31.1.2020 | 22:29
Þegar stórt er spurt: Geta "vondir" einstaklingar skapað "góða" list?
Enn og aftur er Polanski í miðju deilu sem þó nær yfir mun stærra svið.
Geta "vondir" einstaklingar skapað "góða" list?
Nú er auðvitað umdeilanlegt hvað er góð list og allt það, og stundum má efast um sekt viðkomandi einstaklinga, en það er þó varla í tilfelli Polanski´s.
En hvers vegna hefur hið hámenningarlega og lýðræðislega Frakkland neitað að framselja hann? Er það vegna þess að einhver önnur lögmál gilda um listamenn en aðra "dauðlega" einstaklinga? Er það ef til vill vegna þess að í Frakklandi þess tíma þótti "framferði" Polanskis nokkuð sjálfsagt mál?
Ekki veit ég svarið við því.
Er Bíó Paradís sem sýnir nýjust mynd Polanski´s að leggja blessun sýna yfir að "nauðgari" gangi laus? Er bíóið að kynda undir einhverri "nauðgunarmenningu"?
Ekki veit ég svarið við því.
Er Reykjavíkurborg, sem styrkir Bíó Paradís, að leggja blessun sína yfir það að kvikmyndir "nauðgara" séu sýndar (og þá niðurgreiddar af Reykjavíkurborg) í Reykjavík?
Ekki veit ég svarið við því.
Eru leigusalar Bío Paradísar samábyrgir fyrir því að verið sé að sýna myndir "nauðgara" í húsakynnum í þeirra eigu? (Varð eiginlega að koma þessu að vegna fréttanna undanfarna daga).
Ekki veit ég svarið við því.
Er mögulegt að skilja á milli höfunda og verka þeirra eða ekki?
Um það hefur oft verið deilt undanfarin ár.
Það nægir að nefna nöfn eins og Woody Allen, Michael Jackson, Kevin Spacey, Bill Cosby og já Roman Polanski.
Þó er munurinn sá að af þessum einstaklingum hafa aðeins Bill Cosby og Roman Polanski verið sakfelldir, alla vegna eins langt og minni mitt nær.
En ég viðurkenni fúslega að hafa notið "listaverka" sem þessir einstaklingar hafa komið nálægt, jafnvel eftir að viðkomandi hafa verið sakfelldir.
En listamenn hafa einnig legið undir ámæli fyrir pólítískar skoðanir sínar eða "daður" í "óæskilegar" áttir.
Norðmenn hafa til dæmis átt í "erfiðu" sambandi við Hamsun, eftir "samgang" hans við nazista.
Íslendingar þekkja einnig umræðuna um Gunnar Gunnarsson og Guðmund Kamban.
Halldór Laxness "lofsaung" kommúnista og hylmdi yfir voðaverkum þeirra. Ættu Íslendingar að taka það með í reikninginn þegar þeir meta skáldverk hans?
Persónulega held ég að hver og einn verði að ákveða allt þetta fyrir sig.
Ég setti inn hér að ofan "ég veit ekki svarið við því", vegna þess að ég tel ekkert eitt svar rétt.
Hér gildir ákvörðun hvers og eins.
Ég hef aldrei átt erfitt með að skilja á milli pólítískra skoðana eða gjörða og "afurða" listamanna.
Ég hef notið mynda Woody Allen, þrátt fyrir ásakanir á hendur honum, ég hef horft á myndir Polanskis þó að ég viti af sekt hans.
Ég les bækur Hallgríms Helgasonar, þrátt fyrir að gefa minna en ekkert fyrir pólítískar skoðanir hans, það truflar mig ekkert við að lesa bækur Einars Kárasonar að hann hafi verið í framboði fyrir Samfylkinguna, og Einar Már Guðmundsson er minn uppáhalds rithöfundur þó að pólítískar skoðanir hans falli ekki að mínum.
Ef svo bæri undir gæti ég alveg hugsað mér að lesa skáldsögu eftir morðingja.
Og ég veit að Halldór Laxness er í uppáhaldi hjá mörgum þó að þeir telji hann eiga skilið skömm í hattinn fyrir að hafa hylmt yfir voðaverkum kommúnista.
Kastar "pedófílískur" boðskapur leiðtoga vinstrisinnaðra hreyfinga í kringum 1970 og seinna græningja, skugga á þær hreyfingar, eða gerir það að verkum að leiða ætti hjá sér allan boðskap þeirra?
Auðvitað ekki, alla vegna ekki af þeim ástæðum.
En fer best á, eins og í mörgum tilfellum best á að hver ákveði fyrir sig. Sumir ákveða að sniðganga mynd Polanskis, aðrir ganga lengra og sniðganga Bíó Paradís fyrir að veita henni brautargengi.
Aðrir njóta hennar og annara listaverka, burtséð frá öðrum (mis)gjörðum listamannanna.
Ef til vill er best að enda þetta á "c´est la vie".
Reiði vegna 12 tilnefninga J'accuse | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Kvikmyndir, Menning og listir, Sveitarstjórnarkosningar | Breytt 15.6.2020 kl. 09:30 | Facebook
Athugasemdir
Paul Johnson skrifaði eitt sinn bók þar sem hann rakti siðferðisbresti vinstrisinnaðra menntamanna. Bókin heitir Intellectuals. Skoðun Johnsons hefur líklega verið sú að siðferðisbrestir í einkalífinu rýrðu með einhverjum hætti gildi verka þessara manna.
Þorsteinn Siglaugsson, 1.2.2020 kl. 16:38
@Þorsteinn, þakka þér fyrir þetta. Ég hef ekki lesið bók P. Johnson, en hef heyrt misjafnlega af henni látið. Ætla ekki að taka afstöðu til hennar.
En vissulega er hægt að líta á þessi mál frá mörgum sjónarhornum.
Varla myndu margir sniðganga uppgötvun eðlis- eða stjörnufræðings vegna "siðferðisbrests" þeirra?
En alvarlegur "siðferðisbrestur" gæti verið alvarlegra mál fyrir "predikara" eða "sáluleiðtoga".
Þó eru til sögusagnir um páfa sem hafa dáið í samförum án þess að það hafi haft mikil áhrif á boðskapinn, eða kaþólsku kirkjuna.
https://www.kenyatalk.com/index.php?threads/list-of-4-roman-catholic-popes-who-died-during-sex-1-actually-died-while-being-sodomised.32309/
En fyrst og fremst verður hver og einn að dæma þetta fyrir sjálfan sig.
Núna er mikið talað um tónlist Hildar Guðnadóttur í kvikyndinni "The Joker". Það sem ég hef heyrt af henn er frábært.
En í myndinni er önnur umdeildari tónlist. https://www.youtube.com/watch?v=NgrM4_JMi9w
Það er í tröppuatriðinu fræga, en þar hljómar undir í byrjun tónlist einhvers argasta barnaníðings sem ég hef heyrt af, Gary Glitter. En hann situr nú í fangelsi fyrir athæfi sitt. Ef til vill er það einhverjum huggun að hann fær ekki greitt fyrir notkunina, vegna þess að hann seldi réttinn af tónlistinni fyrir mörgum árum.
En sjálfsagt er þetta einhverjum nóg til að sniðganga myndina, og þessi notkun var umdeild.
En þetta er flókið mál og eðlilegt að skoðanir séu skiptar.
Það er eðlilegt að margir efist um að einstaklingar með alvarlega siðferðisbresti í farteskinu (sem geta þó verið skiptar skoðanir á) séu til þess fallnir að móta samfélag.
En getum við útilokað að "góðar" hugmyndir komi frá "vondu" fólki?
G. Tómas Gunnarsson, 1.2.2020 kl. 18:18
Af hverju þurfa listamenn að vera móralskt góðir? Það er frekar heftandi, sérstaklega þar sem þá verður ómögulegt að gera klassísk verk.
Allir fyrir 1950 voru áberandi rasistar. Howard Philips Lovecraft hlýtur að hafa unnið til einskonar verðalauna í þeim flokki. En er mjög góður höfundur, á sinn hátt.
Jack London var kommúnisti. Semsagt pjúra evil. Hann þykir samt þolanlegur höfundur.
Kurt Kúbein og Layne Staley voru dópistar, sennilega geðveikir báðir tveir. Það hafði áhrif á þeirra verk, en gerði þau ekki verri.
Ledbelly var morðingi.
Ég er á því að verk manna þurfi að dæmast á eigin verðleikum. Menn verandi eins og þeir eru.
Ásgrímur Hartmannsson, 1.2.2020 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.