Lífið er lotterí

Það er engin spurning að "kórónavírusinn frá Wuhan" er að setja mark sitt á heimsbyggðina, bæði beint og óbeint.

Bæði er það svo að all margir veikjast, en ekki síður hitt að miklu fleiri verða hræddir og enginn veit með vissu hvað er að gerast.

Það er enda svo að "Wuhan vírusinn" virðist hegða sér með mjög mismunandi hætti eftir landsvæðum.

Þannig er t.d. rétt rúmlega mánuður síðan að vírusinn nam land í Kanada, sem kom fáum á óvart, enda mikill fjöldi Kanadabúa af Kínverskum uppruna og samgangur á milli landanna verulegur.

En síðan hefur lítið gerst í Kanada. Staðfest tilfelli sýkingar af völdum vírusins eru 20, ef ég man rétt og hefur lítið fjölgað. Þar af eru að ég held 11 í Ontario. En enn sem komið er hefur enginn smitast í Kanada, heldur hafa sjúklingarnir allir verið nýlega komnir frá áhættusvæðum.

Engin "masshistería" hefur orðið í Kanada.

Við feðgarnir skelltum okkur á bílasýninguna í Toronto um síðustu helgi, þar var fjölmenni og ekki grímu að sjá á nokkrum manni.

Íþróttaliðin hér um slóðir standa sig vel og ekki veit ég til  að nokkrum atburðum hafi verið frestað, né heldur að miðaverðið í "eftirsölu" t.d. á "Leafs" leiki hafi lækkað um svo mikið sem dollar.

"Toronto Maple Leafs" eru reyndar að hefja leik eftir tæpan klukkutíma, þegar þetta er skrifað, og það verður ábyggilega fyrir fullri höll, enda leikurinn á móti "Vancouver Canucks", og verður sjálfsagt lítið gefið eftir, hvort sem er á svellinu eða í stúkunni.

Air Canada hefur vissulega aflýst öllu flugi til Kína, enda vafasamt að margir hafi hug á því að ferðast þangað þessa dagana, en það eru engar "risa sóttkvíar", eða það að bannað hafi verið að safnast saman.

Börnin fara á hverjum degi í skólann, lestirnar ganga (það hafa þó sumstaðar verið vandræði með lestirnar, en það er af öðrum örsökum), flugvélarnar fljúga (nema til Kína), "leikfimistöðvar" eru fullar af fólki og þannig má halda áfram.

Lífið heldur áfram.

En Kanadabúar gengu í gegnum ákveðna lexíu árið 2003, þegar SARS veiran breiddist út og yfir 400 smituðust og 44 létust.

Læknir sem ég kannast við sagði mér fyrir all mörgum árum að enginn einn atburður hefði kennt fleiri Kanadabúum að þvo sér reglulega um hendurnar.

En þó að daglegt líf haldi áfram þýðir það ekki að enginn hafi áhyggjur, eða að heilbrigðisyfirvöld hafi ekki gert víðtækar ráðstafanir.

Birtar hafa verið tilkynningar um að farþegar með tilteknum flugvélum og strætisvögnum, séu beðnir um að hafa samband við viðkomandi yfirvöld.

Auðvitað mega Íslendingar sjálfsagt vera ánægðir með hvað lítill hluti þeirra notar almenningssamgöngur, enda mun minni smithætta í einkabílnum :-), en staðreyndin er sú að eins og oft áður, getur hræðslan verið skeinuhættari en það sem við erum hrædd við.

"Stór sóttkví", myndi líklega gera lítið annað en að tryggja fleiri smittilfelli, rétt eins og gerðist um borð í skemmtiferðaskipinu, heitir það ekki "Diamond Princess".

En "lokun" landsins myndi auðvitað tryggja að efnahagslegar afleiðingar vírussins yrðu eins miklar og mögulegt er, en nóg verður líklega samt.

Hitt er svo að ef alþingismenn vilja flytja völd frá Sóttvarnarlækni og til alþingis, til að bregðast við farsóttum sem þessari, þá leggja þeir auðvitað fram lagafrumvarp þess efnis, því þeirra er jú löggjafarvaldið.

En ég hvet alla til að halda áfram með sitt daglega líf, hugsa vel um handþvott og hreinlæti.

Þeir sem vilja forðast mannfagnaði og söfnuði gera það, en aðrir njóta samvista við annað fólk.

Ef til vill mætti fresta fundum Alþingis, það gæti róað einhverja sem þar sitja og þeir gætu einangrað sig, þar sem þeim þykir best.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband