29.3.2020 | 09:57
Veiran getur breiðst hratt út á afmörkuðum svæðum - Eysýsla í "sóttkví"
Það er ekki ofsögum sagt að Kórónu veiran setji mark sitt á heimsbyggðina þessa stundina.
Eðlilega er mest fjallað um ástandið á þéttbýlum, mannmörgum svæðum enda margir veikir og andlát sömuleiðis.
En það er rangt að halda að dreifbýli sé ekki í sömu hættu og aðrar byggðir eða að þar þurfi ekki að sýna sömu varúð.
Eyjurnar Saaremaa og Muhu er því miður að verða dæmi um það.
Tvær eyjur undan vesturströnd Eistlands tengdar saman með brú.
Íbúafjöldi er 33.000.
Á til þess að gera fáum dögum eru smit þar komin yfir 240. Það er yfir 70 smit á hverja 10.000 íbúa.
Til samanburðar eru smit í höfuðborginni Tallinn og nágrenni (Harjumaa)í kringum 230, en þar er íbúafjöldinn rúmlega 580 þúsund og smitin því tæplega 4 á hverja 10.000 íbúa.
Á meðal þeirra sem eru sýktir eru 25. af vistmönnum og starfsfólki á dvalarheimili á Saaremaa.
Eftir því sem ég kemst næst voru 2. fyrstu tilfellin greind á Saaremaa 11. mars. Talið er (ósannað) að smitið hafi borist með blakliði frá Ítalíu sem tók þátt í móti þar viku áður.
Rétt rúmlega 2. vikum síðar er talan 240.
Nú hafa eyjurnar verið settar í sóttkví. Hámarksfjöldi á hverjum stað er 2., en undanþágur fyrir fjöldskyldur.
Allar verslanir eru lokaðar nema matvöru- og lyfjbúðir. Bankar, pósthús og símaverslanir geta verið opnar. Sömuleiðis gleraugnaverslanir.
Byggingavörurverslanir mega selja út um "lúgu" eða beint af lager. Garðyrkuverslanir sömuleiðis.
Matsölustaðir eru lokaðir, en hægt er að sækja mat eða fá sent heim.
Skylda er að bera á sér skilríki ef verið er utandyra og sektir við ónauðsynlegum ferðum eða brotum geta orðið allt 250.000 kr ISK.
Aðeins íbúum eyjanna hefur verið leyft að koma með ferjum síðan 14. mars, en það dugar skammt þegar veiran er þegar kominn á staðinn.
En það er ekki bara í þéttbýlum svæðum þar sem veiran getur dreift sér á ógnarhraða og það er ekki að ástæðulausu að heimsóknir á dvalarheimili eru bannaðar.
Hafa verður í huga að tölur breyast hratt. Eistlendingar hafa ágætis upplýsingasíður, t.d. hér og eru tölulegar upplýsingar fengnar að miklu leyti þaðan. Stjórnvöld eru býsna öflug í upplýsingum einnig:
P.S. Þess má geta hér að Saaremaa kemur fyrir í Brennu Njáls sögu, í kafla 30.
"Annað sumar héldu þeir til Rafala og mættu þar víkingum og börðust þegar og fengu sigur. Síðan héldu þeir austur til Eysýslu og lágu þar nokkura hríð undir nesi einu."
Rafala er Tallinn, en Eysýsla er Saaremaa. Enn má finna þessi orð í nútímanum, en Tallinn er oft kölluð Reval og Saaramaa Ösel í norrænum málum.
Saaremaa þýðir einnig svo gott sem það sama á Eistnesku, eða Eyjaland.
Þannig ná samskipti Íslendinga og Eistlendinga í kringum 1000 ár aftur í tímann. Þau eru þó mun vinsamlegri nú á dögum, en á dögum Gunnars á Hlíðarenda.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Saga | Breytt s.d. kl. 10:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.