Pólítíkusar þurfa ekki að vera fullkomnir, þeir þurfa aðeins að líta betur út en keppinautarnir

Ef þú ert í hópi manna að hlaupa undan birni, þarftu ekki að hlaupa hraðar en björninn, þú þarft bara að hlaupa hraðar en einhver hinna.

Svipuð lögmál eru gjarna að verki í pólítík, þú þarft ekki að vera frábær frambjóðandi, það dugar að virka örlítið betur á kjósendur en keppinautur/inn/arnir.

Og á það mun reyna í forsetakosningunum í Bandaríkjunum næsta haust.

Mér flaug þetta si sona í hug þegar ég var að ræða við kunningja minn um forskosningar Demókrata.

Hann er frekar ákafur stuðningsmaður Demókrata (eins og margir Kanadamenn, sérstaklega í austur fylkjunum).  En honum leist ekki á blikuna og var farinn að óttast 4.ár af DJ Trump til viðbótar.

Honum fannst þeir sem væru að berjast um tilfnefningu flokksins ekki líklegir til að geta "hlaupið hraðar" en Trump.

Þó að hann sé áfram um velgengni Demókrata vill hann alls ekki fá Bernie Sanders sem frambjóðenda flokksins, hann sé einfaldlega of vinstri sinnaður.

Þar er ég sammála honum, þó að alltaf sé reynt að teikna Sanders upp sem stjórnmálamann "svona eins og gerist á Norðurlöndunum", er það að mínu mati einfaldlega rangt.

Sanders er einfaldlega gamaldags sósíalisti og hættulegur sem slíkur. Eignaupptökur og ríkisstörf handa öllum (sem vilja) er ekki pólítíkin sem gengur á Norðurlöndunum.

Okkur leist báðum þokkalega á Buttigieg, en kunningi minn lét þau orð falla að þó að hann myndi áreiðanlega fá afar góða kosningu þar sem Demókratar hafa sterka stöðu, þá myndi samkynhneigður maður með nafn sem margir eiga í erfiðleikum að bera fram en er "butt eitthvað", eiga erfitt uppdráttar í mörgum þeirra ríkja sem baráttan er hörðust (Bútedge er nokkurn veginn réttur framburður ef ég hef skilið rétt).

Kunningi minn taldi að tími Biden's virðist liðinn, ef hann hafi einhvern tíma verið til staðar, ef til vill hefði hann átt möguleika fyrir 4. árum en ekki nú.

Hann var nokkuð hrifinn af Klobuchar og þuldi upp góð málefni sem hún stæði fyrir, en ég verð að viðurkenna að það fór ofan garðs og neðan hjá mér.

Og svo fórum við að tala um Bloomberg og hvort að honum tækist að ná útnefningunni?

Það væri óneitanlega nokkuð sérstakt ef tveir milljarðamæringar sem töldust í "den" sitt á hvað Demókrata- eða Republíkanmegin, berðust um forsetaembættið.

Reyndar hafa þeir báðir flakkað með flokkstengsl sín, verið Demókratar, Repúblikanar og óháðir.

Ég heyrði að Trump hefði breytt "affiliation" sinni í það minnsta 5 sinnum og líklega er Bloomberg ekki langt á eftir.

Hann breyttist úr Demókrata í Repúblikana þegar hann bauð sig fram fyrsta sinn til borgarstjóra New York borgar, fyrir tæpum tveimur árum varð hann Demókrati, en í millitíðinni hafði hann verið óháður.

Líklega verður hvorugur þeirra sakaður um flokkshollustu.

En hvort að þeir bítist um forsetaembættið á eftir að koma í ljós.

Það er of snemmt að spá um hvernig forkosningar Demókrata fara. Það ræðst líklega ekki hvað síst þegar einstaka frambjóðendur hellast úr lestinni, hvenær og hvernig þeir munu gera það.

Sanders mun líklega hagnast á þvi að sem flestir haldi sem lengst áfram. Að atkvæðin skiptist á sem flesta staði.

Bloomberg, Buttigieg og Klobuchar myndu líklega hagnast á því að sem fæstir verði eftir. 

Hvað lengi heldur Biden áfram, á hann einhverja von?

En þetta verða fróðlegar forkosningar.

 


mbl.is „Hver kýs mann sem elskar að kyssa manninn sinn?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband