Verður Skotland sjálfstætt í kjölfar Brexit?

Í grunninn er ég að sjálfsögðu sammála Nicolu Sturgeon um að Skotar eiga að ákveða sjálfir hvort að þeir vilji tilheyra Sameinaða koungdæminu eður ei.  Enga þjóð á að neyða til að tilheyra ríki, ríkjasambandi eða sambandsríki.

Það gildir jafnt um Skotland, Katalóníu, Baska, Flæmingja, Tíbet og svo má áfram telja. Rétt eins og það gerði um Tékkland og Slóvakíu

Það má svo deila um hversu oft eða með skömmu millibili rökrétt er að leggja slík álitamál í dóm kjósenda og ekki til neitt einhlítt svar við því.

Það eru aðeins u.þ.b. 5 ár síðan Skoskir kjósendur höfnuðu sjálfstæði.

Það er reyndar allt eins líklegt að það yrði gert aftur, þó að um slíkt sé ómögulegt að segja. 

Staðreyndin er sú að Skoskur efnahagur er ekki of vel undir sjálfstæði búinn.  Bæði er viðvarandi hallarekstur á Skoska "ríkinu" og yfirgnæfandi hluti "útflutnings" Skota fer til annarra svæða hins Sameinaða konungdæmis, eða 60% )(Það er til muna hærra hlutfall, heldur en hlutur útflutnings Breta sem fer til "Sambandsins").

Scot export Aðeins 18% fer til "Sambandsríkja".  Það er reyndar einnig mikil óvissa hvenær Skotland fengi inngöngu í "Sambandið" ef til sjálfstæðis kæmi. Flestir eru sammála um að það gerist ekki sjálfkrafa og aðildarríki s.s. Spánverjar (sem glíma við Katalóna) allt eins líklegir til að vera þar Þrándur í Götu.

Skotar yrðu sömuleiðis að herða ólina verulega ef þeir ættu að eiga möguleika á því að gerast aðilar að Eurosvæðinu og biðtímin þar getur orðið langur.  Þá vaknar spurningin hvaða gjaldmiðil Skotar hyggist nota í millitíðinni. 

Hvað hallareksturinn varðar, er hann mun meiri en í Bretlandi sem heild. Halli Bretlands hefur verið rétt ríflega 1.1%, en halli Skota er í kringum 7%.  Meiri en helming halla Bretlands hefur mátt rekja til Skota, sem eru þó aðeins í kringum 10% íbúanna.

Með tilliti til þessa er það nokkur kokhreysti þegar Skoski þjóðarflokkurinn segir að Skotland muni ekki taka yfir "sinn hlut" af skuldum Bretlands, ef til aðskilnaðar kæmi, heldur bjóða "samstöðugreiðslur".

En eigi að síður er ljóst að ef Skotland yrði sjálfstætt yrði það áfall fyrir Breta, ekki síst "andlega", ef svo má að orði komast.

En það myndi sömuleiðis svo dæmi sé tekið flækja varnarmál þeirra verulega.

En til þess að sjálfstæði sé virkilega vænlegur möguleiki þurfa Skotar að taka sér tak í efnahagsmálunum.  Olían sem var stór beita í "den" er ekki jafn öflug í dag, verð lágt og það minnkar í lindunum.

En hvernig sem allt fer, er þörf á að leysa málin í sameiningu og á lýðræðislegan máta.  Ég held að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram, það er hins vegar spurning um hvenær.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Mér skilst að útflutningstekjur af skosku viskíi séu gríðarlegar og mikill búhnykkur fyrir breskan ríkissjóð. Verði Skotar sjálfstæðir yrði það því mikill skellur fyrir Englendinga. Ekki nema von að Borís vilji ekki leyfa Skotum að kjósa um sjálfstæði. 

Engin spurning að Skotar eiga að fá að ráða sjálfir hvenær og hvort þeir halda sína atkvæðagreiðslu, rétt eins og Bretar fengu sjálfir að ráða því hvort þeir segðu skilið við ESB. Eða gildir annað um Skota en Breta? Ekki laust við að orðið "hræsni" komi upp í hugann þegar Borís fer undan í flæmingi ef rætt er um sjálfstæði Skotlands. 

Kristján G. Arngrímsson, 29.2.2020 kl. 18:41

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Líklega eru all drjúgar tekjur af Skosku vískíi, enda gæða drykkur. Það breytir þó ekki þeim tölum sem birtast hér í færslunni, enda vískíið inni í þeim eins og annar útflutningur.

Ég held persónulega að atkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands fari fram fyrr eða síðar, en auðvitað má deila um hversu "reglulega" slík atkvæðagreiðsla eigi að fara fram, það eru jú ekki nema ríflega 5 ár frá þeirri síðustu.

En ég er alls ekkert viss um að sjálfstæðið yrði samþykkt nú, enda efnahagsmál Skota ekki of traust.  Sturgeon og félagar eyða einfaldlega of miklu fé, eru hálfgerðir "lýðskrumarar" að því leyti að eyða meira fé í kjósendur sína en þeir raunverulega hafa efni á.

Að því leyti yrði það "léttir" fyrir Bretland að Skotland yrði sjálfstætt. En "andlega" hliðin yrði miklu erfiðari, og að sama skapi yrðu varnir Bretlands mun flóknari.

En sjálfstæðismálin eru flókin og erfið víða.  Það sést vel á dæmi Spánar og Katalóníu og þau gerast einnig flóknari hér í Kanada.

G. Tómas Gunnarsson, 1.3.2020 kl. 02:21

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

En einungis Skotar sjálfir (þ.e. þau stjórnvöld sem þeir kjósa sér) eiga að ráða því hvenær (og þar með hversu reglulega) atkvæðagreiðsla um sjálfstæði fer fram, ekki satt? Þannig að það er í sjálfu sér einfalt svar við þeirri spurningu hversu reglulega slíkar atkvæðagreiðslur fari fram.

Breska stjórnin á ekki að skipta sér af skoskum "innanríkismálum" frekar en ESB átti að skipta sér af breskum innanríkismálum, ekki satt?

Kristján G. Arngrímsson, 1.3.2020 kl. 08:55

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er nokkuð til í þessu, en málið er þó aðeins flóknara, þar sem það verður að taka tillit til alls stjórnkerfisins.

Skotar kjósa ekki eingöngu Skoska þingið, heldur kjósa þeir í lýðræðislegum kosningum Breska þingið og eiga sína fulltrúa þar.  Þetta samband á milli Skota og Breta (sem þeir eru hluti af) er með öðrum hætti en "Sambandsins og aðildarríkjanna.  Lagaramminn er um Bretland er með öðrum hætti en um "Sambandið".

Ég er nú ekki sérfræðingur í Breskum lögum, en ætli Skotland sé ekki sjálfstjórnarhérað, eða eitthvað í þá áttina. Bretland er sambandsríki, en þó ekki, miðað við lagaumgjörð, segja mér vísir menn.

Sturgeon og hennar ríkisstjórn situr enda í "umboði Elísabetar", rétt eins og Breska ríkisstjórnin. 

Skoska þingið rekur sögu sína aftur til 1999 og þá var valdsvið þess skilgreint, en það hefur síðan tekið breytingum einu sinni eða tvisvar.

Þannig þarf Breska stjórnin að samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði, en nota bene, Breska þingið, sem ríkisstjórnin styður sig við, er að hluta til kosið af Skotum.

Þannig er mikið af málefnum Skota innanríkismál Breta.

En að ég best man, hefur t.d. krafan um aðra kosningu um sjálfstæði ekki verið lögð fyrir Skoska þingið.  Sturgeon hefur krafist þess, en hún situr í minnihlutastjórn og hefur ekki lagt það fyrir þingið.

Nýjast skoðanakönnunin sem ég man eftir sýndi 51/49% meirihluta fylgjandi sjálfstæði, en sama könnun sýndi yfirgnæfandi meirihluta gegn þjóðaratkvæðagreiðslu á næstu árum.

Virtust flestir vera þeirrar skoðunar að gott væri að bíða u.þ.b. 5 ár.

https://yougov.co.uk/topics/politics/articles-reports/2020/01/30/scottish-independence-yes-leads-remainers-increasi

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að til atkvæðagreiðslu muni koma, en ekki á næstunni.

Ég held að það sé skynsamleg ákvörðun að fresta slíkri atkvæðagreiðslu um einhver ár, enda hafa Bretar (Skotar þar meðtaldir) í nógu að snúast um þessar mundir.

G. Tómas Gunnarsson, 1.3.2020 kl. 13:55

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þú ferð undan í flæmingi og drepur málinu á dreif, rétt eins og Sambandssinnar gerðu þegar Brexit var yfirvofandi.

Allt sem þú nefnir því til fyrirstöðu að Skotar lýsi yfir sjálfstæði eru tæknileg eða lagaleg úrlausnarefni.

(Og ef bresk stjórnvöld neita Skotum um að halda atkvæðagreiðslu væri það hámark hræsninnar í ljósi Brexit.)

Kristján G. Arngrímsson, 1.3.2020 kl. 20:43

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ekkert sem ég nefndi er því til fyrirstöðu að Skotar lýsi yfir sjálfstæði, heldur flækir málið varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar að lútandi.

En enn hefur formleg beiðni eða krafa um þjóðaratkvæðagreiðsu komið fram.  Slík tillaga hefur ekki komið fram, þó að Sturgeon hafi lýst því yfir að hún vilji halda slíka atkvæðagreiðslu í ljósi úrslita Bresku þingkosninganna (nota bene ekki Skoskra þingkosninga).

Hvers vegna hefur hún ekki lagt slíka tillögu fyrir þingið?

Ekki ætla ég að fullyrða neitt um astæðu þess.

Ef til vill vegna þess að skoðanakannanir hafa ekki sýnt stuðning við slíkt og svo hitt, að ef ég man rétt eru Skoskar þingkosningar í ár.

Þar verður ábyggilega bæði sjálfstæði og þjóðaratkvæði til umræðu.

Persónulega sé ég enga sérstaka hræsni í því að segja að ekki sé tímabært að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotland.

Hefðu Bretar sagt já við því að halda áfram að vera í "Sambandinu" 2016, sæi ég engin sterk rök fyrir því að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um það í ár eða næsta ár.

G. Tómas Gunnarsson, 1.3.2020 kl. 21:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband