekki hvaða fjölmiðla sem er. Hér er ágæt grein um þetta tölulega samhengi sem þú nefnir:
https://blogs.bmj.com/medical-ethics/2020/04/02/the-vital-contexts-of-coronavirus/
Kristján G. Arngrímsson, 8.4.2020 kl. 14:17
@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Mér hefur eiginlega hver einn og einasti fjölmiðill í það minnsta hluta til sekur um "sensationalisma" þessa dagana.
En tölur eru vandmeðfarnar, og nú um stundir er eiginlega hjákátlegt að bera þær saman á milli landa, þó að þær segi alltaf einhverja sögu.
En að eru mismunandi aðferðir við öflun og framsetningu o.s.frv. Og jafnvel grunum að vísvitandi falsanir, en það er önnur saga.
En þessi bloggfærsla var góð.
En mér skilst að u.þ.b. 150.000 deyji að meðaltali á hverjum degi. Frá 10.000 og upp í 60 þúsund hafa dáið árlega í Bandaríkjunum af völdum "venjulegrar" influensu. Þetta er frá 2010 til síðustu "flensutíðar".
Ég man ekki töluna fyrir Bandaríkin en í Evrópusamdandslöndunum deyja u.þ.b. 220.000 af öndunarfærasjúkdómum á hverju ári. 90% þeirra eldri en 65.
Hvað er stór hluti þeirra nú talinn með fórnarlömbum Kórónuveirunnar? Engin veit og mun líklega aldrei vita.
En það verður hægt að gera betur, en aldrei 100%, eftir einhver ár.
Aðeins um mannfjölda: https://www.worldometers.info/world-population/
G. Tómas Gunnarsson, 8.4.2020 kl. 14:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.