Dagskrárstjórar "Sambandsins" láta til sín taka

Það eru miklar umbyltingar á fjölmiðlamarkaði, ekki síst afþreyingarhluta hans. Reyndar hafa verið nær stanslausar "umhleypingar" þar svo áratugum skiptir og sér varla fyrir endann á því.

Neysla á fréttum og afþreyingu hefur breyst og þróast.

Æ færri horfa á "dagskránna", heldur hefur hver og einn stjórn fyrir sig, velur sitt efni.  Fjölskyldur horfa sjaldan eða aldrei saman á sjónvarp, heldur kýs hver og einn sinn dagsrkrárlið.

Allir eru sínir eigin dagskrárstjórar, ef svo má að orði komast.

Þetta er eftirspurnarhliðin.

Þá kemur að framboðshliðinni.

Víðast hvar er enginn skortur á þeirri hlið.  Víða um lönd eru sjónvarpsstöðvar og efnisveitur hins opinbera, sem bjóða upp á fjölbreytta dagskrá á kostnað skattgreiðenda. Margar þeirra þurfa að uppfylla skilyrði hvað varðar framboð, gjarna hvað varðar innlent efni.

Síðan eru alls kyns sjónvarpsstöðvar og efnisveitur í höndum einkaaðila sem ýmist bjóða áskrift eða selja auglýsingar, sumar hvoru tveggja.

En Evrópusambandinu er eitthvað uppsigað við frjálst samband framboðs og eftirspurnar hvað varðar fjölmiðla og vill því setja framboðinu skorður.

"Sambandið" heimtar að minnst 30% af efni allra efnisveita sem starfi innan ríkja þess sé Evrópskt.

Reyndar eins og er algengt nú orðið lætur það sér ekki nægja að stjórna innan sinnan eigin landamæra, heldur krefst þess sama af Íslandi, Noregi og Liechtenstein.

Að hluta til virðist "Sambandið" ætla sér að taka að sér að hluta til "menningarlega tilsjá" með Íslandi.

Það er eiginlega með eindæmum hvernig "fríverslunarsamningur" þar sem Íslendingar "fengu allt fyrir ekkert", eins og fullyrt var á sínum tíma, hefur leitt þjóðina á þennan stað.

Eru Íslendingar einhverju bættari og menningu þeirra á einhvern hátt hjálpað með því að Netflix (og aðrar svipaðar efnisveitur) setji inn aukinn fjölda af Búlgörskum, Eistneskum, Rúmenskum og Pólskum kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum?

Myndu Íslendingar ekki frekar vilja setja skilyrði um að t.d. ákveðið hlutfall (mun lægra en 30%) af efni yrði að vera Íslenskt, eða ákveðið hlutfall barnaefnis yrði að vera talsett á Íslensku, eða eitthvað í þá áttina?

En "kommissarnir" vilja auðvitað ráða ferðinni, og þar sem "kommissarar" hafa ráðið ferðinni hafa þeir yfirleitt verið hrifnir af "kvótum" og "kvótana" þarf að fylla.  Með góðu eða illu.

Auðvitað vilja allar streymisveitur bjóða upp á efni sem nýtur vinsælda og er mikið horft á.  Á meðal þess er og hefur alltaf verið Evrópskt efni.

En það er auðvitað misjafnt ár frá ári hve mikið það er, og með auknum fjölda efnisveita dreifist það á fleiri staði.  Því gæti það hæglega orðið svo að til að fylla "kvótann" verði gripið til þess að kaupa það ódýrasta sem býðst, því áhorfið verði hvort sem er það lítið.

Þannig eru svona inngrip oft mjög tvíeggjuð.

En vissulega mun þetta færa þó nokkuð fé til Evrópskra framleiðenda, ef til vill er það megin ástæðan.

En þetta er enn eitt dæmið um stjórnlyndið sem svo oft ræður ríkjum í "Sambandinu" og getur verið svo hvimleitt.

Ef að t.d. efnisveita sem hefði eingöngu Disneymyndir á boðstólum er ógn við Evrópska menningu er ekki mikið varið í þá menningu.

En auðvitað er það bisnesshugmynd (alveg ókeypis fyrir þá sem vilja framkvæma hana) að setja á stofn efnisveitu eingöngu með Evrópsku efni.  Ef það næðist 30% markaðshlutdeild væri hún líklega í góðum málum.

P.S. Mikið væri gaman að heyra álit þingmanna Viðreisnar á svona framkomu Evrópusambandsins.  Getur það verið að flokkur sem vill afnema  reglur um Íslensk mannanöfn (sem ég er sammála) styðji að "Sambandið" setji "kvóta" á uppruna kvikmynda og sjónvarpsþátta? 

Ristir þeirra meinta "frjálslyndi" ekki dýpra en svo?

P.S.S. Hvað gerir kvikmynd eða sjónvarpsþátt Evrópskan?  Tungumálið, fjármögnunin?  Framleiðslulandið? Hvað með samframleiðslur, og fjármögnun frá mörgum heimsálfum, m.a. Evrópu?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Er þetta nú ekki hálf kjánalegt hissyfit?

Maður getur jú valið sjálfur hvað maður horfir á á Netflix. Er slæmt að fjölbreytni efnisins aukist?

Kristján G. Arngrímsson, 20.2.2020 kl. 12:22

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Vissulega má líta svo á að óþarfi sé að æsa sig yfir þessu.

En ég er þó, eins og þér hefur líklega rennt í grun, ekki sammála því.

Vissulega velur einstaklingurinn sjálfur hvað hann horfir á, hvort sem er á Netflix eða á öðrum miðlum.

Miðillinn velur síðan það sem boðið er upp, gjarna (en ekki algilt) eftir því sem "mengi" viðskiptavina hefur valið áður, stundum jafnvel á öðrum vettvangi s.s. kvikmyndahúsum.

En séu efnisveitur neyddar til að kaupa efni sem nýtur takmarkaðra vinsælda hlýtur kostnaðurinn að aukast og fyrr eða síðar kemur það fram í hækkun áskriftar (nema hjá þeim sem geta sótt í vasa skattgreiðenda).

Er eitthvað sérstakt tilefni til þess að skikka efnisveitur til að bjóða upp á efni sem er lítil eftirspurn eftir?

Finnst þér hræðilegt að til skuli era til efnisveita sem býður bara upp á Breskt efni?  Það er BritBox.

Væri hræðilegt ef til væri efnisveita sem sýndi bara Disneymyndir?

Það er enginn skikkaður til að kaupa áskrift að slíkum efnisveitum.

Það er enginn á móti fjölbreytni tel ég almennt, en það er t.d. engin ástæða til þess að skikka verslanir til að bjóða upp á ákveðin tegundafjölda af morgunkorni, þó að neytendum þyki ábyggilega fjölbreytni og vöruúrval jákvætt.

G. Tómas Gunnarsson, 20.2.2020 kl. 13:45

3 identicon

Er nú ekki gott að ESB velji fyrir okkur efni til að horfa á. Annars þurfum við sjálf að velja efnið og við höfum alls ekki vit á hvað okkur er fyrir bestu. Við gætum hugsanlega valið eintómt amerískt efni sem er óhollt og ómenningarlegt. Þetta er vitað.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 20.2.2020 kl. 17:39

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Stefán Örn, þakka þér fyrir þetta. Sem betur fer er það nú ekki svo að "Sambandið" ætli að velja ofan í okkur efnið sem við horfum á.

Það vill hins vegar stýra að ákveðnu marki hvers kyns efni okkur verður boðið upp á, það er að segja hvað varðar uppruna.

Það er að mínu mati engin ástæða til þess að "Sambandið" blandi sér með þessum hætti í framboð efnisveita.  Efni sem eftirspurn er eftir finnur sér leið til neytenda.

Ég get ekki séð að nokkuð sé að "einhæfum" efnisveitum, s.s. BritBox.  En það er auðvitað rétt hjá þér að "undirtónninn" er að auðvitað vill "Sambandið" beita sér gegn Bandarískum fyrirtækjum. 

Þetta er í raun aðeins ein tegund af viðskiptahindrunum sem "Sambandinu" er gjarnt að beita og er öflugt í að upphugsa.  Ég er ekki frá því að það sé öflugra í því en fríverslun.

G. Tómas Gunnarsson, 20.2.2020 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband